Elí Møller Sigurðsson, fædd Nielsen, fæddist 7. ágúst 1924 í Grenå á Jótlandi í Danmörku. Hún lést 27. janúar 2015 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Foreldrar voru Kristian Edvard Nielsen múrari, f. 2.12. 1896, d. 1.3. 1991, og Johanne Margrethe Christensen verkakona, f. 18.2. 1899, d. 7.4. 1988, bæði í Grenå, Danmörku. Systkini Elí: Edvin, f. 1919, d. 1984; Enid, f. 1920, d. 2013; Egild, f. 1922, d. 1993; Erli, f. 1928, d. 2004; Elin, f. 1935.
Elí ólst upp á Jótlandi en fluttist ung að árum til Kaupmannahafnar þar sem hún kynntist ungum íslenskum málaranema og síðar málarameistara, Ágústi Sveinbirni Sveinssyni Sigurðssyni, f. 4.6. 1920, d. 17.12. 1978. Þau Ágúst felldu hugi saman, fluttu til Íslands 1945 og varð þeim sjö barna auðið: 1) Ingolf, f. 1945, bifreiðastjóri í Reykjavík, kvæntur Jónínu Jóhannsdóttur, f. 1949. Börn: a) Elí Ingi, f. 1977, umsjónarmaður í Reykjavík; börn hans: Tryggvi Jökull, f. 2003, og Eva Lilja, f. 2008; b) dóttir Ingolfs: Ágústa Hugrún, f. 1967, matartæknir í Reykjavík, gift Einari Björgvini Birgissyni, f. 1966, þjónustustjóra; synir þeirra: Daníel Örn, f. 1992, þjónanemi, og Jóel Örn, f. 1998, framhaldsskólanemi. 2) Guðbjörg, f. 1946, hjúkrunarfræðingur í Kópavogi. Börn: a) Ólafur Geirsson, f. 1969, húsasmiður í Hafnarfirði, sambýliskona Erna Sóley Stefánsdóttir, f. 1977, tollvörður; sonur Ólafs: Þórður Sindri, f. 1995, framhaldsskólanemi á Selfossi; b) Sigurbjörg Felixdóttir, leiðbeinandi í Kópavogi, f. 1978, gift Knúti Guðjónssyni, f. 1972, þjónustufulltrúa; sonur þeirra: Máni Snær, f. 1999; c) Felix Felixson, f. 1986. 3) Jóhanna, húsmóðir í Vestmannaeyjum, f. 1949, gift Óskari Ólafssyni prentara, f. 1951. Börn: a) Kristín Ósk, f. 1981, náms- og starfsráðgjafi í Vestmannaeyjum, sambýlismaður Jón Helgi Sveinsson, f. 1979, smiður; b) sonur Jóhönnu: Geir Sigurðsson, f. 1969, dósent í Reykjavík, kvæntur Vilmu Kinderyte, f. 1975, kennara. 4) Ágúst Elías, f. 1952, prentari í Reykjavík, kvæntur Hrefnu Sigfúsdóttur, f. 1957. Dóttir þeirra: Helga, sjúkraþjálfari í Mosfellsbæ, f. 1978, gift Jóhannesi Baldvini Jónssyni landnýtingarfræðingi, f. 1979; börn þeirra: Steinunn Marsilía, f. 2004, Anna Hrefna, f. 2008, og Ágúst Baldvin, f. 2011. 5) Kristján Edvard, f. 1952, bólstrari í Reykjavík, kvæntur Kristínu Jónu Vigfúsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1954. Börn þeirra: a) Elsa, sálfræðingur í Reykjavík, f. 1978, gift Valtý Jónassyni tölvunarfræðingi, f. 1981; börn þeirra: Viktor Elí, f. 2012, Emil Kári, f. 2014, og Emilía Dís, f. 2014; b) Klara, f. 1982, leiðbeinandi í Reykjavík, sambýlismaður Þráinn Þórhallsson, f. 1980, tónlistarmaður; sonur þeirra: Dalí, f. 2013; c) Vigfús, f. 1986, bílamálari í Reykjavík, unnusta Sigurveig Hulda Óðinsdóttir, f. 1992. 6) Helgi Björgvin, f. 1956, prentari í Noregi, kvæntur Inger Lise Agustsson, f. 1957, sjúkraliða; synir Helga: a) Ingvar, f. 1982, veitingamaður í Svíþjóð; b) Gunnar, f. 1992, leiðbeinandi í Noregi, sambýliskona Madelen Haugen, f. 1992. 7) Halldóra Ólöf, þjónustufulltrúi í Reykjavík, f. 1960, gift Ólafi Jóhannessyni tæknistjóra, f. 1959; börn þeirra: a) Berglind, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi í Bandaríkjunum, f. 1977, gift Björgvini Franz Gíslasyni leikara, f. 1977; dætur þeirra: Edda Lovísa, f. 2001, og Dóra Marín, f. 2008; b) Ágúst Sveinbjörn, f. 1983, bifvélavirki í Reykjavík, unnusta Eva Guðbrandsdóttir, f. 1974, þjónustufulltrúi á Stykkishólmi.
Eftir komu sína til Íslands árið 1945 bjó Elí með eiginmanni sínum og elstu börnunum m.a. um sex ára skeið í braggahverfinu á Seltjarnarnesi sem kennt var við Neskampa. Árið 1957 fluttu þau í Ásgarð í Bústaðahverfi þar sem öll börnin uxu úr grasi, auk Geirs, dóttursonar þeirra og sonar Jóhönnu, sem þau tóku að sér ungan að aldri. Í desember 1978 varð Ágúst bráðkvaddur. Elí flutti í Furugrund í Kópavogi árið 1989 en þar bjó hún um sautján ára skeið. Síðustu árunum varði hún á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.
Útför Elí fer fram frá Digraneskirkju í dag, 6. febrúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Það var lán mitt í lífinu að eiga tvær mömmur og var Elí önnur þeirra. Af þeim 90 viðburðaríku árum sem hún lifði dvaldi hún í tæp 70 ár á Íslandi. Þar kom hún á legg átta börnum sem hugsanlega hafa aldrei áttað sig fyllilega á þeim áhrifum sem hún hafði á þau. Mamma las okkur ekki lífsreglurnar. Hún var ekki með fyrirframgefnar hugmyndir um það hvernig ætti að lifa, heldur tók jafnan mið af aðstæðum og reyndi að kenna okkur með eigin fordæmi hvað það merkir að vera sannkölluð manneskja. Hún var stolt í heiðarleika sínum og eljusemi en eins og allar sterkar persónur óhrædd við að leita aðstoðar hjá sínum nánustu ef svo bar undir.

Tilvera mömmu á Íslandi einkenndist óneitanlega af þeirri sérkennilegu togstreitu innflytjandans sem rífur sig upp með rótum til að setjast að á framandi stað og eignast þar fjölskyldu. Börn hennar, barnabörn og barnabarnabörn voru hennar líf og yndi og því kom aldrei til greina að flytja sig um set, ekki heldur eftir andlát afa míns, sem ég kallaði pabba, þegar hún var enn á besta aldri. Þó finnst mér að alltaf hafi verið til staðar einhver vottur af trega eða söknuði eftir heimalandinu þar sem móðurmálið var talað og menningin henni í blóð borin. Eins og allt sem henni sjálfri viðkom var þetta látlaus togstreita sem við, börn hennar og afkomendur, fundum aldrei fyrir og hugsuðum þess vegna aldrei út í. Við veltum því aldrei fyrir okkur hversu einkennilegt og erfitt hefur verið fyrir hana að yfirgefa nútímalega en vissulega stríðshrjáða stórborg á fimmta áratug tuttugustu aldar og setjast að í landi á hjara veraldar þar sem innreið aldarinnar hafði varla hafist. Við erum flest sein til að skilja fórnir foreldra okkar. En mamma setti heldur aldrei sjálfa sig á svið og gerði sjálfa sig aldrei að umtalsefni. Líf hennar snerist ekki um hana sjálfa heldur um að rækta þau sambönd og rækja þau hlutverk sem gerðu hana að því sem hún var, að vera dóttir, systir, eiginkona, móðir, amma, langamma og svo framvegis. Hún var þannig fullkomlega æðrulaus, jafnvel án þess að velta vöngum yfir því sjálf, og tileinkaði sér þetta merkilega og mér liggur við að segja látlausa látleysi, látleysið sem er svo einlægt og eðlislægt að það er ósýnilegt og enginn kann að koma orðum að því.

Þetta látleysi olli því að mamma átti það til að koma mér á óvart með yfirlætislausri viskunni sem reynslan hafði miðlað henni. Á tímum þar sem ég var sjálfur rótlaus og óviss um eigin stefnu sýndi hún mér stöðugt og óbilandi traust sem veitti mér ekki einungis mikilvægan stuðning, heldur blés mér um leið í brjóst metnað til að bregðast ekki þessu öfluga trausti. Hún vissi hvað hún söng. Mamma var minn eftirlætis heimspekingur, praktískur heimspekingur sem skildi lífið og aðstæður áttavilltra einstaklinga í þeim hringlanda sem lífið getur verið en um leið kærleiksríkur heimspekingur sem vissi að besta hvatning sérhverrar persónu er ást, traust og tiltrú þeirra sem standa henni næst. Þar kenndi hún mér meira en allar heimsins bækur gætu nokkru sinni kennt mér.

Með þeirri útgeislun heiðarleika, hreinskilni og einlægni sem stafaði af henni er og verður mamma ávallt mín mikilvægasta fyrirmynd, enda þótt ég muni aldrei geta náð hennar hæðum. Nú, þegar hún hefur loksins fengið að yfirgefa biðsalinn þar sem hún dvaldi um hríð, finn ég fyrst og fremst til þakklætis, þakklætis til hennar fyrir allt sem hún gaf mér en jafnframt þakklætis til örlaganna, hver sem þau eru, fyrir að hafa leyft mér að njóta þess að hafa haft þessa einstöku persónu sem áhrifavald í lífi mínu. Ég mun sakna hennar en fái ég einhverju um það ráðið verða ljúfar minningarnar af persónuleika hennar mér leiðarljós svo lengi sem ég lifi.

Geir Sigurðsson.