Haustið 1933 dvaldist Halldór Kiljan Laxness í Barcelona og fékkst við að skrifa Sjálfstætt fólk . Þar var þá staddur Jónas Jónsson frá Hriflu, og bauð sendifulltrúi Íslands í borginni, Helgi P. Briem, þeim Laxness og Jónasi á nautaat.

Haustið 1933 dvaldist Halldór Kiljan Laxness í Barcelona og fékkst við að skrifa Sjálfstætt fólk . Þar var þá staddur Jónas Jónsson frá Hriflu, og bauð sendifulltrúi Íslands í borginni, Helgi P. Briem, þeim Laxness og Jónasi á nautaat. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur segir í ævisögu Kiljans, sem kom út 2004 (bls. 335): „Þannig atvikast það að Jónas frá Hriflu og Halldór Laxness fara saman á nautaat, en því miður er ekkert vitað meira um þá ferð.“

Ég fléttaði hins vegar inn í bók mína, Kiljan , um ævi Laxness 1932-1949, fjörlega frásögn um þetta sama nautaat, sem Jónas frá Hriflu hafði birt í Dvöl 1934. Frásögnin þótti svo skemmtileg, að hún var endurprentuð í bókinni Langt út í löndin 1944. Lýsti Jónas því með tilþrifum, hvernig naut ráku fyrst hesta riddara á hol í tvísýnum bardögum, en nautabaninn sjálfur birtist síðan í litklæðum og lagði sverð sitt í hjartastað hvers nautsins af öðru.

Nauðsynlegt er að þaulkanna heimildir til að komast hjá vandræðalegum yfirsjónum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég hlustaði á Lemúrinn á Rás eitt 15. október 2013, en þá lýsti Vera Illugadóttir afskekktum eyjum. Hún sagði meðal annars frá Galápagos-eyjum í Kyrrahafi, undan strönd Miðbaugsríkis, Ekvadors. Vera rakti örlagasögu, sem gerðist, eftir að ævintýrakona, sem titlaði sig barónessu, settist að á eynni Floreana 1932.

Það hefur hins vegar farið fram hjá umsjónarmönnum Lemúrsins, að ég birti í 3. hefti Þjóðmála sumarið 2013 ferðasögu mína frá Galápagos-eyjum í júní 2013. Þá hafði ég komist að því, að íslenskur maður hafði flust út í eyjarnar 1931 og borið þar beinin 1945. Hann var einmitt ein helsta frumheimildin um örlagasögu barónessunnar, sem ég endursegi stuttlega í Þjóðmálum . Virðist annar ástmaður barónessunnar hafa drepið hana og hinn ástmanninn, en orðið síðan sjálfur skipreka á eyðiey á leið til meginlandsins og látist úr þorsta ásamt fylgdarmönnum sínum. Bendi ég á, að Georges Simenon notar þessa viðburði sem uppistöðu í skáldsögunni Ceaux de la soif , sem best væri að þýða Hinir þyrstu , og hefur verið gerð sjónvarpsmynd eftir henni. Saga íslenska eyjarskeggjans, sem hét Valdimar Friðfinnsson, er ekki síður ævintýraleg, eins og ég hef minnst hér á.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is