Í síðustu viku sagði ég frá lýsingu Alistairs Darlings, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, á því, hvernig stærð einkaflugvéla fundarmanna á ráðstefnum væri jafnan í öfugu hlutfalli við stærð heimalanda þeirra. Hann gerði þessa athugasemd að morgni 7. október 2008, þegar hann var á leið á fjármálaráðherrafund í Lúxemborg og lítil einkaflugvél, sem hann hafði tekið á leigu, renndi á flugvellinum fram hjá tveimur Boeing 747 þotum, sem merktar voru Íslandi og stóðu á flugvellinum. Þetta voru hins vegar ekki einkaþotur neinna íslenskra ráðamanna, heldur vöruflutningavélar á vegum Atlanta, sem hafði notað slíkar vélar frá 1993!
Í bókinni Back from the brink (2011) segir Darling frá uppgangi Landsbankans í Bretlandi árin fyrir alþjóðlegu lánsfjárkreppuna og bætir við, að nú sæti ýmsar fjárfestingar bankans sakamálarannsókn á Íslandi. Síðan skrifar hann (bls. 137): „Í tengslum við þetta virtust ýmsir íslenskir ríkisborgarar auðgast mjög. Sumir gátu jafnvel veitt breska Íhaldsflokknum rausnarlega styrki.“ Í Bretlandi eru allir styrkir til stjórnmálaflokka, sem einhverju nema, birtir opinberlega. Ég gat ekki séð neina Íslendinga eða íslensk fyrirtæki á listum yfir styrkveitendur Íhaldsflokksins. Á fundi með Darling í desember 2013 spurði ég hann því, hvaðan hann hefði þessar upplýsingar. Hann kvaðst hafa lesið um þetta, á meðan hann var að skrifa bók sína 2011.
Hér er líklega skýringin komin. Í júlí 2009 hafði dótturfélag Kaupþings í Lúxemborg verið selt Rowland-fjölskyldunni bresku og tekið upp nafnið Banque Havilland. Fasteignajöfurinn David Rowland var einn örlátasti styrktarmaður Íhaldsflokksins og átti jafnvel um tíma að verða gjaldkeri flokksins, þótt ekki yrði af því. Í mars 2011 gerði breska lögreglan húsleit í Banque Havilland vegna rannsóknar á Kaupþingi. Vegna sambandsins við Íhaldsflokkinn var Rowland fréttamatur, þótt rannsóknin beindist ekki að honum. Fyrirsögnin í breska stórblaðinu Daily Telegraph var til dæmis „Efnahagsbrotadeild gerir húsleit vegna Kaupþings í banka bakhjarls Íhaldsflokksins, Davids Rowlands“.
Ef sú er skýringin á ummælum Darlings, þá ruglar hann ekki aðeins saman Landsbankanum og Kaupþingi, heldur telur hann David Rowland tengjast Íslandi af þeirri ástæðu einni, að Rowland keypti ásamt fjölskyldu sinni það, sem eftir var af einu dótturfélagi íslensks banka í Lúxemborg. Á þennan hátt verða þjóðsögur til.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is