Prófessor Ragnar Árnason er gagnrýninn á veiðigjöld.
Prófessor Ragnar Árnason er gagnrýninn á veiðigjöld. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Málþing í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors var haldið í hátíðasal Háskóla Íslands á mánudaginn var • Fjallað var um kvótakerfi og veiðigjöld í bæði alþjóðlegu og íslensku samhengi • Hagfræðiprófessor gagnrýnir veiðigjöld harðlega...

• Málþing í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors var haldið í hátíðasal Háskóla Íslands á mánudaginn var • Fjallað var um kvótakerfi og veiðigjöld í bæði alþjóðlegu og íslensku samhengi • Hagfræðiprófessor gagnrýnir veiðigjöld harðlega og segir þau skaða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi • Forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ segir að fiskveiðistefna ESB hafi ekki skilað tilætluðum árangri • Stjórnmálafræðiprófessor gagnrýnir Evrópusambandið og framgöngu þess í makríldeilunni

Fréttaskýring

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Það er óðs manns æði að skattleggja íslenskan sjávarútveg umfram það sem er gert erlendis. Þau veiðigjöld sem stjórnvöld leggja á íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi veikja samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu og ýta landinu út af arðbærum mörkuðum sem leiðir að endingu til lægra útflutningsverðs. Sérstakir skattar á sjávarútvegsfyrirtæki valda því að hagvöxtur verður minni en ella og að sjávarútvegsfyrirtæki verða síður í stakk búin til að keppa við erlend fyrirtæki í sjávarútvegi. Ríkið tapar einnig, til lengri tíma litið, vegna þess að skatttekjur munu dragast saman, ólíkt því sem oft er haldið fram.

Þetta kom fram í máli Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, á málþingi sem haldið var í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors í hátíðasal Háskóla Íslands á mánudaginn. Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt stóðu að málþinginu en aðalviðfangsefni þess var kvótakerfi og veiðigjald.

Prófessor Ragnar gagnrýndi tvær algengar villur. Í fyrsta lagi að arðurinn í fiskveiðum skapaðist af auðlindinni einni og í öðru lagi að auðlindaskattur, eða veiðigjald á útgerð, væri á einhvern hátt hagkvæmari skattur en aðrir skattar og truflaði ekki verðmætasköpun í greininni. Hann sagði að auðlindin væri aðeins einn af fjölmörgum mikilvægum þáttum sem þyrfti að hafa í huga.

„Ef það er rétt, að arðurinn skapist af auðlindinni sjálfri, af hverju var enginn arður í greininni á 19. öldinni þegar fiskistofnarnir voru tvisvar til þrisvar sinnum stærri en þeir eru í dag? Og af hverju var þá enginn arður á árunum 1978 til 1983 þegar þorskaflinn var um 300 til 400 þúsund tonn?“

Árangurinn ótvíræður

Hann benti á að kvótakerfið væri hin raunverulega ástæða fyrir þeim hagnaði sem verið hefur í greininni seinustu áratugi. Kerfið hefði dregið mjög úr hinu skaðlega kapphlaupi um aflamagn og hvatt fyrirtæki þess í stað til að hámarka verðmæti leyfilegs afla og tileinka sér langtímahugsunarhátt í fjárfestingum og markaðsstarfi. Árangurinn varð ekki einungis minni útgerðarkostnaður á aflaeiningu, heldur ekki síður stóraukin aflagæði, betri samhæfing veiða og vinnslu, þróun nýrra og sérhæfðra afurða, markaðsþróun og markaðsuppbygging og snjallari markaðssetning, svo fátt eitt sé nefnt.

Því næst fjallaði hann um auðlindaskatta og áhrif þeirra. Skattlagningin myndi meðal annars leiða til þess að fjármagn færi frá þeirri atvinnugrein sem þyrfti að þola skattinn og til annarra óarðbærari atvinnugreina. Í raun væri ekki til ein einasta hagfræðileg greining sem styddi þessa fullyrðingu, að auðlindaskattur væri hagkvæmari skattur en aðrir skattar og truflaði ekki verðmætasköpun. Því væri öfugt farið, að mati Ragnars. Auðlindaskattar væru oft verri en tekjuskattar á hagnað fyrirtækja og gætu til dæmis verið hærri en sjálfur hagnaðurinn.

Veiðigjöld draga úr fjárfestingu

Ragnar fjallaði einnig um auðlindaskatta og veiðigjöld í íslensku samhengi. „Veiðigjöldin draga úr alþjóðlegri samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Við verðum að hafa það í huga að fjölmörg samkeppnisríki, til dæmis Kanada, Bandaríkin, Noregur og Nýja-Sjáland, búa við svipað kerfi og við með framseljanlegum kvótum. Þessi ríki leggja ekki á sérstaka skatta heldur er sjávarútvegurinn þar niðurgreiddur.“ Þessi ríki hafi samkeppnisforskot og muni ýta Íslandi út af arðbærum fiskimörkuðum.

Hann færði rök fyrir því að veiðigjöld drægju úr fjárfestingu í sjávarútvegi og það sem meira er, að þau kæmu í veg fyrir nýsköpun, enda fylgir áhætta ávallt nýsköpunarverkefnum. „Afleiðingarnar verða minni framfarir og tilhneiging til stöðnunar.“

Ragnar benti jafnframt á að sjávarútvegur væri undirstöðuatvinnuvegur en beint framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu er um 11%. „Óbeint og beint framlag atvinnuvegarins til landsframleiðslunnar er um 25%.“ Hagvöxtur á Íslandi hefur verið í kringum 2,5% sem þýðir, að sögn Ragnars, að framlag sjávarútvegsins sé 0,7%. „Ef við gerum ráð fyrir að framlag sjávarútvegsins fari niður í 0,2%, þá mun hagvöxtur falla niður í 2%.“

Því er oft haldið fram að mikilvægt sé að skattleggja fyrirtæki í sjávarútvegi í mun meira mæli en önnur fyrirtæki til að greiða fyrir þá þjónustu sem ríkisvaldið veitir. Sérstök veiðigjöld séu til dæmis heppileg til að fjármagna ýmis verkefni stjórnmálamanna. Ragnar segir hins vegar að slíkt virki ekki vel. Minni hagvöxtur vinni á móti sérstökum skatti á sjávarútveginn. Til lengri tíma litið muni skatttekjur dragast saman, eins og dæmin sanni.

Stefna sem leiðir til ofveiði

Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins (ESB) hefur ekki náð þeim markmiðum sem henni var ætlað að ná. Sambandið glímir að mörgu leyti við sömu vandamál og áður, meðal annars ofveiði, sóun og styrki úr opinberum sjóðum, og þarf margt að gerast áður en þau vandamál verða leyst að fullu.

Þetta sagði dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í erindi sínu. Gunnar ræddi um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og dró upp dökka mynd af stöðu fiskveiðimála innan sambandsins.

Hann tiltók þau markmið sem fiskveiðistefnunni hefði verið ætlað að ná, til dæmis að koma í veg fyrir ofveiði og að gera sjávarútveginn sjálfbæran, og benti á að hún hefði ekki skilað tilætluðum árangri. „95% af fiskistofnunum í Miðjarðarhafinu eru ofveidd, 47% í Atlantshafinu. Niðurgreiðslur nema um 3,3 milljörðum evra sem jafngildir næstum því 50% af aflaverðmæti evrópskra skipa.“ Hann sagði að Evrópusambandinu væri kunnugt um þessar staðreyndir og að stefnan væri til endurskoðunar. Í því fælust ákveðin tækifæri fyrir aðildarríkin en þó skipti miklu máli hvernig framkvæmdin yrði. Ekki væri til dæmis ráðlegt að heildarkvótar yrðu áfram settir í Brussel heldur væri betra að dreifa valdinu til minni svæða og hópa. „Að mínu mati leikur enginn vafi á því, bæði þegar litið er til kenninga og reynslu, að eina leiðin í átt að sjálfbærum og arðbærum sjávarútvegi er að nota kerfi sem er byggt á eignarrétti,“ sagði Gunnar jafnframt.

Hann bætti því við að innviðirnir í Evrópu væru ágætir og því væri ekki stórmál að breyta kerfinu til betri vegar. Til dæmis hefði skapast góð þekking á viðfangsefninu og nóg væri um vísindamenn. Þá væri eftirlitskerfið til staðar sem og traust dómskerfi. Eins og áður kom fram er fiskveiðistefnan til endurskoðunar og hafa fáeinar tillögur verið lagðar fram til úrbóta. Gunnar fjallaði um nokkrar af þessum tillögum en sagði mikilvægast að dreifa valdinu í frekari mæli. Miðstýring væri of mikil og brýnt væri að færa ákvörðunarvaldið til aðildarríkjanna. Aftur á móti þyrfti þá hvert ríki fyrir sig að vanda valið vel og gæta fiskimiðanna.

Niðurstaðan óumdeild

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, flutti erindi um siðferðileg sjónarmið um nýtingu takmarkaðra auðlinda. Hann tók tvö dæmi um kvótakerfi. Annars vegar ítöluna að fornu, það er rétt einstakra jarða til að reka tiltekinn fjölda sauða á fjall, og hins vegar fyrirkomulag við nýtingu laxveiðiáa. Þriðja dæmið væri kvótakerfið í sjávarútvegi. „Þegar aðgangur að fiskimiðum var takmarkaður var eðlilegt að úthluta veiðiréttindum til þeirra sem stundað höfðu veiðar samkvæmt aflareynslu þeirra,“ sagði Hannes. Með því hefði högum þeirra ekki verið raskað. „Síðan keyptu sumir út aðra og hagkvæmni náðist. Eini rétturinn, sem var tekinn af öðrum þegar aðgangur að Íslandsmiðum var takmarkaður, var hinn innantómi og verðlausi réttur til að gera út án nokkurs hagnaðar.“ Niðurstaða fiskihagfræðinnar væri óumdeild. Við ótakmarkaðan aðgang fjölgaði bátum upp að því marki að allur hagnaður hyrfi.

Óréttlátt auðlindagjald

Fyrir þrettán árum gaf breska hagfræðistofnunin The Institute of Economic Affairs út bók á ensku eftir Hannes um fiskveiðistjórnunarkerfi. Heitir hún á ensku Overfishing: The Icelandic Solution. Þar fjallar Hannes meðal annars um þróun kvótakerfisins frá fyrsta síldarkvótanum sem komið var á árið 1975, árangur kerfisins og þær deilur sem hafa verið uppi um kerfið. Segir Hannes að óréttlátt sé að taka upp auðlindagjald vegna þess að svo stór hluti kvótans sé keyptur og hafi því skipt um hendur.

Á ráðstefnunni ræddi hann einnig hvalveiðar og makrílveiðar. Hann sagði að 44 þúsund hrefnur og 26 þúsund langreyðar væru á Íslandsmiðum og aðeins lítill hluti væri veiddur. Benti hann á að hvalir við Ísland ætu sex milljónir lesta af ýmissi fæðu, mestmegnis krabbadýr en einnig fisk. Deilt væri um það hvort hvalirnir ætu þannig frá okkur mönnunum en Hannes benti á það sjónarmið að hvalir afla fæðu sem mennirnir eru ekki færir um að afla með núverandi tækni. Í raun mætti líta á hvali sem eins konar leitarvélar og matvinnslustöðvar.

„Af einhverjum ástæðum vilja hvalfriðunarsinnar ekki veiða hvali. En þeir ætlast til þess að hvalirnir sæki sér fæðu á Íslandsmiðum þar sem þeir éta margar milljónir lesta af fiski og öðrum sjávardýrum. Líklega fjórfalt það sem Íslendingar landa af fiski. Hvers vegna geta hvalfriðunarsinnar sent hvali á beit í okkar högum – á Íslandsmiðum – en um leið bannað okkur að nýta þá? Er réttlátt að þeir stofna til kostnaðar fyrir aðra?“

Svipað sé að segja um makrílinn, nema að hann er ekki „þokkafullt risadýr“ sem menn vildu friða. Hann sé heldur gómsætur og eftirsóttur í mat. „En skyndilega er hann kominn á Íslandsmið og étur þar allt sem fyrir verður og er þetta líkt engisprettuplágunni í hinni helgu bók. Evrópusambandið vill hins vegar ekki leyfa okkar að veiða nema mjög lítið úr þessum stofni. Hvers vegna getur Evrópusambandið sent makríl á beit í okkar högum – á Íslandsmiðum – en um leið bannað okkar að nýta hann?“ sagði Hannes. „Auðvitað eigum við að fá að nýta þau 30% stofnsins sem komin eru á Íslandsmið.“ Hann benti einnig á að Evrópusambandið væri ekki góð fyrirmynd í þessum efnum enda hefur þeim gengið illa að vernda fiskistofna sína, eins og áður hefur verið nefnt.

Hann sagði að báðir aðilar, Ísland og Evrópusambandið, þyrftu að hefja samningaumleitanir fyrir alvöru. „Valið er alltaf það sama: Þvingun eða samningur? Hinn sýnilegi hnefi ríkisvaldsins eða hin ósýnilega hönd markaðarins?“

Til minningar um Árna Vilhjálmsson

Málþingið var til minningar um Árna Vilhjálmsson prófessor sem lést 5. mars 2013. Í upphafi þess afhjúpaði Ingibjörg Björnsdóttir, ekkja Árna, brjóstmynd af honum sem Gerður Gunnarsdóttir gerði og Hvalur hf. hefur gefið Háskóla Íslands. Árni rak Hval ásamt félaga sínum, Kristjáni Loftssyni útgerðarmanni. Brjóstmyndinni verður komið fyrir í húsi félagsvísindasviðs háskólans, Odda.

Árni var virtur og vinsæll fræðimaður og kennari, en einnig dugmikill framkvæmdamaður sem sat í stjórn fjölmargra fyrirtækja. Þar á meðal voru Flugleiðir, Kassagerðin, Ármannsfell, Nýherji, Hampiðjan, Verðbréfaþing og Venus. Árni rak einnig ásamt félögum sínum eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins, Granda.

Hann fæddist 11. maí árið 1932 og stundaði nám í fjármálafræðum í Harvard-háskóla og Oslóarháskóla. Með námi og að því loknu starfaði hann meðal annars hjá Alþjóðabankanum í Washington og í Framkvæmdabankanum og viðskiptaráðuneytinu, en varð prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1961. Þá sat Árni í fjórtán ár, frá 1974 til 1988 í bankaráði Landsbankans, sem var annar af tveimur bakhjörlum málþingsins. Hann var að auki heiðursdoktor frá viðskipta- og hagfræðideild háskólans og heiðursfélagi í Félagi viðskipta- og hagfræðinga.

„Árni var frábær kennari, frjór í hugsun og áhugasamur um nemendur sína. Það var samdóma álit okkar nemendanna að í hópi þeirra kennara við viðskiptadeild Háskóla Íslands sem önnuðust kennslu í viðskiptagreinum bæri Árni af sakir traustrar fræðimennsku og djúps skilnings á atvinnulífinu,“ skrifaði Ragnar Árnason prófessor við lát Árna.

„Árni Vilhjálmsson bar ekki utan á sér, að hann var einn auðugasti útgerðarmaður landsins. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, með hvasst nef, örlítið lotinn í herðum, bláeygur, rjóður í vöngum og útitekinn eins og erfiðismaður, hógvær og kurteis, oftast með bros á vör og vildi bersýnilega forðast átök. En undir niðri var hann maður afar ákveðinn, jafnvel ráðríkur, ljóngáfaður og harðduglegur. Í honum sameinaðist á fágætan hátt fræðimaður og framkvæmdamaður,“ skrifaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson í minningargrein um Árna.

Eignarrétturinn mikilvægur í sjávarútvegi

Sjávarútvegurinn á að stýra sér sjálfur, án afskipta ríkisvaldsins. Ef kvótarnir eru í eigu sjálfra útgerðarmannanna, þá hafa þeir beina hagsmuni af því að taka ákvarðanir um heildarafla á bæði skynsamlegan og hagkvæman hátt. Þetta sagði Ralph Townsend, prófessor í Maine-háskóla og forseti hugvísindadeildar Winona State University í Minnesota, í erindi sínu á málþinginu. Townsend er kunnur sérfræðingur um auðlindanýtingu og kerfi varanlegra og framseljanlegra aflaheimilda. Hann hefur verið Fulbright-kennari á Íslandi, aðalhagfræðingur sjávarútvegsráðuneytis Nýja-Sjálands og forseti Fiskihagfræðingafélags Norður-Ameríku.

Townsend fjallaði meðal annars um sjávarútveginn á Nýja-Sjálandi. Hann segir að Ísland og Nýja-Sjáland hafi verið fyrstu ríkin sem tóku upp framseljanlega kvóta fyrir nær allar fisktegundir við strendur sínar. Á árunum fyrir 1986 hafi fiskveiðarnar við Nýja-Sjáland verið stundaðar með álíka hætti og almennt var gert og er gert víða enn. Sjávarútvegurinn einkenndist af ofveiði og fóru útgerðir í þrot, meðal annars vegna offjárfestingar. Á árinu 1986 varð sú breyting að tekið var upp kvótakerfi. Veiðiréttindum var úthlutað í samræmi við veiðireynslu og voru þessir kvótar framseljanlegir, sem skipti gríðarlega miklu máli að mati Townsend. Að þessu leyti er kvótakerfið þar mjög líkt íslenska kvótakerfinu. Þó ríkir sátt um ný-sjálenska kvótakerfið, en ekki það íslenska.

Raunverulegir eigendur?

„En hvernig verða kvótaeigendur raunverulegir eigendur? Það er mikilvægt að við svörum þessari spurningu. Hagfræðingar, þar á meðal fiskihagfræðingar, hafa ekki velt þessari spurningu nógu mikið fyrir sér.“

Townsend segist vera viss um að heppilegra sé að kvótarnir séu í eigu sjálfra útgerðarmannanna og að stjórnvöld skipti sér ekki of mikið af ákvörðunum þeirra. „Það eru hlutir sem einkaaðilar geta gert, og gera, sem stjórnvöld eiga ekki að koma nálægt.“ Þá benti hann einnig á að kostnaðurinn væri ávallt hærri þegar stjórnvöld koma að ákvörðunum en þegar einkaaðilar gera það. „Stjórnvöld gera margt gott, en þeim er ekki treystandi til að taka ákvarðanir sem aðrir eru betur til þess fallnir að taka,“ sagði Townsend.

Vill hann breyta fiskveiðistjórnunarkerfum sem byggð eru á nýtingarrétti þannig að þau verði byggð á eignarrétti.

Hann hrósaði jafnframt íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu en sagði að við gætum lært margt af Ný-Sjálendingum og þeirra kerfi. Hins vegar skortir þá eitt sem við höfum, að mati Townsend: umræður og greinaskrif á háskólastigi um fiskihagfræði.