Viðhorf Kristján Jónsson kris@mbl.is Á Íslandsmótinu í golfi sem er nýlokið voru margir ungir kylfingar í baráttunni sem eiga framtíðina fyrir sér.

Viðhorf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Á Íslandsmótinu í golfi sem er nýlokið voru margir ungir kylfingar í baráttunni sem eiga framtíðina fyrir sér. Var það raunar svo að tveir ungir kylfingar höfðu forystuna lengi vel framan af mótinu, Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili.

Mér fannst athyglisvert hversu vel þau nálguðust þá áskorun að vera í efstu sætum Íslandsmótsins eftir fyrstu tvo dagana. Voru þau mjög hógvær og varkár í öllum viðtölum og bentu ítrekað á að mót eins og Íslandsmót er langhlaup og vinnst ekki á einum góðum hring. Haraldur talaði til dæmis bæði um að keppt væri í þolinmæði og að keppt væri í að gera sem fæst mistök í þessu stærsta móti sumarsins. Mikið til í þessu hjá honum enda hefur hann reynslu af því að vinna mótið sem hann gerði á Hellu í fyrra.

Þó svo að þau hafi ekki staðið uppi sem sigurvegarar þá verður ekki sagt að þau hafi runnið á rassinn. Haraldur lék illa á aðeins einni holu af sjötíu og tveimur og Guðrún varð jöfn tveimur öðrum í efsta sæti. Hún fór fjórar aukaholur í umspili og bráðabana áður en hún þurfti að játa sig sigraða. Þau misstu því ekki af titlunum vegna þess að jarðsambandið hafi slitnað eins og stundum vill gerast.

Guðrún hefur ekki unnið mótið og það hafði Sunna Víðisdóttir úr GR ekki heldur gert þar til á sunnudaginn. Sama er hægt að segja um Sunnu eins og þau Harald og Guðrúnu. Öll virka þau á mann sem jarðbundnir og heilsteyptir persónuleikar, sem höndla það vel að hafa komist í fremstu röð á landsvísu. Þannig innréttaðir einstaklingar geta náð langt í erfiðri einstaklingsíþrótt sem golfið er auk þess að vera flottir sendiherrar fyrir íþróttina hérlendis. Þetta á auðvitað um fleiri en þessi þrjú sem hér eru nefnd og í öllu falli er ljóst að golfkennarar landsins eru að gera eitthvað rétt, ásamt auðvitað foreldrunum.

Fyrst hér er fjallað um faglega framkomu kylfinga er ekki úr vegi að minnast einnig á Birgi Leif Hafþórsson úr GKG sem er ögn reyndari. Mjög skemmtilegt er að fylgjast með Birgi á Íslandsmóti. Hann er ekki bara listamaður á vellinum heldur er hann einnig duglegur að gefa af sér. Framan af mótinu, þegar hann var ekki í forystu, þá var hann ávallt sjáanlegur í klúbbhúsinu og ræddi við fólk. Þegar ungir aðdáaendur óskuðu eftir myndatöku með honum, þá var það ekki bara sjálfsagt, heldur sýndi hann þeim áhuga og gaf sér tíma í smá spjall. Mjög hressandi að verða vitni að svona fagmennsku.

Birgir er kóngurinn í íslensku golfi og hefur verið um nokkra hríð. Slíkt hlutverk getur verið vandmeðfarið en Birgir kann þá list að vera kóngur án þess að gera lítið úr öðrum í leiðinni. Golfhreyfingin má vera ánægð með kónginn sinn og sendiherrana sína.