Sumar minningar verða skyndilega merkingarþrungnar. Svo er til dæmis um hádegisverð, sem við Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður snæddum saman á Íslenska barnum, eins og hann hét þá, í Pósthússtræti miðvikudaginn 29. febrúar 2012.

Sumar minningar verða skyndilega merkingarþrungnar. Svo er til dæmis um hádegisverð, sem við Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður snæddum saman á Íslenska barnum, eins og hann hét þá, í Pósthússtræti miðvikudaginn 29. febrúar 2012.

Tilefnið var, að Guðlaugur Þór hafði spurst opinberlega fyrir um greiðslur úr ríkissjóði til kennara á félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Einn samkennari minn kom reiður að máli við Guðlaug Þór og sagðist vita, að þessi fyrirspurn væri undan mínum rifjum runnin. Ég frétti þetta og hafði samband við Guðlaug Þór. Ég sagði efnislega: „Eins og þú veist jafnvel og ég, Guðlaugur Þór, höfum við ekki talast við í nokkur ár (okkur sinnaðist í innanflokksátökum). En nú heyri ég, að ég standi á bak við fyrirspurnir þínar á þingi. Úr því að ég er skyndilega orðinn aðalmaður í ógurlegu samsæri með þér, finnst mér eðlilegt, að ég fái að eiga hlut að máli. Við þurfum að setjast niður.“ Guðlaugur Þór tók þessu vel, og við mæltum okkur mót.

Þegar ég kom inn á Íslenska barinn, rak ég augun í DV, sem lá efst í blaðabunka á hliðarborði. Forsíðan var með risaletri og helguð Guðlaugi Þór: Hann hefði fengið 33 milljónir frá Landsbankanum fyrir tryggingafélag í sinni eigu. Ég sagði kankvís við Guðlaug Þór, um leið og ég settist á móti honum, að DV hefði næstum því jafnmikinn áhuga á honum og mér. Hann brosti dauflega og velti fyrir sér, hvaðan blaðið hefði upplýsingar sínar. En þegar skammt var liðið á umræðurnar, gekk fram hjá okkur Ársæll Valfells, sem við þekktum báðir. Hann ávarpaði okkur með breiðu brosi: „Nú, er bara sjálf skrímsladeildin á fundi?“ Við hlógum við, og Ársæll settist við annað borð.

Hvorugur okkar Guðlaugs Þórs vissi þá, að nokkrum dögum áður, að kvöldi fimmtudagsins 23. febrúar, hafði Ársæll fengið heimsókn frá Þórarni M. Þorbjörnssyni, starfsmanni Landsbankans, sem var með trúnaðarskjöl úr bankanum um Guðlaug Þór handa Gunnari Andersen, forstöðumanni Fjármálaeftirlitsins, en Gunnar var þá önnum kafinn á fundi. Ársæll hringdi í Gunnar, sem bað hann að koma skjölunum til DV. Ársæll setti skjölin í nýtt umslag, svo að nafn sitt kæmi ekki fram, ók að bækistöðvum DV og setti umslagið í póstkassa blaðsins. Síðan skrifaði fréttastjóri DV, Ingi F. Vilhjálmsson, fréttina um Guðlaug Þór upp úr skjölunum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is