Bestur Martin Hermannsson Íslandsmeistari með KR.
Bestur Martin Hermannsson Íslandsmeistari með KR. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Martin Hermannsson úr KR og Hildur Sigurðardóttir úr Snæfelli voru útnefnd besta körfuknattleiksfólk landsins á keppnistímabilinu 2013-2014 á lokahófi KKÍ í gærkvöld.

Martin Hermannsson úr KR og Hildur Sigurðardóttir úr Snæfelli voru útnefnd besta körfuknattleiksfólk landsins á keppnistímabilinu 2013-2014 á lokahófi KKÍ í gærkvöld.

Martin, sem er aðeins 19 ára en var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði KR, var einn fjögurra sem fengu atkvæði í kjörinu á körlunum. Hinir voru liðsfélagar hans þeir Darri Hilmarsson og Pavel Ermolinskij og Elvar Már Friðriksson úr Njarðvík.

Úrvalslið Dominos-deilda karla skipa þeir Martin, Elvar Már og Pavel ásamt Helga Má Magnússyni úr KR og Ragnari Nathanaelssyni úr Þór í Þorlákshöfn.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, var útnefndur þjálfari ársins í deildinni.

Martin vann tvöfalt því hann var líka valinn besti ungi leikmaðurinn í deildinni. Darri Hilmarsson, KR, var valinn besti varnarmaðurinn og líka prúðasti leikmaðurinn og Michael Craion, Keflavík, var valinn besti erlendi leikmaðurinn.

Þrjár úr Snæfelli í liði ársins

Hildur, sem er 32 ára, var í aðalhlutverki hjá Snæfelli sem varð Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn. Auk hennar fengu Bryndís Guðmundsdóttir úr Keflavík og Hildur Björg Kjartansdóttir úr Snæfelli atkvæði í kjörinu á leikmanni ársins í kvennaflokki. Þær þrjár eru í liði ársins ásamt Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur úr Snæfelli og Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur úr KR.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari meistaraliðs Snæfells, var valinn þjálfari ársins í kvennadeildinni.

Marín Laufey Davíðsdóttir, Hamri, var valin besti ungi leikmaðurinn, Guðrún Gróa besti varnarmaðurinn, Lele Hardy úr Haukum besti erlendi leikmaðurinn og Auður Íris Ólafsdóttir úr Haukum prúðasti leikmaðurinn

Rögnvaldur Hreiðarsson var valinn besti dómarinn í karla- og kvennadeildunum. vs@mbl.is