[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í skrautlegri íbúð við Skólavörðustíg í Reykjavík býr Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir. Ragnheiður segir heimilið einkennast af litum og óreiðu. Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is
Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir, eða Ragga, starfar sem hjúkrunarfræðingur, rithöfundur, prjónahönnuður og blaðamaður. Ragga býr ásamt dóttur sinni í afar bjartri og litríkri íbúð í miðbæ Reykjavíkur. „Þægindi og kósíheit eru númer eitt og tvö. Lyktin er líka ótrúlega mikilvæg. Ég vil að heimilið ilmi af amber og patchouli og nota reykelsi grimmt,“ segir Ragga sem sækir innblástur í allar áttir. „Ég sæki innblástur í drauma, samtöl, bíómyndir, bækur og búðir. Ég fæ stöðugt hugmyndir og eflaust endurspeglar heimilið þá staðreynd.“ Ragga segir heimilisstílinn afar „maxímalískan“ og passlega „kaótískan“ en hún elskar liti og að hengja dót upp í loft. Ragga segist dugleg við að sanka að sér hlutum héðan og þaðan. „Á heimilinu er einhvers konar blanda af Ikea, Góða hirðinum og erfðagóssi frá mömmu og ömmu,“ útskýrir Ragga. Spurð hver sé uppáhalds staður hennar á heimilinu nefnir hún risastóra sófastóllinn með gærunum. „Þar er pláss fyrir mig og alla eða allt sem mig langar að hafa nálægt mér. Svo elska ég svalirnar, það er alltaf eitthvað spennandi í gangi fyrir neðan.“