Sköpunarþrá „Þráin til að skapa eitthvað varanlegt og hefja sig yfir hversdagsstörfin var gríðarlega sterk hjá Guðfinnu,“ segir Anna Þorbjörg.
Sköpunarþrá „Þráin til að skapa eitthvað varanlegt og hefja sig yfir hversdagsstörfin var gríðarlega sterk hjá Guðfinnu,“ segir Anna Þorbjörg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún yrkir mikið um náttúruna og það er mikil samsvörun milli náttúru og tilfinninga í ljóðum hennar sem gæðir þau meiri dýpt og þau leyna mörg á sér.

Viðtal

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Út er komið einkar glæsilegt og fallegt ritsafn skáldkonunnar Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem birti ljóð sín undir skáldanafninu Erla, en hún fæddist árið 1891 og lést árið 1972. Ritsafnið er í fimm bindum og fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins. Þarna er að finna allar frumsamdar bækur Guðfinnu ásamt úrvali úr óbirtu efni hennar í bundnu og óbundnu máli. Útgefandi er Félag ljóðaunnenda á Austurlandi og ritstjóri er Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir lektor í íslensku við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Anna Þorbjörg skrifar ritgerð um Guðfinnu í fimmta bindi safnsins.

„Guðfinna var stórmerkileg kona,“ segir Anna Þorbjörg. „Hún fékk góða meðgjöf í andlegum efnum því forfeður og formæður hennar í móðurætt höfðu lengi getið sér gott orð fyrir að vera ágætlega hagort fólk sem stundaði alþýðleg fræðistörf. Guðfinna, sem var mjög greind og næm, átti móður sem var mjög fróð og hagorð og kunni kynstrin öll af vísum og sögum og hafði ræktað með sér einstaka frásagnargáfu. Hins vegar voru foreldrar Guðfinnu ákaflega fátæk og árið 1899 voru þau hjón orðin svo illa stödd að þau urðu að láta frá sér þrjú elstu börnin í fóstur og Guðfinna, sem þá var átta ára, fór í Krossavík í Vopnafirði sem var mikið myndarheimili og höfuðból á þeim tíma. Guðfinna talaði alltaf mjög vel um fósturforeldra sína sem voru henni góð og hún fékk vel í sig og á. Skólagangan var hins vegar ekki löng og hún fékk enga hvatningu til að sinna andlegum viðfangsefnum. En Guðfinna var ákaflega skapandi barn með frjótt ímyndunarafl eins og sjá má af dagbókum hennar og ekki síst á lýsingum Gunnars Gunnarssonar í Fjallkirkjunni á fósturdótturinni Jónínu í Fögruvík, eins og Krossavík nefnist í sögunni, en Guðfinna er fyrirmynd Jónínu. Gunnar dregur þar upp eftirminnilega mynd af næmu barni sem semur eigin ljóð og syngur eigin lög og hefur ríka frásagnargáfu.

Guðfinna virðist snemma hafa verið haldin gríðarlegri sköpunarþrá og hún gat flúið á vit dagdrauma og andlegra viðfangsefna þegar eitthvað bjátaði á. Það var ekki alltaf auðvelt að vera fjarri pabba og mömmu þótt fóstrið vær gott. Hún var svo næm og vel greind að hún sogaði til sín allt sem gat orðið til að næra þessa ríku þrá. Hún fór mjög snemma að fást við að yrkja og til eru ótrúlega vel gerðar vísur eftir hana sem hún gerði níu til ellefu ára gömul. Hún þráði mjög að fá að menntast en það voru engin tök á því. Þegar hún var um tvítugt fór hún til Húsavíkur og var eitt ár aðstoðarkona á sjúkraskýlinu í Vallholti og hafði hugsað sér að verða hjúkrunarkona því þá gæti hún unnið með náminu. Þar kynntist hún fólki sem hafði áhrif á hana og hvatti hana á skáldskaparbrautinni, þar á meðal Þorgils gjallanda. Hins vegar veiktist hún mjög alvarlega þennan vetur og var ekki hugað líf. Þessi veikindi drógu úr henni líkamlegan þrótt þannig að hún varð að hætta við hjúkrunarstörfin og ekkert varð úr náminu. Hún sneri því aftur heim í Vopnafjörð í vinnukonustörf. Hún gifti sig og eignaðist níu börn en það er með ólíkindum hvað hún orti mikið þegar hún átti hvað annaríkast við barnauppeldi og bústörf. En þráin til að skapa eitthvað varanlegt og hefja sig yfir hversdagsstörfin var gríðarlega sterk hjá Guðfinnu.“

Fullþroska skáldkona

Segðu mér frá útgáfusögu verka hennar.

„Á þriðja áratugnum birti hún ljóð í blöðum og tímaritum, aðallega í Sunnudagsblaðinu sem Axel Thorsteinsson, sonur Steingríms Thorsteinssonar, gaf út, en hann var samtíða Valdimar, manni Guðfinnu, á Hvanneyri í einn vetur, svo þeir þekktust vel. Árið 1937 kom svo út fyrsta ljóðabók hennar, Hélublóm . Þá var Guðfinna orðin hálffimmtug og fullþroska skáldkona og búin að yrkja gríðarlega mikið. Það var fyrrum sveitungi hennar, Helgi Tryggvason, bókbindari í Reykjavík, sem gaf Hélublóm út. Bókin var prentuð í 1500 eintökum og seldist fljótlega upp þannig að Guðfinna hafði af henni nokkrar tekjur og sannaði fyrir úrtölufólki að bókvitið gæti ratað í askana. Aðrar ljóðabækur hennar hefðu kannski aldrei komið út nema vegna þess að Þorsteinn Valdimarsson skáld og elsti sonur hennar ýtti mjög á útgáfu þeirra. Árið 1945 kom önnur ljóðabók hennar, Fífulogar , og á þeim tíma átti Guðfinna efni í margar bækur, þar á meðal barnaljóðabók sína, Æfintýri dagsins , sem kom ekki út fyrr en 1958. Barbara Árnason myndskreytti bókina af miklu listfengi og er sú bók mikið listaverk. Guðfinna skrifaði einnig tvær bækur með þjóðlegum sagnaþáttum, Völuskjóðu (1957) og Vogrek (1958). Þar eru meðal annars sögur af förumönnum, kynlegum kvistum og hrakningasögur. Guðfinna skrifaði hins vegar miklu meira um konur en aðrir höfundar sagnaþátta. Þrátt fyrir litla skólagöngu náði Guðfinna ágætum tökum á norðurlandamálunum og ensku og þýddi ógrynni af ljóðum og sýnishorn af þýðingum hennar er í þessu ritsafni og hún þýddi líka frábærlega vel skáldsöguna Slag vindhörpunnar ( De fortabte spillemænd ) eftir Heinesen.“

Ósýnileg í bókmenntasögunni

Hvernig viðtökur fengu ljóðabækur hennar?

Hélublóm fengu mjög góðar viðtökur. Það voru ekki skrifaðir lærðir ritdómar um bókina en samt urðu nokkrir til að skrifa um hana og þær umsagnir voru vinsamlegar, en svolítið eins og þegar skrifað var um konur, sagt er að ljóðin séu ljúf og þýð og vel ort en að yrkisefnin séu einföld, það er nú reyndar ekki alveg rétt. Engin umsögn kom um Fífuloga en hún seldist ágætlega eins og Æfintýri dagsins sem fékk mjög lofsamlega dóma og var kölluð fegursta barnabókin í einum ritdómi.“

Hver eru helstu yrkisefni Guðfinnu?

„Yrkisefnin eru býsna fjölbreytt. Hún yrkir mikið um náttúruna og það er mikil samsvörun milli náttúru og tilfinninga í ljóðum hennar sem gæðir þau meiri dýpt og þau leyna mörg á sér. Hún yrkir mikið um ástina og börnin sín og einnig almennt um lífið og tilveru mannsins og það er talsverð togstreita í mörgum ljóðanna sem von er. Það er líka mikil samúð með öllu því sem er lítið og veikburða og á erfitt uppdráttar eins og í ljóðum Þorsteins Erlingssonar sem var uppáhaldsskáld Guðfinnu.“

Hver er staða Guðfinnu í bókmenntasögunni?

„Skáldkonan Erla er nær ósýnileg í bókmenntasögunni eins og margar skáldkonur fyrri tíðar. Þegar fyrsta ljóðabókin hennar kom út voru mörg ljóðin orðin allt að tuttugu ára gömul. Hún hélt svo áfram að yrkja í svipuðum dúr, hefðbundið eins og flestir af hennar kynslóð, en hún hafði mjög gott vald á fjölbreyttum bragarháttum, jafnt fornum sem nýjum, og hún á sinn þátt í að fullkomna stökuformið. Það voru miklir umbrotatímar í ljóðheimum á þessum tíma, módernisminn var að ryðja sér til rúms og ung karlkynsskáld urðu mjög áberandi og þar sem skáldkonur af hennar kynslóð gerðu ekki miklar tilraunir með ljóðformið var þeim svolítið ýtt til hliðar. Ég held að þetta sé ein ástæðan fyrir því að Guðfinna og fleiri skáldkonur eru svo gott sem gleymdar nú á tímum og verk þeirra fáum kunn. En nú er að minnsta kosti hægt að nálgast verk Guðfinnu auðveldlega og vonandi verður þessi útgáfa til að vekja athygli á henni og ef til vill vekur hún líka áhuga á verkum annarra skáldkvenna.“