Rannsókn Lagður var spurningalista fyrir alla íslenska fanga í fangelsum árið 2007, 2009 og 2011.
Rannsókn Lagður var spurningalista fyrir alla íslenska fanga í fangelsum árið 2007, 2009 og 2011.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Um þriðjungur íslenskra fanga hefur reynt sjálfsvíg á lífsleiðinni, að eigin sögn. Þá segjast á bilinu 54-69% fanga glíma við þunglyndi.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Um þriðjungur íslenskra fanga hefur reynt sjálfsvíg á lífsleiðinni, að eigin sögn. Þá segjast á bilinu 54-69% fanga glíma við þunglyndi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn doktorsnemans Boga Ragnarssonar sem nemur félagsfræði við Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar fékk Bogi með því að leggja spurningalista fyrir alla íslenska fanga í fangelsum í maí og júní árið 2007, í október árið 2009, og í apríl árið 2011.

Í tölunum kemur einnig fram að á bilinu 6-14% fanga telji sig haldin geðklofa og um þriðjungur telur sig glíma við geðhvörf.

Ekki raunveruleikinn

Kjartan Kjartansson var eini starfandi geðlæknir í um 20% starfi á Litla-Hrauni á árunum 2009-2013. Hann lét af því starfi fyrir tveimur vikum. Kjartan hefur ekki trú á því að tölur um geðhvörf og geðklofa í rannsókninni endurspegli raunveruleikann. „Sem betur fer er þetta ekki svona hátt hlutfall, því þá væri ástandið ansi slæmt í fangelsum. Um 1% fólks á við geðklofa stríða og 5-10% glíma við geðhvörf ef týpa 2 er meðtekin. Það er innan við þriðjungur af því sem segir í niðurstöðum,“ segir Kjartan.

Hann segir að engu að síður sé fróðlegt að heyra af því hvernig fangar upplifi geðheilbrigði sitt.

Hann bendir á að menn í neyslu geti sýnt einkenni geðklofa og geðhvarfa án þess að þessir geðsjúkdómar hrjái þá. „Sumir heyra einhverjar raddir eins og geðklofasjúklingar þegar þeir eru í neyslu. Aðrir upplifa geðheilsu sína upp og niður eins og þeir sem glíma við geðhvörf. En það sýnir í raun bara stærsta vandann sem er fíkniefnaneyslan,“ segir Kjartan.

Hann segir að niðurstöður um hátt hlutfall þunglyndra fanga komi sér ekki á óvart. „Menn telja sig þunglynda af ýmsum ástæðum. Það segir sig svolítið sjálft þegar menn eru í þessum aðstæðum,“ segir Kjartan. Hann segir að menn hafi gjarnan leitað til hans vegna þunglyndiseinkenna. Hann telur að tölur um sjálfsvígstilraunir fanga á lífsleiðinni geti staðist. „En þetta er skilgreiningaratriði. Hátt hlutfall þeirra sem koma inn á fíknigeðdeild eru búnir að ofskammta sig eða skera sig. En það getur verið munur á því hvort að það sé sjálfsskaði eða sjálfsvígstilraun, það er munur þar á,“ segir Kjartan en bendir á að fangar geri ekki endilega greinarmun á þessum skilgreiningum. Sjö fangar hafa tekið eigið líf í íslenskum fangelsum frá árinu 1983 samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun.

Bæta þarf þjónustuna

Auk geðlæknis í 20% starfi þjónusta tveir sálfræðingar frá Fangelsismálastofnun fanga á Litla-Hrauni. Kjartan telur brýna þörf á að bæta geðheilbrigðisþjónustuna. „Ég kom t.d. þarna tvisvar í mánuði og hefði viljað koma oftar,“ segir Kjartan. Hann telur að bæði þurfi meira vilja og fjármagn í málaflokkinn. Aðspurður hvort eitthvað standi upp úr sem betur megi fara telur hann að bæta þurfi samstarfið við fangelsismálayfirvöld. „Kerfið er þannig að Heilbrigðisstofnun Suðurlands veitir geðheilbrigðisþjónustu með geðhjúkrunarfólki og geðlæknum. Á hinn bóginn starfa sálfræðingar og félagsráðgjafar frá Fangelsismálastofnun í fangelsinu. Það er svolítill múr þarna á milli. Við erum ekki að vinna inni í sama kerfi og ég sé ekki hvað sálfræðingurinn er að gera og hann sér ekki hvað ég er að gera. Að auki hittumst við ekkert. Með þessu er hætta á að menn tvívinni hlutina,“ segir Kjartan.

Varpar ljósi á líðan fanga

Bogi Ragnarsson tekur undir með Kjartani um að ekki eigi að taka niðurstöður rannsóknarinnar of bókstaflega þegar kemur að geðheilbrigðismálum. „Þó að útskýringar hafi verið með á þeim hugtökum sem spurt er um í spurningalistanum eins og á geðhvörfum, svo dæmi sé nefnt, þá eru þetta hugtök sem leikmenn hafa kannski ekki algeran skilning á. Engu að síður varpa niðurstöðurnar ákveðnu ljósi á líðan fanganna og gefur tilefni fyrir frekari rannsókna, t.a.m. fyrir geðlækna eða sálfræðinga,“ segir Bogi. Hann segir þó að niðurstöður um þunglyndi og algengi sjálfsvígstilrauna gefi nokkuð skýra mynd.