Sköpunarverk Kristín við verk sitt í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Sköpunarverk Kristín við verk sitt í Ráðhúsi Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Kristinn
Sköpunarverk I nefnist listaverk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði í aðalsal Ráðhúss Reykjavíkur á Menningarnótt sl. laugardag. Verkið er 4.20 x 3.70m, unnið með lopa á striga árið 2013.
Sköpunarverk I nefnist listaverk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði í aðalsal Ráðhúss Reykjavíkur á Menningarnótt sl. laugardag. Verkið er 4.20 x 3.70m, unnið með lopa á striga árið 2013. Velgjörðarmaður listakonunnar gaf Listasafni Reykjavíkur verkið og var því valinn staður í Ráðhúsinu.

Við afhjúpunina þakkaði Kristín borgarstjórn sérstaklega fyrir framsýni og fyrir að vera til fyrirmyndar á alþjóðlegum vettvangi með því að leyfa verki sem fjallar um viðkvæmt tabú, þ.e. píkuna, að hanga í húsakynnum sínum.

„Ég er stolt af að tilheyra samfélagi þar sem borgarstjórn þorir að opna þannig á umræðu sem er nauðsynleg í nútímasamfélagi, því fátt hefur verið eins misnotað og útjaskað gegnum tíðina og þetta litla líffæri sem er kynfæri kvenna og er því miður orðið algeng samsömun kláms og ofbeldis. Svo ekki sé minnst á þöggunina sem fylgir þessum neikvæðu þáttum og skömmina sem við eigum hins vegar að snúa í viðurkenningu á einu sterkasta afli sem býr í náttúrunni og tengist því helgasta sem lífið býr yfir. Kvensköp eru afl móður náttúru, og um það snýst verkið. Þetta afl er að þora að segja satt, að fá að vera til en einnig að standa vörð um varnarleysið sem fylgir því að vera manneskja.“

Kristín þakkaði velgjörðarmanni sínum fyrir að gefa Listasafni Reykjavíkur verkið og þar með gera það aðgengilegt almenningi. Ekki síst væri jákvætt að verkinu væri komið fyrir á stað ákvarðanatöku og valds. „Þetta ber vott um einstakan höfðingsskap og örlæti og er afl sem hefur mótað listasöguna gegnum tíðina, afl góðra verka. Þegar ég sá verkið komið upp hér í salnum og stóra kortið af landinu til hliðar fannst mér heildarmyndin fullkomin. Því verkið fjallar einnig um hinn hreina eld sem býr í landinu sjálfu og í okkur öllum, eldgos framkvæmdaorku og hreinnar hugsunar, afl til góðra verka,“ sagði Kristín og tók fram að hún vonaðist til að almenningur gæti leitað til verksins eftir gefandi orku.