Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "Verður drengskapur Butlers í garð Íslendinga lengi uppi."

Einkennilegt var að fylgjast á myndbandi með fyrirlestri breska jafnaðarmannsins Davids Milibands í hátíðarsal Háskóla Íslands 26. september 2012. Allir brostu við honum, sumir fleðulega, og enginn spurði hann óþægilegra spurninga, enda hafði hann látið þau boð út ganga, að hann myndi engu svara um samskipti Breta og Íslendinga haustið 2008. Miliband var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem setti hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki 8. október 2008 og gerði að engu alla möguleika á að bjarga einhverju úr rústum íslensku bankanna. Hafði Ísland þó verið tryggur bandamaður Breta í Kalda stríðinu og raunar veitt Bretum ómetanlega aðstöðu í seinni heimsstyrjöld, þegar þeir stóðu höllum fæti. Um hríð voru seðlabankinn íslenski og fjármálaráðuneytið ásamt Landsbankanum á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtök ásamt Al-Kaída, talibönum og ríkisstjórnum Súdans og Norður-Kóreu. Hér var kominn maður, sem bar fulla ábyrgð á því, að lyfja- og matvælasendingar stöðvuðust um skeið til landsins og við Íslendingar settir við hlið samviskulausra fjöldamorðingja, og allir brostu sínu blíðasta. Ekki hefði Jóni Sigurðssyni líkað þetta, en Háskólinn var stofnaður á 100 ára afmæli hans 1911, og mætir Miliband og öðrum gestum brjóstmynd af Jóni í anddyrinu.

Nú hefur Háskólinn hins vegar bætt um betur. Í dag klukkan fimm, mánudaginn 7. október 2013, flytur dr. Eamonn Butler, forstöðumaður Adam Smith-stofnunarinnar í Lundúnum, erindi á ráðstefnu um „Íslenska bankahrunið fimm árum síðar“, en hún er haldin í stofu N-132 í Öskju. Butler er virtur og víðkunnur rithöfundur, sem hefur samið fjölda verka um hagfræði og stjórnmál, en í bók, sem kom út árið 2009, The Rotten State of Britain , Eitthvað er rotið í Bretaveldi, tók hann myndarlega til varnar Íslendingum. Hann lýsti því, þegar fjármálaheimurinn riðaði til falls haustið 2008, þar á meðal Landsbankinn, þar sem hann og margir aðrir Bretar áttu innstæður. Geir Haarde hefði fullvissað umheiminn um, að Íslendingar ynnu eftir megni að lausn vandans. „En þá fékk hann þrisvar framan í sig krepptan hnefa Gordons Browns. Breska ríkisstjórnin frysti eigur Íslendinga. Hún lét sér ekki nægja eigur Landsbankans, sem rak Icesave-reikningana, heldur líka Kaupþings, sem þá var ekki komið í greiðsluþrot. Afleiðingin var, að Kaupþing féll líka, svo að fjárhagslegir erfiðleikar Íslendinga jukust enn. En þyngsta höggið var, að þessi ótrúlega fjandsamlega kúgunaraðgerð gagnvart lítilli vinaþjóð var gerð í krafti laga gegn hryðjuverkasamtökum. Ekki var að furða, að Geir Haarde gæti vart leynt reiði sinni og vonbrigðum.“ Verður drengskapur Butlers í garð Íslendinga lengi uppi.

Auk Butlers flytur dr. Pythagoras Petratos, kennari í fjármálafræði í Said School of Business í Oxford-háskóla, erindi á ráðstefnunni um, hvernig fjármálakreppan snart Grikkland og Kýpur, sem er eins og Ísland eyland í Evrópu, en ólíkt Íslandi í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu. Er fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að bera saman hlutskipti okkar og Kýpurbúa. Þá mun dr. Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði, ræða um bankahrunið og eftirleikinn, en bók hans, Why Iceland?, er talin ein vandaðasta úttektin á bankahruninu. Sjálfur mun ég í erindi mínu fara yfir, hvers vegna ekki styðja næg gögn þrjár algengar kenningar um hrunið: að íslensku bankarnir hafi verið of stórir, að íslenskir bankamenn hafi verið meiri glannar en starfssystkini þeirra erlendis og að bankahrunið megi rekja til misheppnaðrar frjálshyggjutilraunar á Íslandi. Ég mun lýsa tveimur tegundum kerfisáhættu á Íslandi, og gerði rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu annarri þeirri góð skil. Jafnframt mun ég spyrja þriggja spurninga, sem enn hafa ekki fengist svör við (og sumir virðast vilja banna umræður um): Hvers vegna neitaði bandaríski seðlabankinn að gera gjaldeyrisskiptasamning við hinn íslenska, en gerði slíka samninga við seðlabanka allra annarra vestrænna ríkja utan evrusvæðisins? Hvers vegna lokaði ríkisstjórn Davids Milibands og Gordons Browns bönkum í eigu Íslendinga í Bretlandi, sama dag og hún bjargaði öllum öðrum bönkum þar í landi? Hvers vegna setti ríkisstjórn Milibands og Browns hryðjuverkalög á vinveitta og vopnlausa smáþjóð? Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Höfundur er prófessor og sat í bankaráði Seðlabankans 2001-2009.