Nýkjörinn Rowhani þykir meðal hófsamari stjórnmálamönnum í Íran.
Nýkjörinn Rowhani þykir meðal hófsamari stjórnmálamönnum í Íran. — AFP
Nýkjörinn forseti Íran, Hassan Rowhani, sem tekur við embætti í dag, sagði í gær að Ísraelsstjórn væri sár á múslímaheiminum sem þyrfti að hreinsa.

Nýkjörinn forseti Íran, Hassan Rowhani, sem tekur við embætti í dag, sagði í gær að Ísraelsstjórn væri sár á múslímaheiminum sem þyrfti að hreinsa. Ummælin lét hann falla í samtali við fréttamenn á Quad-degi en þá efna Íranar til mikilla mótmælaganga gegn síonistum og yfirráðum Ísrael yfir Jerúsalem.

Rowhani þykir hófsamari en gengur og gerist innan íranska stjórnkerfisins en andstaða við sjálfstætt Ísraelsríki hefur verið óhagganlegur hornsteinn utanríkisstefnu Írana frá 1979. Ríkissjónvarp landsins sýndi í gær frá fjöldagöngum þar sem hundruð þúsunda hrópuðu „Dauði yfir Ísrael“ og „Dauði yfir Ameríku.“

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði að Rowhani hefði með ummælum sínum sýnt sitt rétta andlit, fyrr en búast hefði mátt við. „Ummæli forsetans ættu að vekja hluta af heiminum af tálsýnum sínum,“ sagði forsætisráðherrann.

Hann sagði að þrátt fyrir að forsetaskipti hefðu orðið í Íran væri það enn markmið stjórnvalda að smíða kjarnorkuvopn til að ógna Ísrael, Miðausturlöndum og friði og öryggi um allan heim.

Áður en fregnir bárust af ummælum Rowhani í gær sagði Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, að hann vonaðist til þess að viðræður um kjarnorkuáætlun Írana myndu þokast áfram eftir að Rowhani tæki embætti. Hann ítrekaði þó að Vesturveldin myndu halda áfram refsiaðgerðum gegn landinu þar til þau væru þess fullviss að Íranar hefðu fallið frá þróun kjarnavopna.