Kristín Hermannsdóttir Veðurfræðingar standa sig.
Kristín Hermannsdóttir Veðurfræðingar standa sig. — Morgunblaðið/Eggert
Það gleymist alltof oft að hrósa fólki. Atvinnurekendur þessa lands væru í afar vænlegri stöðu ef þeir hefðu vit á því að hrósa starfsfólki sínu reglulega. Það myndi spara þeim mikið vesen. Reyndar er almennt allof lítið um hrós í þjóðfélaginu.

Það gleymist alltof oft að hrósa fólki. Atvinnurekendur þessa lands væru í afar vænlegri stöðu ef þeir hefðu vit á því að hrósa starfsfólki sínu reglulega. Það myndi spara þeim mikið vesen. Reyndar er almennt allof lítið um hrós í þjóðfélaginu. Þess vegna vil ég fá að hrósa. Og nú vil ég hrósa veðurfræðingunum í sjónvarpsfréttum.

Þetta væna fólk var ekki í góðri stöðu fyrir skömmu þegar rigndi dögum og vikum saman á höfuðborgarsvæðinu. Sjónvarpsáhorfendur voru farnir að setja upp fýlusvip um leið og veðurfræðingi brá fyrir á skjánum. Það var litið á veðurfræðinga sem boðbera illra tíðinda. Enda brást ekki að þeir segðu að það myndi rigna næstu daga.

Veðurfræðingarnir glötuðu aldrei ró sinni heldur héldu fagmannlega áfram að skýra frá heldur nöturlegum staðreyndum um úrkomu á höfuðborgarsvæðinu.

Svo kom sólin og leiðinlegu spárnar gleymdust. Sjálfsagt er þó að hrósa veðurfræðingunum fyrir að hafa staðið vakt sína af samviskusemi og haldið yfirvegun í miður eftirsóknarverðum aðstæðum. Þetta eru starfsmenn sem á má treysta.

Kolbrún Bergþórsdóttir