Athöfn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggur blómsveiginn.
Athöfn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggur blómsveiginn. — Morgunblaðið/Steinþór Guðbjartsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í Winnipeg í Kanada í gær og heiðraði minningu Vestur-Íslendinga frá Manitoba, sem voru í hernum eða friðargæslusveitum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í Winnipeg í Kanada í gær og heiðraði minningu Vestur-Íslendinga frá Manitoba, sem voru í hernum eða friðargæslusveitum.

Forsætisráðherra lagði blómsveig að minnisvarða um fallna hermenn og friðargæsluliða frá Manitoba, en á meðal hinna látnu frá 1914 til nútímans eru margir af íslenskum ættum. Þeirra þekktastur er William Stephenson, sem var hermaður í fyrri heimsstyrjöldinni, einn fremsti njósnaforingi Breta í síðari heimsstyrjöldinni og fyrirmynd Ians Flemings að njósnaranum James Bond.

Sigmundur Davíð verður heiðursgestur á Íslendingahátíðinni í Mountain í Norður-Dakota í Bandaríkjunum í dag og heldur síðan aftur til Manitoba til að taka þátt í Íslendingadagshátíðinni á Gimli um helgina.

Hátíðin í Mountain fer nú fram í 114. sinn en Íslendingadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 1890 og skemmtunin er nú haldin í 124. sinn. 135 ár eru frá því Íslendingar settust fyrst að í Norður-Dakota, en fyrsti hópur Íslendinga kom til Winnipeg og síðar þar sem nú er Gimli í október 1875.

steinthor@mbl.is