Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, og Franca Rossander, framkvæmdastjóri Disney á Norðurlöndunum, handsala samstarfssamning til þriggja ára á dögunum.
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, og Franca Rossander, framkvæmdastjóri Disney á Norðurlöndunum, handsala samstarfssamning til þriggja ára á dögunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Afþreying er ekki hnignandi atvinnugrein en þetta er spurning um að finna sinn stað. Það held ég að við höfum gert,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, en Skjár Einn fagnar fimmtán ára afmæli sínu.
Rík áhersla verður á innlenda dagskrárgerð í vetur en Skjár Einn býður nú í fyrsta skipti upp á tvo stóra íslenska þætti, Minute to Win It Ísland og Biggest Loser Ísland. Sá fyrrnefndi verður frumsýndur eftir fáeina daga undir stjórn Ingólfs Þórarinssonar en önnur serían af Biggest Loser fer í loftið í janúar. Upptökur eru að hefjast í Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem fjórtán nýir keppendur eru klárir í slaginn. „Báðar seríurnar eiga mikla möguleika til vinsælda,“ segir Friðrik. „Biggest Loser færði okkur mikið lausafylgi síðasta vetur og Minute to Win It gerir það vonandi líka. Maður sér vel hvað vandaðar innlendar seríur skipta miklu máli fyrir áskriftarsjónvarp eins og okkur.“ Saga Film framleiðir báða þætti.

Erlendar þáttaseríur skipta líka máli og Friðrik lofar sókn á þeim vettvangi. „Þannig hefur Skjár Einn samið við Disney til næstu þriggja ára sem tryggir okkur aðgang að öllum nýjustu þáttaröðum þeirra. Við höfum einnig gengið frá nýjum einkasamningi við Eurosport, sem frá og með áramótum verður aðeins aðgengileg viðskiptavinum okkar í Skjá Heimi,“ segir Friðrik en eins og fram hefur komið mun Skjár Sport sýna beint frá þýska fótboltanum í vetur.

Þá verður þjónusta efld á Skjá Krökkum og aukin áhersla lögð á Skjá Flakk, sem gerir áskrifendum kleift að nýta þjónustu Skjás Eins hvar sem er, hvenær sem er. „Við munum þróa Skjá Flakk áfram og kynna frekari nýjungar á næstunni,“ segir Friðrik en mælingar sýna að neyslumynstur fólks er að breytast. Rúmlega 20% af áhorfi á Skjá Einn er nú þegar hliðrað, þ.e. fólk horfir þegar því hentar. Að dómi Friðriks mun það hlutfall aukast hratt.

Loks má nefna að Skjár Einn hefur fengið nýtt útlit og nýja rödd, Ara Eldjárn, grínista. „Ari er þekktur fyrir að fara út fyrir rammann, það verður því enn skemmtilegra að horfa á Skjá Einn og aðra miðla Skjásins.“