Ákafur ESB-sinni réttlætir fullveldisafsal með formennskusæti í hringekju á 14 ára fresti

Einkennilegur barnaskapur hefur upp á síðkastið litað áherslur áhugamanna um að Ísland verði fellt undir Evrópusambandið. Lengi vel töldu menn eins víst að ekki væri allt sem sýndist og þeir sem færðu fram einfeldningslegustu rökin gerðu það gegn betri vitund. Þeir væru sjálfir einlæglega sannfærðir um að Ísland ætti heima í ESB og sjálfstæði og fullveldi væru úrelt þing. Þeir meintu það því þegar þeir segðu að „vænlegasta leiðin til að tryggja fullveldi væri að farga því“.

En þeim væri jafnframt ljóst að slíkar og þvílíkar yfirlýsingar væru ekki líklegar til að hrífa neinn utan þrengsta hrings sefjaðra. Þeir settu því lengst af allt sitt traust á evruna og dingluðu henni og töfraáhrifum hennar óspart framan í Íslendinga. Og margir voru móttækilegir fyrir slíkum röksemdum.

Og það var svo sem ekkert skrítið. Til að mynda var bent á, hvernig upptaka evru hefði gjörbreytt efnahagslegri tilveru Íra. Og því varð ekki á móti mælt að þar hafði ekki aðeins orðið sjáanlegur uppgangur heldur býsna glæsilegur. Sama mátti segja um Spán, Portúgal, Grikkland og fleiri lönd. Evran færði öllum þessum löndum vellíðan.

Lánveitendur í alkunnri hjarðhegðun sinni ákváðu að aðild að þeirri mynt sem Þjóðverjar notuðu gæfu gerningum í myntinni sjálfkrafa eins konar þýskt traust. Þar við bættist að upptaka evrunnar hélst í hendur við tímabundið hömluleysi lánsfjár sem stærstu seðlabankar heims báru mesta ábyrgð á.

En þetta sæluskeið reyndist dapurlega stutt og vera sama eðlis og það sem ofgnótt áfengra drykkja getur skap-að. Og hinir efnahagslegu timburmenn mættu jafn-stundvíslega og kollegar þeirra sem fylgja Bakkusi gera óbrigðulir.

Sífellt fleirum, jafnvel trúföstustu hagfræðingum, varð smám saman ljóst að sameiginlegur gjaldmiðill hentaði illa þjóðum sem enn hefðu töluvert sjálfstæði í stjórn eigin efnahagsmála. Slíkt sjálfstæði er meginstikan sem horft er til, þegar spurt er, hvort þjóð sé sjálfstæð og fullvalda eða hafi flutt úrslitavald sitt annað.

Það varð íslenskum boðendum ESB-aðildar mikið áfall þegar evran missti sinn áróðurslega töframátt. Það jók vandann hve aðildarsinnar höfðu hengt sig fast á myntina við tilraunir til að „selja“ fólki aðildarhugmyndina. Nú voru fáir kostir góðir. Allt varð því hey í þeim áróðurslegu harðindum sem brustu á.

Þess vegna varð ekki komist hjá að tína til rök sem ekki var litið við áður. Það varð að hafa það þótt þau væru í senn léttvæg og barnaleg. Nýlega sagði fræðimaður í háskólasamfélaginu, sem þó vill sennilega láta taka sig alvarlega, að áður en Litháen hefði farið í ESB hefði það verið áhrifalítið ríki, en nú sæti það í forsæti Evrópusambandsins! Þá er verið að vísa til kostnaðarsamrar hringekju, þar sem ríkin skiptast á að fá að halda á fundarhamrinum á einum eða tveimur leiðtogafundum ESB á 6 mánaða formennskuskeiði!

Fræg var lýsing Der Spiegel á því þegar að forseti ESB-ríkisins Kýpur fékk að tala fyrstur í fjórar mínútur á leiðtogafundi, einmitt í krafti sex mánaða formennskutíma. Spiegel sagði að á meðan hefðu hinir leiðtogarnir skvaldrað sín á milli þannig að ekki heyrðist í forseta Kýpur. Þeir gátu ekki einu sinni sýnt honum málamyndakurteisi í skitnar fjórar mínútur.

Blaðamennirnir sáu svo sem ekkert athugavert við þetta, en máttu þó eiga að þeir gáfu skýringu. Þessi forseti kæmi frá fjarlægu smáríki og hefði áður fengið að stýra fundi og þá hefði heldur ekkert til hans heyrst. Hann myndi því ekki kippa sér upp við þetta. Kýpurforseti getur huggað sig við að nú eru a.m.k. 14 ár þar til þjóðhöfðingi þaðan þarf að sæta slíkri auðmýkingu aftur.

En þessi ómerkilegi dónaskapur við litla formennskuríkið skiptir þó í rauninni ekki neinu máli. Jafnvel þótt hinir leiðtogarnir hefðu getað setið á sér í þessar 4 mínútur þá breytir það ekki því að þessi formennskuríkishringekja bætir í engu fyrir fullveldisafsal ríkis. Það gildir líka um smáríki eins og Litháen (10 sinnum fjölmennara en Ísland), sem talað var niður til, þar til að það varð áhrifalaust „formennskuríki“ í 6 mánuði.

Þetta veit fræðimaður, sem að auki segist sérfróður í mál-efnum ESB. Og þá stendur aðeins ein spurning eftir: Af hverju þessi látalæti? Af hverju þessi hálfsannleikur?