26. júlí 1994 | Viðskiptafréttir | 427 orð

Lögum um neytendalán breytt vegna annmarka

Lögum um neytendalán breytt vegna annmarka LÖGUM um neytendalán var breytt á vorþingi, en þau tóku gildi þann 1. október á síðasta ári.

Lögum um neytendalán breytt vegna annmarka

LÖGUM um neytendalán var breytt á vorþingi, en þau tóku gildi þann 1. október á síðasta ári. Eins og fram kom í greinargerð með frumvarpinu um lagabreytingarnar komu strax fram ýmis vandkvæði á framkvæmd laganna og þegar í nóvemberbyrjun á síðasta ári var starfshópi falið að fara yfir lögin og koma með tillögur til úrbóta.

Samkvæmt lögunum frá síðasta ári eru neytendalán skilgreind sem lán á bilinu 15.000 til 1.500.000 krónur til lengri tíma en þriggja mánaða, sem bera vexti og kostnað. Helsta markmið laganna var að tryggja að neytandi hefði alltaf upplýsingar um samanlagðan kostnað vegna láns og gæti auðveldlega gert samanburð á sambærilegum grundvelli milli mismunandi lánstilboða. Þannig var upplýsingaskylda lögð á lánveitendur, sem þurftu að sýna skriflega fram á upplýsingar um höfuðstól og útborgun, árlega nafnvexti og lántökukostnað, fjölda greiðslna og upphæð þeirra, auk heildarupphæðar endurgreiðslna. Þá ber lánveitanda að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar og gefa upp vexti, lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum um lán og lánafyrirgreiðslu.

Í byrjun október kom í ljós að bankar og sparisjóðir gátu ekki keypt afborgunarsamninga, sem gerðir höfðu verið frá mánaðamótunum, vegna þess að þeir stóðust almennt ekki kröfur laganna um upplýsingaskyldu. Lánastofnanirnar höfðu þá látið útbúa forrit til að veita lántakendum þessar upplýsingar. Hins vegar er haft eftir Stefáni Pálssyni, bankastjóra Búnaðarbankans, í Morgunblaðinu þann 6. október, að viðskiptalífið hafi sofið á verðinum. Nýju upplýsingarnar vanti og fyrirtækin hafi ekki keypt sér nauðsynlegar ábyrgðartryggingar vegna skilmála laganna um rétt neytenda til að rifta slíkum samningum.

Óljós ákvæði

Í fyrrnefndri greinargerð með frumvari til laga um breytingu á lögum um neytendalán segir m.a., að við gildistöku laganna hafi strax komið fram ýmis vandkvæði við framkvæmd þeirra. Skipti þar mestu óljós ákvæði um tryggingu vegna vanefndakrafna í tengslum við framsal viðskiptabréfa. Þá sé notkun hugtaka í ýmsum ákvæðum laganna ónákvæm og ekki að fullu samræmd innan laganna. Hafi það meðal annars valdið vandkvæðum við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Loks sé ráðherra ekki veitt almenn heimild til að útfæra nánar ákvæði laganna, en í ljós hafi komið að full þörf sé á slíkri heimild.

Sem dæmi um breytingar, sem nú hafa tekið gildi, má nefna að í lögunum er nú notað hugtakið yfirdráttarheimild, í stað heimildar til fyrirframúttektar, sem var í lögunum frá síðasta ári og starfshópurinn sem endurskoðaði lögin sagði óalgengt hér á landi. Skilgreining á hugtakinu neytandi er einfölduð, ýmis hugtök yfir vexti samræmd og orðalag víða haft skýrara. Þá er samkeppnisráði veitt heimild til að beita dagsektum, ef brotið er gegn lögunum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.