Rögnvaldur Þorleifsson fæddist 30. janúar 1930. Hann lést 16. júlí 2014. Útför Rögnvaldar var gerð 25. júlí 2014.

Horfinn er vinur hand an yfir sundin,

hryggðin er sár, svo jafnvel tárast grundin.

Þá er svo gott um ævi megum muna

milda og fagra geymum kynninguna.

Óvæntust ætíð kemur kveðjustundin

kærast í hjarta geymum minninguna

(Vilhjálmur S.V. Sigurjónsson)

Takk fyrir að hafa fengið að kynnast þér, elsku Rögnvaldur, þær eru margar góðar minningarnar sem við varðveitum í okkar huga.

Hvíldu í friði, kæri vinur.

Aðstandendum þínum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Heiðrún Heiðarsdóttir, Hjalta, Ingvi og Óskar.

Ég var lánsöm að kynnast og starfa með Rögnvaldi Þorleifssyni lækni í áratugi. Það voru sterkar persónur, menn og konur, sem mótuðu og byggðu upp slysadeild Borgarspítala fyrstu starfsárin. Rögnvaldur var einn af þeim. Þar fór maður sem gerði miklar kröfur til sjálfs sín og hafði alla tíð velferð sjúklingsins í fyrirrúmi.

Rögnvaldur var ekki alltaf auðveldur í umgengni og talaði tæpitungulaust með sínum skíra norðlenska framburði. Oft þótti hann fráhrindandi, sérvitur og smámunasamur. Þessir eiginleikar, ásamt mikilli nákvæmni, voru hans styrkur og sjarmi og gerðu hann að þeim listamanni í bæklunar- og handlækningum sem hann var.

Rögnvaldur spannaði allan skala sérstæðs persónuleika. Undir hrjúfu yfirborði var hann gull af manni, viðkvæmur, hlýr og skilningsríkur. Það sýndi sig best þegar að við tókum saman á móti föður mínum, látnum, á einni vaktinni. Þá reyndist hann mér góður vinur. Á þessum árum var ekki búið að finna upp orðið áfallahjálp en eftir andlát, stórslys og önnur erfið tilfelli fengum við starfsfólk slysadeildar styrk hvað frá öðru.

Miðpunktur deildarinnar var kaffistofan. Málefni líðandi stundar allt frá pólitík til prjónauppskrifta voru krufin til mergjar. Eitt sinn sat Rögnvaldur á kafi í pappírum þegar nýr læknastúdent kynnti sig og kvaðst ekki vera alveg nógu klár í anatomiu handarinnar. Vildi fá að koma seinna á aðra vakt. „Hvenær hitti ég eiginlega þennan Rögnvald?“ spurði hann kvíðinn á svip. Brosviprur komu á andlit Rögnvaldar. Orðspor hans sem skurðlæknis og kennara var þekkt í læknadeildinni og hlýddi hann gjarnan læknanemum yfir – og þá var eins gott að standa sig!

Starfsferli Rögnvaldar lauk skyndilega með miskunnarlausri uppsögn á Borgarspítalanum. Þá átti hann eftir tæp 2 ár í starfi. Öllum bolabrögðum var beitt af algjöru siðleysi. Útskýringar voru margvíslegar, m.a. sagt að vantaði „stöðugildi“. Kollegar Rögnvaldar buðust þá til að lækka vinnuprósentu sína upp í stöðugildi fyrir Rögnvald en allt kom fyrir ekki. Þeir sem stóðu að uppsögninni kunnu ekki skil á réttu og röngu.

Þar með lauk 30 ára farsælum og glæstum starfsferli læknisins sem borið hafði hróður Borgarspítalans út, innan lands sem utan.

Starfslokin voru Rögnvaldi og fjölskyldu hans afar erfið. Síðar meir hóf hann aftur störf með vinum sínum, bæklunarlæknunum í Orkuhúsinu.

Lokið er vöku langri,

liðinn er þessi dagur.

Morgunsins röðulroði,

rennur upp nýr og fagur.

Miskunnarandinn mikli

metur þitt veganesti.

Breiðir út ferskan faðminn,

fagnandi nýjum gesti.

(H.Á)

Ég vil trúa því að „miskunnarandinn mikli“ hafi breitt út faðminn og „fagnað nýjum gesti“ þegar Rögnvaldur með alla sína hæfni og visku í „veganesti“ gekk inn um hið gullna hlið.

Fjölskyldu Rögnvaldar sendi ég hlýjar kveðjur.

Guðrún Sverrisdóttir,

hjúkrunarkona.