Pönkbæn Félagar úr rússnesku hljómsveitinni Pussy Riot á æfingu. Í samnefndri heimildamynd segir frá réttarhöldunum yfir hljómsveitinni.
Pönkbæn Félagar úr rússnesku hljómsveitinni Pussy Riot á æfingu. Í samnefndri heimildamynd segir frá réttarhöldunum yfir hljómsveitinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimildamynd. Leikstjórar: Mike Lerner og Maxím Posdorovkín. Bretland og Rússland, 2013. 88 mínútur.

Hvenær breytti rokkhljómsveit síðast heiminum?“ spurði tímaritið Foreign Policy þegar það setti hljómsveitina Pussy Riot í 16. sæti yfir 100 helstu áhrifavalda í heiminum í fyrra.

Rússneska hljómsveitin Pussy Riot komst í heimsfréttirnar þegar þrír félagar úr henni voru handteknir og dregnir fyrir dóm fyrir uppákomu í dómkirkju frelsarans í Moskvu. Í heimildamyndinni Pussy Riot: Pönkbæn segir frá atvikinu í kirkjunni og réttarhöldunum.

Endurspeglar ástandið

Hljómsveitin hafði varla náð að spila í mínútu þegar flutningur hennar var stöðvaður. María Aljokína og Nadesjda Tolokonnikova voru dæmdar í tveggja ára fangelsi og Jekaterína Samútsevitsj hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir að flytja lagið Pönkbæn í kirkjunni. Í laginu gagnrýna þær valdabandalag ríkis og kirkju í Rússlandi.

Myndin sýnir hvernig þunglamalegum hrammi ríkisins er beitt af afli til þess að kæfa andófsraddir þriggja, ungra kvenna líkt og fallbyssu sé beint að spörfuglum og auðvelt að líta á hana sem dæmisögu um það hvernig stjórnvöld í Rússlandi bregðast við gagnrýni.

Í fyrstu sýna þær iðrun og biðjast afsökunar á athæfi sínu, en þegar líður að lokum réttarhaldanna eru þær farnar að svara fullum hálsi og skjóta beittum örvum að kerfinu sem hyggst þagga niður í þeim.

Hefði þessi uppákoma orðið á Íslandi hefði orðið fjaðrafok sem síðan hefði lognast út af. Í Rússlandi var málið sett í allt annað samhengi. Stúlkurnar höfðu gert atlögu að trúnni, sem bæld hafði verið niður á tímum Sovétríkjanna, í kirkju.

Hefðu þær troðið upp í mosku hefðu þær mátt sæta skelfilegum örlögum af hendi öfgamanna, málagjöldin fyrir guðlastið í kirkjunni væru mildileg í samanburði.

Þótt Aljokína og Tolokonnikova sitji í fangelsi og Samútsevitsj sé á skilorði er hljómsveitin ekki af baki dottin. Um miðjan júlí birti hljómsveitin nýtt myndband á vefnum Youtube þar sem ráðist er gegn spillingu í olíuiðnaðinum, klíkuskap í Kreml og Gerard Depardieu, sem hrósaði Valdimír Pútín forseta, sem veitti franska leikaranum rússneskt ríkisfang þegar hann kvartaði undan skattpíningu í Frakklandi, fyrir að taka hart á Pussy Riot.

Broddfluga verður fleinn

Á myndbandinu hylur hljómsveitin andlit sín eins og alltaf þegar hún kemur fram þannig að ekki er ljóst hver er á bak við mótmælin. Þannig getur hljómsveitin Pussy Riot verið í fangelsi og í fullu fjöri á sama tíma. Í myndinni er sýnt hvernig rússnesk stjórnvöld gerðu broddflugu að fleini í holdi sínu.

Karl Blöndal