25. janúar 2015 | Sunnudagsblað | 1443 orð | 4 myndir

Sara og Svanhildur Vilbergsdætur sýna í Gerðubergi

„Eigum í raun alls ekki skap saman“

„Ég fékk hjartastopp og hreinlega andaðist,“ segir Sara þegar spurt er um málverkið Hjartastopp sem þær Svanhildur standa við.
„Ég fékk hjartastopp og hreinlega andaðist,“ segir Sara þegar spurt er um málverkið Hjartastopp sem þær Svanhildur standa við. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur mála saman myndir sem eru fyndnar, litríkar og hlaðnar listsögulegum tilvísunum. Um leið fjalla þær um veikindi sem ógnuðu lífi þeirra. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Þegar gengið er inn á sýninguna Stund milli stríða með málverkum systranna Söru og Svanhildar Vilbergsdætra, sem opnuð verður í menningarhúsinu Gerðubergi í Breiðholti í dag, laugardag, klukkan 15 tekur sjávarniður á móti gestum; það má heyra hvernig öldur skella á strönd. Við blasa litrík og fjörleg verk sem sýna mörg hver systurnar sjálfar á sælustundum í orlofi á Tenerife, við strönd sem öldurnar klappa. Verkin eru hlaðin listsögulegum tilvísunum – sjá má mjólkurstúlku málarans Vermeer og hann sjálfan tvöfaldaðan að mála þær, í einu verkinu er sundlaug Davids Hockney og berrassaður ungur maður sem kemur úr frægu málverki hans; elskendur úr verki eftir Chagall svífa um loftið í öðru verki og í enn einu eru þær systur úti í laug ásamt Jesú Kristi, Línu Langsokk, Marilyn Monroe og Fridu Kahlo. Þrátt fyrir galgopaskapinn eru sum verkin líka mjög dramatísk. Hvaða er að gerast hér?

„Við endann á salnum eru þessi verk þarna sem sýna stríðin sem titill sýningarinnar vísar í, en það er löng saga sem borgar sig líklega ekkert að fara út í,“ segir Sara.

Þegar hváð er segir Svanhildur að málverkið til vinstri sýni hana og vísi í það þegar hún greindist með krabbamein árið 2009 og var í kjölfarið skorin upp. Þar má sjá hana liggjandi á bekk í geislameðferð á sjúkrahúsi. Súperman er fljúgandi á myndinni og leikarinn George Clooney er þar líka.

„Við byrjuðum fyrir tilviljun að mála saman á menningarnótt árið 2010, héldum okkar fyrstu einkasýningu í Listasafni ASÍ 2012, en í maí sama ár vorum við í Danmörku, í vinnustofudvöl á Fjóni,“ segir Svanhildur. „Þar unnum við að fjölskyldumálverki sem við sýndum seinna í Mosfellsbæ og hangir nú í Hörpu. Þetta verk hér sýnir okkur þar,“ segir Svanhildur og við stöndum frammi fyrir afar gulu verki þar sem sjá má systurnar dúðaðar, H.C. Andersen les bók í öðru horninu en þar eru líka van Gogh og litla stúlkan með eldspýturnar, auki fleira fólks.

„Þarna var þessi yndislegi guli repjuakur, þaðan kemur guli grunnurinn, og fallegt kirsuberjatré í garðinum en það var brunagaddur og við bjuggum í húsnæði sem var rakt og kalt. Við kvefuðumst báðar hastarlega, ég fékk nú bara lungnabólgu en flensuvírusinn hljóp í hjartað á Söru, gerði þar mikinn usla og stoppaði það mánuði síðar.“

„Ég fékk hjartastopp og hreinlega andaðist,“ segir Sara þegar hún er spurð nánar út í forsögu málverksins sem sýnir hana í sjúkrarúmi á sjúkrahúsi, með hjartað liggjandi á sænginni. Uppi í vinstra horninu eru sjúkraflutningamenn, þar er Súperman líka mættur og við rúmið eru systur hennar, Bryndís og Svanhildur. Dauðinn er mættur með ljáinn við höfðagaflinn.

„Þetta gerðist 8. júlí 2012 og það tókst að endurlífga mig,“ segir Sara.

„Það var á afmælisdegi systur okkar og ég var skorin upp á afmælisdegi bróður okkar!“ skýtur Svanhildur inn í.

„Þarna er ég á gjörgæslunni.“ segir Sara um verkið. Og hjartað á sænginni?

„Það kemur frá Fridu Kahlo.“ Hún hlær. „Við höldum mikið upp á hana. Bjargvætturinn Súperman er að störfum á báðum spítalamálverkunum.“

– En Clooney?

„Hann á bara að vera sætur,“ svarar Svanhildur. „Hann horfir bara beint í myndavélina.“

„Hérna er dauðinn yfir mér en Hannibal Lechter er á málverkinu af Svanhildi,“ segir Sara.

„Krabbinn étur mann en þessi er sneggri,“ bætir Svanhildur við og bendir á manninn með ljáinn.

– Þið sluppuð. Súperman kom til bjargar.

„Já, þetta slapp fyrir horn. Samt tók endurlífgunin á mér 45 mínútur,“ svarar Sara. „Hér var örugglega um kraftaverk að ræða. Ég er síðan með bjargráð og búin að ná mér vel á strik. Allir geta fengið svona vírus og stundum skýst hann í hjartað. Ég var bráðfrísk fram að því. Ég var á leið í sumarfrí með manninum mínum, við vorum á bensínstöð í Hveragerði og þá leið ég út af í bílnum. Hann dró mig út og fyrir tilviljun átti lögreglumaður á frívakt leið hjá, hann sá þetta, stoppaði og byrjaði strax að hnoða mig í gang. Sjúkrabíllinn frá Selfossi kom ekki fyrr en ellefu mínútum seinna. Hefði lögreglumaðurinn ekki verið þarna þá væri ég ekki hér til frásagnar ...Við systur urðum þannig báðar fyrir sjokki vegna heilsunnar en mitt á milli þessara atvika þá fórum við saman til Tenerife, árið 2011.“

Veltum ferðakúltúr fyrir okkur

Sara og Svanhildur eru fæddar á Ísafirði árin 1956 og 1964, dætur hins kunna tónlistarmanns og hárskera, Villa Valla, Vilbergs Vilbergssonar. Þær námu báðar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og unnu lengi að list sinni hvor í sínu lagi en eins og þær sögðu ákváðu þær fyrir um fimm árum að prófa að vinna saman, með litum og striga. Viðtökurnar voru góðar, þær nutu sín í samstarfinu og hafa síðan kannað í sameiningu bæði hvunndags- og ævintýralönd. Og eins og þær sögðu líka fóru þær til Tenerife árið 2011, í frí með eiginmönnum sínum, en líka til að safna efni fyrir flest þessara verka.

„Sýningin endurspeglar að það skiptast á skin og skúrir í lífinu,“ segir Sara. „Við heyrum sjávarnið hér og hafið er eins og lífið, það er aðfall og útfall.“

„Eftir að hafa lent í hremmingum með heilsuna kann maður betur að meta lífið og veit hvað það skiptir miklu máli að geta bæði andað inn og út,“ bætir Svanhildur við.

Þær hafa greinilega notið lífsins í ferðalaginu sem mörg málverkanna fjalla um.

„Við litum í og með á þetta ferðalag sem vinnuferð. Við vorum með góða myndavél og tókum mjög mikið af ljósmyndum til að vinna úr. Við vorum líka að velta ferðakúltúrnum fyrir okkur, þessum plebbakúltúr sem við vorum hluti af,“ segir Sara og systurnar flissa. „Við mynduðum allskyns hluti og aðstæður en síðan grisjuðum við, völdum myndir að skoða betur og röðuðum þeim saman. Út úr því komu nokkrar stemningar.“

– En hver er ástæðan fyrir því að elskendur Chagalls svífa yfir ykkur í sólbaði þarna og að mjólkurstúlka Vermeers er að þjóna ykkur á annarri mynd?

„Þetta kemur bara svona til okkar,“ svarar Svanhildur og ypptir öxlum. „Við veltum hugmyndum á milli okkar og munum ekkert endilega hver kom með fyrstu hugmynd eða hver þá næstu, svona er þetta bara.“

„Við áttum okkur á sumu eftirá,“ bætir Sara við. „Sjáðu, hér er maðurinn minn að lesa bók í sólbaði. Hann er þessi þögla týpa og það er gaman að láta ástfangna parið hans Chagalls koma fljúgandi upp úr bókinni hans – er hann að lesa ástarsögu? Það er ekki séns,“ segir hún og hlær. „Kannski fáum við útrás fyrir stríðnina í okkur í verkunum.“

Svanhildur tekur undir að þær sjái oft margar tengingar eftirá.

– En þið getið ekki neitað því að það er mikill húmor í þessum verkum.

„Það er þá algerlega óvart“ segja þær stríðnislega og vilja sverja það af sér.

– Sum verkin eru býsna einföld, hér er nærmynd af fæti og lökkuðum nöglum.

„Það er litapæling í þessu en svona var þetta,“ segir Svanhildur. „Svo er annað, að dreyma vatn er fyrir veikindum.“

„Það er alveg klassískt, ég þekki það vel,“ tekur Sara undir með systur sinni.

Í taugarnar á hvor annari

En hvernig skyldu systurnar vinna? Raða þær saman því sem á að fara á myndflötinn áður en þær byrja að mála, og mála svo hlið við hlið á sama strigann?

„Já. Við gerum allt saman. Við dælum í tölvu ógrynni af myndum og setjumst svo öðru hvoru yfir það, förum í Photoshop og klippum til hluti sem passa saman, leikum okkur með þetta fram og til baka. En stundum gerum við líka klippimyndir upp á gamla mátann,“ segja þær. „En þetta eru allt upphaflega klippimyndir. Við grisjum þetta smám saman þar til eftir standa nokkrar tillögur. Verkin fara oft í allt aðra átt en við ætluðum, þau taka okkur með sér. Þá fer tími í að raða myndefninu saman og við spáum heilmikið í myndbyggingunni, litnum og samspilinu þar á milli.

Við erum líka furðu sammála um hvað virkar og hvað ekki.“

Svanhildur segir það í raun ótrúlegt hvað þær séu sammála um verkin.

„Já, því við erum rosalega ólíkar og eigum í raun alls ekki skap saman,“ segir Sara. „Fyrir utan þetta. Annars erum við oft frekar pirraðar hvor á annarri.“

„Já, við förum oft í fínustu taugarnar á hvor annarri og þurfum þá að passa okkur, en ekki í þessu,“ segir Svanhildur þá.

„Þegar við vinnum að þessum myndum erum við eins og ein manneskja, það er ekki eðlilegt!“ Þær hlæja.

– En málið þið myndirnar af ykkur sjálfar eða hvor aðra?

„Við gerum alltaf sjálfsmyndir. Við eigum alveg eftir að prófa að snúa því við.

Nú blóðlangar okkur til Rómar í haust,“ segja þær svo þegar spurt er um næstu skref. „Í innblástursferð. En mennirnir okkar vita það ekki enn, þeir verða bara að lesa það í Mogganum...“

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.