Aðalsteinn Gunnarsson
Aðalsteinn Gunnarsson
Eftir Aðalstein Gunnarsson: "Börn og ungmenni vilja góðar minningar með fjölskyldunni í sumar. Það er hlutverk foreldranna að vernda þau fyrir óæskilegum áhrifum."

Samvera fjölskyldunnar er mikilvæg. Rannsóknir sýna að hún hefur mikið forvarnagildi. Ungmenni vita það líka og þeim líkar að vera í öruggum faðmi foreldra. Auðvitað er stundum erfitt fyrir þau að viðurkenna það. Foreldrar þurfa að vera tilbúnir að sinna sínu hlutverki. Ungmennin þurfa að geta treyst því að foreldrarnir standi fast á sínum skoðunum þegar kemur að öryggi og utanumhaldi.

Foreldrar vita að forvarnir virka og þær þarf að virkja. Börn og ungmenni vilja eiga fleiri samverustundir til að skapa góðar minningar. Í sumar er áberandi að í samfélaginu er nóg af áhrifum sem vilja að ungmenni byrji áfengisneyslu. Stemningin sem birtist í mörgum skilaboðum á ýmsum miðlum frá áfengisframleiðendum eru á þá leið að ekki sé hægt að skemmta sér án áfengis.

Við vitum að þetta er rangt. Það er óþolandi ofbeldi gagnvart börnum og ungmennum hvernig auglýsingarnar birtast þeim þrátt fyrir að þær séu bannaðar.

IOGT á Íslandi vill hvetja þá sem bjóða upp á hátíðir í sumar að hyggja vel að skipulagi er varðar öryggi barna og ungmenna, t.d. með því að framfylgja áfengislögum hvað varðar aðgengi og aldursmörk, lögum um útivistartíma barna og barnaverndarlögum. Að sjálfsögðu óskum öllum landsmönnum góðrar ferðahelgar og skemmtið ykkur vel vímulaust.

Höfundur er framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi.