Hryðjuverkaforingi Abu Bakr al-Baghdadi kallar sig Ibrahim kalífa og kveðst vera leiðtogi allra múslíma. Hér flytur hann ávarp við mosku í Mosul.
Hryðjuverkaforingi Abu Bakr al-Baghdadi kallar sig Ibrahim kalífa og kveðst vera leiðtogi allra múslíma. Hér flytur hann ávarp við mosku í Mosul. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Abu Bakr al-Baghdadi er stríðsnafn 43 ára íslamsks fræðimanns, sem þótti sérlega markheppinn í fótbolta á yngri árum sínum, en varð seinna einn af skæðustu hryðjuverkaforingjum heims.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Abu Bakr al-Baghdadi er stríðsnafn 43 ára íslamsks fræðimanns, sem þótti sérlega markheppinn í fótbolta á yngri árum sínum, en varð seinna einn af skæðustu hryðjuverkaforingjum heims. Hann er nú leiðtogi samtaka íslamista, Ríkis íslams, sem hafa lýst yfir stofnun kalífadæmis á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Síðan hafa fylgismenn hans nefnt hann Ibrahim kalífa.

Baghdadi fæddist í borginni Samarra árið 1971 og fékk nafnið Awwad Ibrahim Ali al-Badri al-Samarrai. Hann er kominn af klerkum úr röðum súnníta og ólst upp í Samarra en hóf ungur nám í Bagdad.

Þeir sem kynntust Baghdadi í höfuðborginni segja að hann hafi verið feiminn og hlédrægur námsmaður. Hann er sagður hafa verið mikill markaskorari í fótboltaliði ungmenna sem sóttu mosku hans í Bagdad.

„Hann var okkar Messi í fótboltanum,“ hefur breska blaðið The Daily Telegraph eftir Abu Ali, einum leikmanna liðsins. „Hann var bestur í liðinu okkar.“

Abu Ali segir að Baghdadi hafi leigt herbergi í húsi við mosku í Tobchi, fátækrahverfi í höfuðborginni. „Hann kom til Tobchi þegar hann var átján ára. Hann var hæglátur maður, mjög hæverskur.“

Baghdadi stundaði nám við Íslamska háskólann í Bagdad og stjórnaði bænum í mosku sinni á námsárunum. Hann lauk doktorsprófi og sérhæfði sig í íslamskri menningu, sögu, sjaría-lögum og réttarheimspeki. Fylgismenn hans segja að hann sé einnig skáld.

Eftir að náminu lauk kvæntist Baghdadi og tæpu ári síðar eignuðust hjónin son. Þegar innrásin í Írak var gerð árið 2003 undir forystu Bandaríkjahers lifði Baghdadi enn venjulegu fjölskyldulífi í höfuðborginni, að sögn borgarbúa sem þekktu hann. Hann fór þaðan um ári síðar eftir að hafa átt í deilum við eiganda moskunnar og íbúðar sem hann leigði. Bandaríski herinn handtók hann seint á árinu 2005 og sakaði hann um að hafa tekið þátt í pyntingum og manndrápum vopnaðs hóps í bænum Qaim í Anbar-héraði. Hann var látinn laus árið 2009 og var þá ekki álitinn á meðal hættulegustu fanganna. „Hann var slæmur náungi en ekki verstur illfyglanna,“ sagði yfirmaður fangelsisins síðar í viðtali.

Sagður afkomandi Múhameðs

Fátt er vitað um hvernig Baghdadi varð leiðtogi hryðjuverkasamtakanna. Einn af samstarfsmönnum hans skrifaði ævisögu hans í fyrra og lagði þar áherslu á að Baghdadi væri einn af afkomendum Múhameðs spámanns. Hann vildi þannig sýna að Baghdadi uppfyllti eitt af höfuðskilyrðum þess að geta orðið kalífi, leiðtogi allra múslíma.

Kalífi er titill andlegs leiðtoga múslíma á öldunum eftir andlát Múhameðs spámanns. Kalífar urðu síðar veraldlegir valdsmenn og taldir þiggja vald sitt frá Allah. Fyrsti kalífinn var Abu Bakr, tengdafaðir Múhameðs, og enginn gat orðið kalífi nema hann gæti rakið ættir sínar til fjölskyldu Múhameðs. Þegar Baghdadi valdi sér stríðsnafn tók hann sér nafn fyrsta kalífans.

Kalífinn í Bagdad varð valdalaus árið 1258 og síðasti kalífinn af ætt Abbasída afsalaði sér titlinum til Tyrkjasoldáns 1517. Hann hélt titlinum til 1924 og síðan hefur enginn borið titilinn. Þótt Baghdadi kalli sig kalífa fer því fjarri að hann njóti viðurkenningar sem leiðtogi allra múslíma.