Mezzo-sópran Christine segir margan fjársjóðinn að finna í íslenskri tónlistarhefð og ófá lög á heimsmælikvarða.
Mezzo-sópran Christine segir margan fjársjóðinn að finna í íslenskri tónlistarhefð og ófá lög á heimsmælikvarða. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.
Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is

„Það er svo merkilegt að ég hóf nýlega að syngja að nýju eftir hlé en það var íslenska tónlistin sem kom mér aftur af stað,“ segir kanadíska mezzósópransöngkonan Christine Antenbring, létt í bragði, í samtali við Morgunblaðið.

Christine mun flytja íslensk sönglög, bæði eftir hérlenda höfunda sem og af íslenskum ættum í Vesturheimi, í Norðurljósasal Hörpu á menningarnótt. Hingað kemur hún frá Winnipeg en hún er af íslenskum ættum og komin af þekktu tónlistarfólki. Belgískur eiginmaður hennar, Mikhail Hallak, mun sjá um undirleikinn í Hörpu en hann er píanóleikari að atvinnu og hefur spilað víða um heim.

Fjársjóðir á heimsmælikvarða í íslenskri tónlistarsögu

Á efnisskránni á menningarnótt verður meðal annars að finna Draumaland Sigfúsar Einarssonar auk laga eftir Jórunni Viðar, ömmu Christine Elvu Gíslason, Atla Heimi Sveinsson og frænda hennar Þorvald Gylfason, svo fátt eitt sé talið.

„Ég hef leikinn á eldri lögum þ.e. þjóðlögum, og enda á nútímalegri verkum – það má eiginlega segja að ég fari í gegnum söguna uns ég enda hérna heima í dag,“ segir Christine um dagskrána.

Sjálf segir hún hafa komið sér á óvart hversu rík íslensk tónlistarhefð sé og þar margan fjársjóðinn að finna.

„Ég vissi afar lítið um íslenska lagahefð áður en ég fór að kynna mér hana betur. Þar komst ég að því að hér hafa ýmsar stórmerkilegar tónsmíðar verið samdar, lög á borð við t.d. Draumalandið, sem er klárlega tónsmíð á heimsmælikvarða,“ segir hún full eldmóðs. Finnst henni Íslendingar ef eitthvað er hafa verið full hógværir þegar talið berst að íslenskri tónlist í gegnum tíðina og oft á tíðum gert helst til of lítið úr. „Öll þessi tónskáld, rétt eins og rithöfundar, frá eyju með ekki fleiri íbúa,“ bætir hún við máli sínu til stuðnings.

Flutti Draumalandið í Carnegie Hall

Christine tók nýverið aftur til við sönginn sem fyrr sagði, eftir að hafa helgað sig uppeldi sonarins, sem nú er níu ára, undanfarin sex ár.

Höfðu ýmsir, þar ekki síst fjölskyldan, reglulega stungið því að henni hvort hún ætlaði ekki að stíga aftur á svið og takast á við íslensku þjóðlögin en hún lét vera. Það var ekki fyrr en frænka hennar í Winnipeg bað hana um að taka þátt í Ljóðanótt, kveðjutónleikum í tilefni af væntanlegri brottför þáverandi ræðismannshjónanna íslensku í Winnipeg, Atla Ásmundssonar og Þrúðar Helgadóttur, sem Christine sá ástæðu til að láta slag standa.

„Ég féllst á að vera með í Ljóðanótt í Winnipeg, einum af síðustu tónleikaviðburðunum sem ræðismannshjónin á þeim tíma sóttu en mig langaði til að syngja smávegis fyrir þau,“ segir Christine hógvær. Þar með var boltinn farinn að rúlla á ný og hún hellti sér á kaf í íslensku tónlistina. Flutti hún meðal annars Draumalandið í Carnegie Hall í New York í mars síðastliðnum þar sem þakið ætlaði að rifna af húsinu af hrifningu gesta.

Í fyrsta sinn á Íslandi

Um er að ræða fyrstu heimsókn Christine til Íslands en hingað kom hún ásamt foreldrum sínum, eiginmanni og níu ára syni.

„Ég hef alltaf haft hug á að koma til Íslands og var ákveðin í að bíða ekki fram á sjötugsaldurinn, líkt og móðir mín og móðurforeldrar,“ segir hún létt í bragði.

Auk þess að syngja í Hörpu á menningarnótt mun hún flytja nokkur lög á þingi Þjóðræknisfélagsins sem fram fer á Hótel Natura næstkomandi sunnudag. Hefst þingið klukkan 14:00. Í Hörpu mun hún hins vegar hefja upp raust sína klukkan 20:00 á laugardagskvöldið.