Ég hef skrifað hér þrisvar um íslenska huldumanninn á Galapágos-eyjum, sem ég frétti af vegna ferðar minnar þangað sumarið 2013.

Ég hef skrifað hér þrisvar um íslenska huldumanninn á Galapágos-eyjum, sem ég frétti af vegna ferðar minnar þangað sumarið 2013. Hann kallaði sig Finsen, en með hjálp góðra manna komst ég að því, að um var að ræða skagfirska Latínuskólapiltinn Valdimar Friðfinnsson, sem hélt vestur um haf í upphafi tuttugustu aldar og leitaði gulls og olíu í Mið- og Suður-Ameríku. Settist hann að á Galapágos-eyjum 1931 og bar þar beinin 1945.

Nú hefur Örn Ólafsson bókmenntafræðingur bent mér á, að frá Finsen segir í einni bók Thors Vilhjálmssonar, Regn á rykið , sem kom út árið 1960 (bls. 186-187). Thor hafði kynnst sænskum ferðagarpi, sem hét Rolf Blomberg og hafði komið til Galapágos-eyja. Blomberg sagði Thor, að hann hefði kynnst Íslendingi þar syðra, sem heitið hefði Jón Finsen (að því er Thor minnti). „Finsen hafði komið ungur til Suður-Ameríku í leit að olíu en hafði ekki auðgast af því. Eitt sinn varð hann að leita læknis sem sagði honum að hann gengi með banvænan sjúkdóm og ætti skammt ólifað. Finsen hrærðist allur í hinum fornu sögum Íslands og Eddukvæðum. Hann fór þá út á Galapagoseyjarnar og valdi sér háan klett og hugsaði: þegar ég finn að krafturinn þverr fer ég upp á klettinn og geng fyrir ætternisstapa að hætti áa minna. En hann fann ekki kraftinn þverra heldur styrktist þvert á móti með hverjum degi í heilnæmu loftslaginu úti á eyjum þessum og lifði í 20 ár eftir þetta.“ Kemur þetta allt heim og saman við frásagnir af „Finsen“ (Valdimar Friðfinnssyni) í íslenskum blöðum, nema hvað hann kallaði sig oftast Walter, en ekki Jón, og hvergi er annars staðar minnst á örlagaklettinn, sem Thor segir frá.

Thor heldur áfram: „Margir höfðu þann sið að fara út í skip sem komu til eyjanna og vildu kaupa áfengi eða höfðu von um að í skipinu kynnu að leynast lostfagrar konur. Og Finsen fór alltaf út í skip sem komu, en erindi hans var að leita að bókum og honum tókst að safna sér ágætum bókakosti á þennan hátt, og Blomberg sagði að hann hefði verið sérkennilegur og vitur maður með sítt hvítt skegg og verið óspar að miðla sér af fjölbreytilegri lífsreynslu sinni. Meðal annars sagði hann að Finsen hefði bent sér á bækur sem hann skyldi lesa úr því að hann ætlaði að gerast rithöfundur, allra mikilvægast væri að lesa rússnesku stórskáldin, sérstaklega Tsjekov. Finsen lést í hárri elli á Galapagoseyjum.“ Þótt Thor færi hér eitthvað í stílinn, kemur þetta líka heim og saman við frásagnir af Íslendingnum, sem aðrir hafa skrifað, þótt Valdimar hefði að vísu látist 69 ára, sem ekki getur talist há elli. Er gaman að þessari fjörlega skrifuðu viðbótarheimild.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is