Mikið annríki er að venju hjá flugfélögum landsins um verslunarmannahelgina. Þannig munu um 3500 farþegar fljúga með Flugfélagi Íslands innanlands um helgina.

Mikið annríki er að venju hjá flugfélögum landsins um verslunarmannahelgina.

Þannig munu um 3500 farþegar fljúga með Flugfélagi Íslands innanlands um helgina. Flestir fljúga á föstudag og á mánudag, en frídagur verslunarmanna er yfirleitt einn stærsti dagur ársins í innanlandsflugi Flugfélagsins.

Akureyri er vinsælasti áfangastaðurinn en einnig lögðu mjög margir leið sína á Mýrarboltann á Ísafirði og til Egilsstaða. Flugfélagið flýgur einnig til og frá Vestmannaeyjum um helgina en félagið er ekki með áætlunarflug þangað.

Flugfélagið Ernir hafði einnig í nógu að snúast í gær. Áætlað var að fara 12 ferðir til Vestmannaeyja frá Reykjavík með rúmlega 200 farþega sem ætla að skemmta sér á Þjóðhátíð í Eyjum.

Á mánudag áætlar Ernir að fljúga 17 ferðir frá Eyjum með um 350 farþega.