Gísli Kristján Traustason fæddist í Skógarnesi 24. nóvember 1955. Hann lést 24. janúar 2014 á Líknardeildinni í Kópavogi. Foreldrar Gísla eru Trausti Skúlason, f. 23. mars 1933 og Guðríður Kristjánsdóttir, f. 16. október 1933, bændur í Skógarnesi. Systur Gísla eru Kristín Sigurbjörg Traustadóttir, f. 22. janúar 1954, Hallfríður Traustadóttir, f. 6. september 1959 og Elva Traustadóttir f. 18. mars 1968. Árið 1973 kynntist Gísli eiginkonu sinni, Sigríði Guðrúnu Ólafsdóttur, f. 23. apríl 1956. Sigríður er matráður á leikskólanum Akri. Foreldrar Sigríðar eru Ólafur Heiðar Þorvaldsson, f. 17. október 1929, d. 7. júní 1999 og Svanhildur Guðmundsdóttir, f. 17. desember 1933. Saman eiga Gísli og Sigríður þrjú börn, þau eru 1) Svanhildur Heiða Gísladóttir, f. 27. ágúst 1976, ritari, kvænt Michael Anthony Weaver, f. 14. apríl 1976, stærðfræðingi, og eiga þau saman tvö börn, Óðin Kristjón, f. 26. október 2006 og Ísak Loga, f. 28. desember 2009, áður átti Svanhildur Sigurð Stefán, f. 30. júní 1998 með Ólafi Oddgeiri Einarssyni. 2) Trausti Gíslason, f. 19. júní 1978, rafvirki, kvæntur Kristínu Guðmundsdóttur, f. 2. mars 1979, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau saman þrjú börn, Aron Fannar, f. 14. júní 2003, Gísla Kristján, f. 26. júlí 2009 og Karen Júlíu, f. 1. maí 2012. 3) Bergrós Gísladóttir, f. 1. júní 1988 uppeldis- og menntunarfræðingur. Gísli ólst upp í Skógarnesi í Miklaholtshreppi. Sem barn gekk hann í Laugagerðisskóla í Eyjahrepp á Snæfellsnesi. Gagnfræðaprófi sínu lauk Gísli frá héraðsskólanum í Reykholti. Gísli lærði húsasmíði í Iðnskólanum í Stykkishólmi, Iðnskóla Keflavíkur og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann lauk sveinsprófi sínu árið 1979. Meistaraprófi sínu lauk hann árið 1981. Gísli var lengst af sjálfstætt starfandi smiður og hefur því komið víða við á starfsferli sínum. Gísli og Sigríður hófu sinn búskap árið 1975 í Keflavík. Þau byggðu sér síðar einbýlishús í Innri-Njarðvík þar sem þau hafa búið saman síðastliðin 30 ár. Gísli verður jarðsunginn frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 31. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Við andlátsfregn góðs og kærs vinar er eins og tíminn stöðvist um stund. Þannig leið mér þegar ég frétti að Gilli vinur minn og mágur hefði látist langt um aldur fram. Gilli hafði barist við krabbamein um nokkurra mánaða skeið og virtist ætla hafa betur þegar hlutirnir snérust til verri vegar og á skömmum tíma varð hann undir í þeim slag. Lífið er stundum óréttlátt og svo var það í þetta skipti. Í huga eftirlifenda hrannast upp allar gömlu góðu minningarnar. Við Gilli kynntumst fyrir tæplega 40 árum þegar ég var svo lánsamur að tæla systur hans til samlífis og hjónabands því með henni kom nefnilega frábær fjölskylda og þar var Gilli fremstur í flokki. Með okkur og konu hans henni Sirrý tókst traust og hlý vinátta sem entist allt til enda. Okkur Gilla lynti vel því við vorum að mörgu leyti líkir, smá villimenn sem höfðu gaman af veiðum. Höfðum báðir alist upp á kærleiksheimilum þar sem afar okkar voru í lykilhlutverkum ásamt foreldrum okkar. Það varð til þess að við þekktum aldrei það sem kallað er kynslóðabil, áttum vini á öllum aldri, 30-40 árum eldri eða allt að 20 árum yngri. Ýmislegt var brallað í gegnum tíðina en tvímælalaust var eitt það skemmtilegasta sem við gerðum þegar við tókum upp á því að fara eina til tvær veiðiferðir á sumri með aldraða vini okkar. Þetta voru karlar allir fæddir um og fyrir 1920 og lífsreyndir mjög. Þeim var að vísu orðið stirt um gang sumum en þó alltaf til í veiðiferðir upp á hálendið um hásumarið. Þeir nenntu ekki stangveiðum enda ekki vanir svoddan dútli, vildu bara net og alvöru útgerð. Við urðum því að útbúa okkur vandlega með netatrossu, gúmmíbát, ís í frauðkössum og allt sem þurfti í þessa túra. Alltaf höfðum við brens á bauk fyrir karlana því það létti lundina og gerði þá miklu liprari til gangs í þúfum og karga og voru göngustafir þá óþarfir. Karlarnir höfðu með sér það sem þeir þurftu, einn hafði skrúfað fæturna undan eldhúskolli eiginkonunnar og skrúfað þær síðan neðan á klósettsetu því hann átti erfitt með að fara á hækjur sér, þetta reyndist hið mesta þarfaþing. Í eina ferðina tók annar með sér strauborð frúarinnar, því strákaskrattarnir veiddu svo mikið, svo að ekki þyrfti að bogra á milli þúfna heldur standa uppréttur við aðgerðina. Í þessum túr veiddum við hinsvegar nánast ekki neitt. Var strauborðinu kennt um ófarirnar og það því skilið eftir á vatnsbakka uppi á reginfjöllum. Ekki vitum við hvort einhver rakst nokkurn tíma á strauborðið en höfðum gaman af þeirri tilhugsun að þetta yrði vafalaust ráðgáta fornleifafræðinga framtíðarinnar og myndi væntanlega skapa nýjar tilgátur um tæknivæðingu og menningu fornmanna. Þetta voru óborganlegar og skemmtilegar ferðir þar sem hlegið var út í eitt.

Síðar á lífsleiðinni vorum við Gilli svo heppnir að kynnast nokkrum Vestur-Húnvetningum sem höfðu stofnað veiðifélagið Dísina en það félag veiddi og gerir enn á Arnarvatnsheiði. Okkur var náðasamlegast boðið að gerast félagar vegna fyrri reynslu af netveiðum og ekki síst vegna snilldar hæfileika Gilla sem trésmiðs. Gilli var nefnilega einn sá flinkasti smiður sem sést hefur. Kom sú þekking hans að góðum notum þegar veiðihús Dísarinnar Dísarbúð var byggt upp úr gömlum skúrgarmi frá því fyrir stríð. Úr varð hið glæsilegasta veiðihús sem ber höfundi sínum fagurt vitni þar sem það stendur við Arnarvatn á miðri Arnarvatnsheiði. Veiðiferðir á heiðina hafa verið margar og alltaf ákaflega skemmtilegar. Menn og konur slöppuðu af, gleymdu stund og stað og endurhlóðu batteríin. Þessar ferðir voru alltaf ein samfelld veisla fullar af glensi og gamni. Þar var Gilli í essinu sínu. Nú hefur veiðimaðurinn og hagleikssmiðurinn yfirgefið okkur, farinn að kanna nýjar slóðir og leita að nýjum veiðilendum. Ef það er líf eftir þetta líf þá bíða okkar skemmtilegir endurfundir. Megi allir góðir vættir fylgja Gilla. Genginn er góður vinur.

Elsku Trausti og Guðríður, Sirrý, Svana, Trausti, Bergrós, tengdabörn og barnabörn, sendi ykkur hugheilar samúðaróskir og hlýjar hugsanir á þessum erfiðu tímum, megi fögur minning um flottan son, eiginmann, pabba og afa fylgja ykkur.

Hallgrímur Sigurðsson (Halli).