Frægasta lýsingin á samskiptum smáþjóða og stórþjóða er í Sögu Pelópsskagastríðanna (5. bók, 17. kafla) eftir gríska sagnritarann Þúkídídes.

Frægasta lýsingin á samskiptum smáþjóða og stórþjóða er í Sögu Pelópsskagastríðanna (5. bók, 17. kafla) eftir gríska sagnritarann Þúkídídes. Aþeningar, sem töldust stórþjóð í Grikklandi hinu forna, kröfðust þess, að Meleyingar, íbúar á eynni Melos, lytu þeim. „Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við,“ sögðu sendimenn Aþenu. Þýddi Friðrik Þórðarson samræður Aþeninga og Meleyinga, og birtust þær í Tímariti Máls og menningar 1964.

Í alþjóðasamskiptum hefur máttur löngum verið talinn réttur. Sá ríkari hlyti að ráða. Tröll fari sínu fram við dverga. Og þó. Dvergur, sem óttast eitt tröll, getur hallað sér að öðru. Ástæðan til þess, að Kínaveldi hefur lagt undir sig Tíbet, en ekki Taívan, er ekki skortur á vilja, heldur sú staðreynd, að Bandaríkin halda hlífiskildi yfir Taívan. Ef til vill er sannleikskorn í því, sem bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Stanley Kubrick sagði eitt sinn: „Stórþjóðir hafa jafnan komið fram eins og dólgar, en smáþjóðir eins og hórur.“

Dómur Kubricks er samt ósanngjarn. Það gengur til dæmis kraftaverki næst, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár skuli hafa haldið tungu sinni og eðliseinkunnum eftir margra áratuga tilraunir kastalaherranna í Kreml til að rússneskja þá. Og leiðtogi okkar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, sagði í bréfi frá 1851: „Eftir minni meiningu þá er seiglan okkar besta bjargvættur, og þá þarf ekki að kvíða, ef hún er óbilug.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is