[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Júlíu Þrastardóttur fannst vanta að taka víravirkið í nýja notkun en hún leikur sér með þetta gamla handverk og hannar skartgripi undir nafninu djulsdesign. Hún heldur líka námskeið í víravirki um allt land. Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is

Júlía Þrastardóttir gullsmíðameistari gerir skartgripi undir nafninu djulsdesign. Hún notar víravirki á nýstárlegan hátt og leikur sér með þetta gamla handverk. „Mér fannst vanta að taka víravirkið í aðra notkun. Leyfa því líka að vera eyrnalokkar, giftingarhringur eða hálsmen,“ segir hún en víravirkið fær nýtt líf í hönnun hennar. „Það eru ekki allir sem eiga þjóðbúning eða nota hann. En ég smíða á upphlut, smíða inn í og geri við.“

Hönnun hennar vakti lukku á handverkshátíðinni í Eyjafirði í ágúst en Júlía tekur líka þátt í stóru sýningunni Handverki og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember. Hún er frá Akureyri en er nýflutt í bæinn og leggur nú stund á nám í kennslufræði fyrir iðnmeistara í Háskóla Íslands.

Hún útskrifaðist sem gullsmiður frá Tækniskóla Íslands árið 2009 og sem meistari árið 2011. Hún hefur auk þess unnið til verðlauna í Norðurlandakeppni í gullsmíði.

Eftir námið vann hún í þrjú ár á heimaslóðum, hjá Halldóri úrsmið á Glerártorgi, og segir það hafa verið góða reynslu. „Ég var eini gullsmiðurinn á staðnum,“ segir Júlía sem vann hjá Halldóri sem afgreiðsludama á yngri árum. „Ég gerði það sem var beðið um og vantaði í búðina. Ég gerði líka mínar vörur og fékk því tækifæri frá byrjun til að koma mér upp nafni.“

Leturgröftur í Flórens

Hún stefndi alltaf í meira nám og hélt til Flórens á Ítalíu árið 2012 þar sem hún lærði bæði leturgröft og steinaísetningu á sjö mánaða tímabili. Skólinn átti að vera á ítölsku og ensku en lítið fór þó fyrir enskunni en Júlía hafði þó sótt námskeið í ítölsku fyrir brottför.

Hún fór á svokallað hraðnámskeið í leturgreftri, sem er listin í að teikna með handverkfærum á málm. „Þetta voru fjórar vikur frá níu á morgnana til fjögur á daginn. Kennarinn var 76 ára gamall og talaði bara flórentínsku. Ég skildi ekki eitt einasta orð. En þetta er besti kennari sem ég hef nokkurn tímann haft. Bara með sýnikennslu og handapati kenndi hann mér meira á þessum fjórum vikum en ég lærði í tveimur áföngum í leturgreftri í skólanum. Þessi maður ólst upp í þessu og búinn að vera að síðan hann var átta ára. Hann er til dæmis að grafa á ramma fyrir Tiffany's,“ segir Júlía, sem er með stórar hugmyndir um hvernig hún ætli að notfæra sér þetta þótt hún sé ekki með vörur af þessu tagi sem stendur til sölu.

Í spjalli við Júlíu kemur reyndar greinilega fram að hugmyndir eru nokkuð sem er ekki af skornum skammti hjá henni en hún framkvæmir þær líka. „Ég er alltaf svo æst að ég gerði verkefni eins og gerð eru á einu ári í náminu á sjö mánuðum. Þegar ég byrja þarf ég að halda áfram og áfram,“ segir Júlía sem sefur með minnisbók við hlið rúmsins en hugmyndirnar koma gjarnan til hennar fyrir svefninn og líka þegar hún vaknar.

En hvaðan skyldi hún fá innblástur? „Hugmyndirnar koma bara, stundum þegar ég skoða gamla skartgripi og þegar ég skoða gamla upphluti eða belti sé ég bara skartgrip.“

Hún segist einnig hafa fengið mikinn innblástur í Flórens. „Ég á mikið magn ljósmynda eftir dvölina sem ég á eftir að nýta mér til innblásturs.“

Brautargengi fyrir konur

Þegar hún kom heim frá Ítalíu ákvað hún að byrja með eigin rekstur. „Ég ákvað bara að stinga mér í djúpu laugina,“ segir Júlía sem fór í Brautargengi hjá Nýsköpunarmiðstöð, sérsniðið námskeið fyrir konur sem hafa viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd með nýju eða starfandi fyrirtæki.

„Það var rosalega gott og kýldi mig svolítið áfram. Það er meira en að segja það að byrja með eigin rekstur,“ segir hún og bætir við að djulsdesign hafi vaxið mikið á stuttum tíma. „Ég er bara búin að vera í þessu í eitt ár af alvöru,“ segir Júlía sem hefur ekkert auglýst en treystir á umtal og líka á Facebook-síðuna sína þar sem allar upplýsingar um hana er að finna en hún er einnig með sölusíðuna djuls.is.

Ennfremur heldur hún víravirkisnámskeið um land allt sem hafa notið mikilla vinsælda. „Það hefur undið upp á sig miklu meira en ég bjóst við,“ segir hún en bara í október verður hún með námskeið í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Akranesi og Þingeyri.

Hún segir fjölbreytilegan hóp sækja námskeiðin. „Ég hef kennt 12 ára upp í 86 ára,“ segir Júlía sem kennir bæði byrjenda- og framhaldsnámskeið. Vinsældir námskeiðanna urðu til þess að hún ákvað að flytja suður og fara í kennslufræðina.

Hún byrjaði ung í víravirkinu. „Ég fór á mitt fyrsta námskeið þegar ég var 16 ára með mömmu minni og síðan varð ekki aftur snúið,“ segir hún sem heillaðist alveg af víravirkinu. Hún vissi líka alla tíð hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. „Ég ætlaði alltaf að verða gullsmiður,“ segir Júlía sem ræktaði líka listræna hæfileika sína sem barn og fór í myndlistarskóla. Hún segist hafa fengið mikinn stuðning í æsku. „Ég fékk alltaf að gera það sem mig langaði, sama hvað mér datt í hug voru foreldrarnir alltaf tilbúnir að aðstoða! Ég hef notið góðs af því.“