Margt hefur verið sagt síðasta misserið um leka. Íslenskukennari minn í menntaskóla og síðar yfirlesari bóka minna, Jón S. Guðmundsson, var ekki ánægður með orðið í merkingunni að lauma leyndarmálum í blöð.

Margt hefur verið sagt síðasta misserið um leka. Íslenskukennari minn í menntaskóla og síðar yfirlesari bóka minna, Jón S. Guðmundsson, var ekki ánægður með orðið í merkingunni að lauma leyndarmálum í blöð. Hann taldi það of enskulegt, beina þýðingu á „leak“. Nú er orðið þó líklega viðtekið í íslenskri tungu, eins og gömul saga sýnir. Arreboe Clausen var lengi einkabílstjóri forsætisráðherra, hvers af öðrum. Eitt sinn vildi viðmælandi hans forvitnast um ýmis undirmál, sem Arreboe ætti að vita um, og spurði: „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“

Lekar eru jafnan álitamál. Hvenær eiga leyndarmál erindi til almennings og hvenær eiga menn að fara að dæmi Arreboes? Eiga blaðamenn að virða trúnað við menn, sem sjálfir virtu ekki trúnað, og neita að segja til þeirra? Í frægu íslensku lekamáli komst aldrei upp hver heimildarmaðurinn var. Fréttamaður Ríkisútvarpsins, Arnar Páll Hauksson, skýrði 24. nóvember 1988 frá umfangsmiklum kaupum forseta Hæstaréttar, Magnúsar Thoroddsens, á áfengi á sérkjörum. Fáir vissu áður af þessu máli. Upplýsingarnar fékk Arnar Páll annaðhvort hjá forseta Alþingis, Guðrúnu Helgadóttur, eða fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni, en í réttarhöldum vegna brottvikningar Magnúsar sóru þau bæði þvert fyrir að hafa verið heimildarmenn fréttamannsins. Umhugsunarefni er að eftir þetta hafði fréttamaður á Ríkisútvarpinu pólitískt líf annars tveggja aðsópsmikilla stjórnmálamanna í hendi sér.

Annað lekamál ári síðar snerist líka um áfengiskaup á sérkjörum, en var annars eðlis. Þá gerðu yfirskoðunarmenn ríkisreiknings athugasemdir við það að Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hafði 7. maí 1988 keypt 100 flöskur af freyðivíni, tvær af gini og tvær af viskíi á ráðherraverði, sem var miklu lægra en útsöluverð, og sent í fertugsafmæli vinar síns og flokksbróður, Ingólfs Margeirssonar sem hafði sem ritstjóri Helgarpóstsins verið stóryrtur baráttumaður gegn spillingu. Jón Baldvin baðst opinberlega afsökunar á mistökum sínum, sem hann sagði vera, en skömmu síðar missti sá starfsmaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem talinn var hafa komið á framfæri ábendingu um áfengiskaupin, stöðu sína. Má þó halda því fram að hann hafi verið að gæta almannahags með ábendingu sinni. Ef til vill hefur honum líka blöskrað hræsni þeirra ráðherra, sem viku Magnúsi Thoroddsen úr embætti fyrir óhófleg áfengiskaup en misnotuðu sjálfir sérkjör þau sem þeim stóðu til boða.

Vissulega á áfengi til að leka, en áfengiskaup líka, eins og þessi tvö mál sýna.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is