Olga Frá vinstri félagarnir Philip Barkhudarov, Haraldur Hreinn Eyjólfsson, Bjarni Guðmundsson og Pétur Oddbergur Heimisson.
Olga Frá vinstri félagarnir Philip Barkhudarov, Haraldur Hreinn Eyjólfsson, Bjarni Guðmundsson og Pétur Oddbergur Heimisson. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Sönghópurinn Olga heldur í stutta tónleikaferð um landið og verða fyrstu tónleikarnir haldnir í dag kl. 18 í Flateyjarkirkju í Flatey á Breiðafirði.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Sönghópurinn Olga heldur í stutta tónleikaferð um landið og verða fyrstu tónleikarnir haldnir í dag kl. 18 í Flateyjarkirkju í Flatey á Breiðafirði. Þaðan er förinni heitið til Ólafsfjarðar, sungið í menningarhúsinu Tjarnarborg í Fjallabyggð, 6. ágúst kl. 20 og í Djúpavogskirkju tveimur dögum síðar, einnig kl. 20. Föstudaginn 9. ágúst verða svo haldnir tónleikar í Áskirkju í Reykjavík, kl. 20 og 10. ágúst í Fríkirkjunni í Reykjavík, kl. 18.15. Olgu skipa fimm ungir menn sem stunda söngnám við Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi og eiga það allir sameiginlegt að nema hjá Jóni Þorsteinssyni frá Ólafsfirði, sem þar er dósent. Þetta eru þeir Bjarni Guðmundsson sem syngur 1. tenór, Haraldur Sveinn Eyjólfsson, 2. tenór, Hollendingurinn Gulian van Nierop og Pétur Oddbergur Heimisson, 1. bassar og Philip Barkhudarov, Rússi sem ólst upp í Bandaríkjunum og syngur 2. bassa. Félagarnir munu flytja íslensk, ensk, þýsk og rússnesk söng- og þjóðlög og að sjálfsögðu án undirleiks, a capella.

Tengingar við tónleikastaði

„Við héldum okkar fyrstu tónleika í sendiráðsbústaðnum í Brüssel í mars, það voru styrktartónleikar og fyrsta stóra verkefnið okkar,“ segir Pétur um sönghópinn Olgu. „Í framhaldi af því tókum við þátt í verkefni sem heitir Live Music Now í Hollandi. Þá er farið á staði og sungið fyrir fólk sem hefur ekki tök á því að fara á tónleika, t.d. fanga og flóttamenn. Við sungum einmitt fyrir flóttamenn í maí og svo héldum við tvenna tónleika í Utrecht í júní, í kirkju þar, í undirbúningi fyrir tónleikaferðalagið á Íslandi,“ bætir Pétur við.

-Hvers vegna urðu þessir tónleikastaðir fyrir valinu, Flatey, Ólafsfjörður, Djúpavogur og svo staðirnir tveir í Reykjavík?

„Ég er tengdur Flatey, er að vinna á Hótel Flatey og fjölskylda mín á sumarhús þar. Eins og áður hefur komið fram þá er söngkennarinn okkar Ólafsfirðingur að ætt og uppruna og við verðum í tímum hjá honum og heimsækjum hann. Eiginkona Philips er frá Djúpavogi og svo höfum við Bjarni og Haraldur haldið tónleika áður í Áskirkju. Fríkirkjan varð fyrir valinu af því hún er í miðbæ Reykjavíkur.“ svarar Pétur. „Þetta verður svolítið mikil keyrsla á okkur, við förum frá Djúpavogi til Reykjavíkur á föstudeginum og verðum með tónleika um kvöldið. Þetta verður dálítið álag en við erum tilbúnir í þetta,“ segir Pétur um tónleikaferðina.

Ánægðir með Olgu

En hvaðan kemur nafnið á hópnum, Olga?

„Nafnið kom bara upp. Við höfðum ákveðnar efasemdir um það í fyrstu en það hefur vanist ótrúlega vel. Við erum mjög ánægðir með það núna og líka þessa tengingu við Rússland. Ég tengi þetta nafn við rússneska konu,“ svarar Pétur kíminn og spurður að því hvort þeir syngi um einhverja Olgu segir hann svo vissulega vera.

Og talandi um Olgu, eða öllu heldur Olgur, þá sendu félagarnir í sönghópnum öllum stúlkum og konum með því nafni á Íslandi bréf, öllum yfir sex ára aldri. „Við prentuðum það út í 283 eintökum og skrifuðum undir öll bréfin, sendum öllum Olgum og buðum þeim frítt á tónleikana okkar,“ segir Pétur kíminn.

Á vefnum Soundcloud má finna nokkur lög með Olgu. Slóðin er soundcloud.com/olgavocalensemble.