Þorfinnur Guðnason fæddist 4. mars 1959 í Hafnarfirði. Hann lést á líknardeild Landspítalans 15. febrúar 2015.

Þorfinnur var sonur hjónanna Guðna Þ. Þorfinnssonar, f. 8. mars 1916, d. 13. febrúar 1966, og Steingerðar Þorsteinsdóttur, f. 2. febrúar 1926.

Systkini Þorfinns eru Sigríður, f. 13. febrúar 1950, og Þorsteinn, f. 7. ágúst 1952. Hálfsystur Þorfinns, samfeðra, eru Steinunn, f. 10. júní 1937, d. 7. maí 2012, og Gerður Karitas, f. 10. júlí 1942.

Þann 10. ágúst 1985 kvæntist Þorfinnur eftirlifandi eiginkonu sinni, Bryndísi J. Gunnarsdóttur, f. 13. janúar 1958. Foreldrar Bryndísar voru hjónin Gunnar Guðmundsson, f. 25. nóvember 1932, d. 10. mars 2014, og Thelma Sigurgeirsdóttir, f. 5. apríl 1934, d. 2. janúar 2015. Dóttir Bryndísar er Thelma Guðrún Jónsdóttir, f. 20. júní 1977, dóttir Thelmu er Sigríður Birta Pétursdóttir, f. 22. júlí 2000.

Þorfinnur ólst upp í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1983. Þorfinnur lauk BA-námi í kvikmyndagerð frá California College of Arts and Crafts í San Francisco árið 1987.

Þorfinnur starfaði hjá RÚV til ársins 1993 þegar hann sneri sér að gerð heimildamynda.

Árið 1993 sendi Þorfinnur frá sér fyrstu mynd sína, Húsey, hún hlaut menningarverðlaun DV. Önnur mynd Þorfinns, árið 1997, var Hagamús: með lífið í lúkunum. Sú mynd hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga víða um lönd. Þriðja mynd Þorfinns, Lalli Johns, var frumsýnd árið 2001. Myndin setti met í aðsókn heimildamynda í kvikmyndahúsi. Hún hlaut einnig Edduverðlaunin sem heimildamynd ársins og Þorfinnur hlaut fagverðlaun Eddu fyrir klippingu á myndinni. Fjórða heimildamynd Þorfinns var Grand Rokk 1999 og árið 2004 sendi Þorfinnur frá sér fimmtu mynd sína, Hestasögu, sem hefur verið sýnd víða um heim. Myndin var tilnefnd til Edduverðlauna og Þorfinnur tilnefndur sem leikstjóri ársins. Árið 2005 kom svo myndin Klink og bank um ævintýrið þegar listamenn fengu gömlu Hampiðjuna til afnota um skeið. Árið 2008 framleiddi hann heimildamyndina Kjötborg sem Hulda Rós Guðnadóttir og Helga Rakel Rafnsdóttir leikstýrðu. Árið 2009 sendi Þorfinnur svo frá sér kvikmyndina Draumalandið sem hann gerði í samvinnu við Andra Snæ Magnason. Myndin sló aðsóknarmet Lalla Johns og er mest sótta heimildamynd íslenskrar kvikmyndasögu. Myndin hlaut Edduverðlaun sem heimildamynd ársins, auk þess að hljóta tilnefningar Eddu fyrir leikstjórn og hljóð. Árið 2010 kom svo myndin Garðarshólmi um eftirmál hrunsins og endurreisn samfélagsins. Mynd Þorfinns, Bakka-Baldur, var frumsýnd árið 2011. Hún var tilnefnd til Edduverðlauna. Síðla árs 2014 frumsýndi Þorfinnur síðan myndina Víkingó um íslenskan athanaræktanda og vini hans í Dóminíska lýðveldinu.

Undanfarin 20 ár hafa þau hjónin Þorfinnur og Bryndís búið lengst af í Biskupstungum.

Útför Þorfinns fer fram í dag, 27. febrúar 2015, frá Hallgrímskirkju, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Toffi, stjúppabbi minn og afi.

Rosalega er lífið furðulegt. Eina stundina eru allir saman og svo aðra eru svo margir farnir á svo stuttum tíma. Afi Gunnar og amma Thelma og svo þú, okkur Birtu finnst þetta allt mjög furðulegt. En sem betur fer eru eftir margar minningar um okkur saman í gegnum tíðina, sem barn á Ásvallagötunni, unglingur í Vegghömrunum, á Felli í músaævintýrum og á Hverfisgötunni með Birtu litlu og allar bakarísferðirnar, allar helgarnar í Hrosshaga og allar ferðirnar á Vatnsleysu og svo í Dalsmynni þar sem þú og mamma loksins eignuðust hús til að búa saman í ellinni eða svo var planið.

Hver hefði trúað því að síðasti reiðtúrinn þinn hefði verið í júlí 2014 á honum Bakka-Baldri sem var þá fjögurra vetra. Þú varst að temja hann og ætluðum við litla fjölskyldan að skiptast á að fara á bak á honum á hverju sumri eftir það.

Ég er mjög sjaldan orðlaus en núna er ég orðin orðlaus yfir öllum þessum missi sem við fjölskyldan erum búin að ganga í gegnum á innan við einu ári. Ég vil samt segja þér, elsku Toffi minn, að þetta ár, árið 2015 og framvegis, verður mun betra hjá mér og Birtunni minni. Eftir langan tíma og mjög langþráða ákvörðun sem ég hef tekið verður allt til hins betra núna; þú veist hvað ég á við og ég veit að þú ert stoltur af mér með þessa ákvörðun.

Ég bið Guð að passa mömmu mína, ömmu Steinu og elsku Birtu og okkur öll. Ég trúi á æðri mátt, meira núna en nokkurn tíma áður, og ég veit að hann mun hjálpa okkur í gegnum þetta og í gegnum allt lífið. Það er gott að trúa á eitthvað og ég veit að þú trúðir mikið á lífið og Guð líka, nú ertu í hans höndum og loksins ertu búinn að hitta pabba þinn, ég sé ykkur í anda í rokna samræðum um lífið og tilveruna og veit að þið og afi og amma munu fylgjast með okkur. Ég finn allavega fyrir nærveru ykkar og þið eruð mjög oft í draumum mínum, núna síðustu nótt dreymdi mig þig.

En að lokum eins og maðurinn (Þorfinnur Guðnason kvikmyndagerðarmaður) sagði:

„Nú hefur mynd fengið vængi og tímabært að sleppa henni lausri.“

Takk fyrir allt, Toffi minn, og ekki hafa áhyggjur af okkur, við munum spjara okkur og við Birta pössum mömmu.

Þín dóttir og þitt eina afabarn,

Thelma Guðrún og

Sigríður Birta.

Toffi bróðir lést sunnudaginn 15. febrúar sl. eftir baráttu við mein sem lagt hefur margan góðan dreng. Toffi var drengur góður.

Toffi kynnti mig jafnan sem stóra bróður. Toffi hafði gaman af að segja sögur af stóra bróður kenna sér ungum mannasiði, þær sögur urðu ýktari eftir því sem árin liðu. Fæstir vita að Toffi var bráðefnilegur körfuboltamaður en hann var einnig liðtækur skákmaður. Hann mátaði mig með heimaskít þegar hann var 11 ára og ég 17 ára. Á því augnabliki útskrifaðist Toffi úr mannasiðaskóla stóra bróður og ég lagði taflið varanlega á hilluna. Síðan hefur ekki styggðaryrði fallið á milli Toffa og mín.

Við fengumst við ólík viðfangsefni á lífsbrautinni en áttum því láni að fagna að þykja vænt hvor um annan og á milli okkar ríkti bróðurkærleikur og gagnkvæm virðing.

Toffi leit veröldina í gegnum önnur sjóngler en margur annar. Ungur var hann hvorutveggja nörd og töffari, las bækur í ríkara mæli en jafnaldrar hans. Hann prófaði líka og tamdi sér meinta lesti lífsins á undan jafnöldrum sínum. Hann var í senn Gutti og Ari litli úr vísum Stefáns Jónssonar. Toffi var brautryðjandi í eðli sínu, hann leiddi hópinn ungur, og síðar í ævistarfi sínu við heimildamyndagerð. Toffi var skrefi á undan samferðamönnum á lífsins braut, og fór á undan yfir endamörk hennar.

Sýn Toffa á veraldleg verðmæti var önnur en gengur og gerist. Sem unglingur gaf Toffi hluta sumarhýru sinnar til jafnaldra sinna sem þurftu meira á því að halda en hann, að hans mati. Hann gaf peninga sína af einlægni og krafðist einskis í staðinn. Þannig hefur hagfræði Toffa verið í gegnum tíðina, falleg en ekki mjög hagnýt. Sjóngler hans hjálpuðu honum ekki að bera skynbragð á nauðsyn sjálfbærni verkefna sem hann tók sér fyrir hendur. Hann nálgaðist verkefni sín á listrænum forsendum. Fyrir Toffa voru verðmæti fólgin í margbreytilegri fegurð náttúrunnar, þegar gæðingur er tekinn til kostanna, að gæða steina lífi, í litbrigðum Heklu, o.s.frv., hann fann jafnvel fegurð í snjóskafli með músasporum. Mátturinn og dýrðin fyrir Toffa voru falin í náttúrunni og dýrunum. Toffi fangaði þessi verðmæti og setti í ógleymanlegar myndir sínar án þess að gera kröfur um veraldleg verðmæti í staðinn. Toffi var óeigingjarn, einlægur og heill listamaður.

Heimili Toffa og Biddýjar í Biskupstungum voru við dyr ósnortinnar náttúru, þar fann Toffi það sem skipti hann máli. Hann þekkti alla fugla af söng þeirra og útliti. Þó að hann syngi ekki sjálfur fann hann samhljóm náttúrunnar, dýra og manna og birti í myndum sínum. Á Vatnsleysu áttu þau hjón skjól hjá móðurbróður okkar Braga og hans fjölskyldu, það er þakkarvert.

Það er sárt að kveðja yngri bróður sinn og það er sárt fyrir móður okkar að sjá á eftir yngsta barni sínu. En sárast er það fyrir Biddý, konu Toffa, að missa manninn sinn fyrir aldur fram. Toffi og Biddý voru til hvort fyrir annað.

Megi æðri máttur styrkja Biddý og móður okkar og okkur öll í sorginni sem herjar á, far þú í friði, kæri bróðir.

Þorsteinn Guðnason.

Mágur minn Þorfinnur Guðnason kvaddi þessa jarðvist að morgni 15. febrúar aðeins 55 ára.

Þorfinni eða Toffa eins og hann var kallaður var margt til lista lagt, hann stundaði kvikmyndagerð af mikilli snilld, mynd- og steinalistaverk eru mörg eftir hann en hann hafði unun af að vinna með efni úr náttúrunni.

Toffi og Bryndís bjuggu að Dalsmynni í Biskupstungum en þar naut Toffi sín við listsköpun sína.

Toffi og Bryndís voru samheldin hjón og störfuðu oftar en ekki saman við kvikmyndatökur hérlendis sem og erlendis.

Toffi gekk til verka sinna með æðruleysi að leiðarljósi, aldrei heyrði maður Toffa tala illa um fólk þó hallað hafi á hann en veraldlegir hlutir skiptu Toffa ekki máli. Ég spilaði golfhring með Toffa á golfvellinum í Úthlíð en hann stundaði það sport þegar tími gafst til, þá nægði honum að smella sér í gúmmískóna og lopapeysuna, draga fram gamalt golfsett sem honum hafði verið gefið, þetta uppfyllti kröfur Toffa og nægði til árangurs.

Toffi var bókhneigður, hafði gaman af ljóðum og góðum sögum, húmor hafði hann fyrir sjálfum sér sagði skemmtilega frá og var vel að sér í sögu og menningu.

Síðustu mánuðir hafa verið þeim hjónum erfiðir en alltaf héldu þau í vonina og litu á veikindin sem vegferð sem þau voru í og mundu klára.

Ég bið guð að gefa Bryndísi systur, Thelmu, Birtu og fjölskyldu Þorfinns styrk til að takast á við sorgina.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Dagmar Sigurlaug Gunnarsdóttir.

Það voru þungar fréttir í júlí á síðasta ári, þegar Biddý systir mín hringdi í mig og sagði mér að Toffi hefði greinst með krabbamein. Toffi, eins og hann var alltaf kallaður af sínum nánustu, lést langt um aldur fram eftir harða og erfiða baráttu við þennan illvíga sjúkdóm.

Sumir eru þannig að manni finnst maður alltaf fara ríkari af fundi þeirra en maður kom, Toffi var slíkur maður. Alltaf var gaman að heimsækja systur mína og mág í sveitina þeirra fyrir austan og gaman var að hlusta á Toffa tala um hvað var búið að drífa á hans daga síðustu daga áður en ég kom. Eitt sinn fór ég með honum í útreiðartúr niður með Tungufljóti í Pollengi þar sem er mikið fuglalíf. Þar þekkti hann alla fuglana og hljóð þeirra. Við Toffi áttum eitt sameiginlegt, við höfðum báðir yndi af náttúrunni og höfðum báðir gaman af því að skjóta! þ.e.a.s hann með kvikmyndatökuvélinni og ég með haglabyssunni. Hann var fljótur að segja við mig að Pollengi væri friðland. Margt fræddi hann mig um og fyrir tilstilli hans tel ég mig vera betri og hófsamari veiðimann sem getur sameinað útivist og veiðar í náttúru landsins og sýndi hann mér mikinn skilning í því. Kvikmyndagerð var Toffa hugleikin og gott innsæi hafði hann í náttúruna eins og heimildarmyndirnar hans bera merki. Hann undi sér best í sveitinni, frá skarkalanum í borginni og hlakkaði svo til að fara í útreiðartúra að temja hestinn sinn sem hann fékk að gjöf og er afkvæmi Bakka Baldurs úr einni af heimildarmyndum hans. En núna er Toffi í einum löngum útreiðartúr. Minning þín lifir.

Ég votta systur minni, Bryndísi, frænkum mínum Thelmu og Birtu og Steingerði móður Toffa og fjölskyldu alla mína dýpstu samúð.

Þinn mágur,

Sigurgeir S. Gunnarsson

og strákar.

Úr Álfheimunum kom hann glaðbeittur, heilsaði með nafni og lét fylgja að afi sinn væri bændahöfðingi, sjálfur Þorsteinn frá Vatnsleysu. Ekki hafði ég áður kynnst jafnaldra sem sagði á sér deili með öðrum eins myndarskap og þótti einboðið að láta hann njóta síns höfðinglega uppruna. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem mér fannst ég fyrst skilja hvers vegna þessi vinur minn vildi helst tala um afa sinn þegar við hinir mátumst á um hvort flottast væri að eiga pabba sem væri stýrimaður, lögga eða trommari. Aðeins þrem mánuðum áður en við áttum að mæta í Langholtsskólann höfðu örlögin hagað því svo að pabbi hans féll frá og þann harm vildi hann fá að bera í hljóði.

Framan af gat Þorfinnur sér nokkurt orð fyrir ærsl sem ef til vill mátti rekja til áfallsins sem hann hafði orðið fyrir. En strákurinn var bráðskemmtilegur og átti til að orða hug sinn á frumlegri hátt en krakkar á okkar aldri. Í hópi okkar sem vildum ekki láta skólann ráða of miklu var Þorfinnur fremstur meðal jafningja, djarfur í framgöngu og óspar á skoðanir sínar um reglur skólans og fyrirkomulag kennslu. Svo líflegur var hann að mér er til efs að Langholtsskólinn hafi í annan tíma haft nemanda sem meira orð fór af. Allir vissu hver Toffi var, löngu áður en þeir vissu hvað skólastjórinn hét.

Þrátt fyrir lítilsháttar árekstra við skólayfirvöld leið okkur vel í Langholtsskólanum og eignuðumst þar marga vini, ekki síst í körfuboltanum hjá Einari leikfimikennara sem gerði úr okkur góða liðsheild ÍR-inga sem um síðir var öll valin í unglingalandsliðið. En Þorfinni var lítið gefið um þá upphefð og fannst kappnóg að mæta á æfingarnar hjá ÍR. Í körfuboltanum fékk hann útrás fyrir sitt mikla keppnisskap og útsjónarsemi. Áður hafði Sigfús teiknikennari tekið alveg sérstaklega eftir þeim listrænu hæfileikum sem Þorfinnur bjó yfir og hengdi myndir hans jafnharðan upp á vegg okkur til hvatningar. Í stuttu máli var Toffi of leiftrandi til að hægt væri að ætlast til að hann þrifist við það utanbókarstagl sem hann sagði í skólablaðinu sem við skrifuðum að væri bæði „skaðvænlegt og andstyggilegt“ og bætti við þessum varnaðarorðum: „Veikgeðja fólk sem lengi stundar skólanám verður margt hvert ístöðulitlir aumingjar ævilangt.“

Árin í körfuboltanum urðu til að treysta vináttuna. Milli æfinga, bíóferða og heimsókna í Álfheimasjoppu og Sunnó gátum við setið tímunum saman yfir tafli, oft einni og sömu skákinni, því Toffi hafði ótrú á skákklukkum. Í staðinn fór hann fram á að við tækjum upp afleiki okkar og gekk það oftast svo langt að hvorugur hafði hugmynd um hvort hann hafði unnið eða tapað. Á meðan við biðum eftir leik fannst okkur það lyfta andanum að láta Traffic eða Cream leika undir. Þótt ekki bæri Þorfinnur það utan á sér voru fáir næmari á umhverfi sitt. Það kom mér því ekki á óvart að þessi eðlisgáfa skyldi löngu síðar reynast einn helsti styrkur kvikmyndaverka hans. Alltaf nam hann einhvern þráð og hárfín blæbrigði sem honum tókst að miðla þannig að okkur fannst við sjálf vera að uppgötva hið ósagða – þær orðlausu tilfinningar sem góðum listamanni tekst að skilja eftir í hjörtum okkar. Og það munu verk hans halda áfram að gera. Eins fjölbreytt og þau eru eiga þau það sameiginlegt að bera höfundi sínum einstaklega fagurt vitni.

Guð blessi minningu góðs drengs.

Garðar Sverrisson.

Að setjast niður og skrifa minningar um hann Toffa minn hefði mér ekki dottið í hug fyrir fáeinum vikum, en svona er lífið, það bæði gefur og það tekur.

Toffi var aðeins sex ára gamall er hann missti föður sinn og var það mikill harmur ungum dreng því þeir feðgar voru mjög samrýndir. Þá stóð Steingerður mágkona mín ein uppi með þrjú ung börn, aðeins fertug að aldri.

Þá um vorið komu þau austur til ömmu og afa til sumardvalar, Toffi og Sigríður systir hans. Aldrei gleymi ég því hvað þessi litli drengur átti bágt. En einn daginn gerist undrið, heim á túnið kemur lítið lamb, undanvillingur. Við náðum því og sögðum Þorfinni að nú væri þetta lambið hans, hann yrði að passa það og gefa því mjólk í pela kvölds og morgna. Þetta var sannkölluð guðsgjöf fyrir hann; nú hafði hann um eitthvað að hugsa og bera ábyrgð á. Miklir kærleikar urðu með honum og lambinu og undu þau sér tímunum saman úti á túni eða niðri í brekku og heyrðust oft mikil ræðuhöld yfir því.

Síðan þetta var hefur hann Toffi minn átt stóran hluta af hjarta mínu og það alltaf styrkst með árunum og var hann eins og einn af okkar börnum. Eitt sumar dvaldi hann í Húsey hjá Erni Þorleifssyni. Var gaman að heyra hann segja frá ævintýrum sumarsins er hann kom til baka. Þá birtist honum ný sýn á landið, þar voru áin, sjórinn, selirnir og sjófuglarnir. Toffi talaði alltaf með mikilli hlýju um Örn og dvöl sína í Húsey.

Er Toffi kom frá námi var fyrsta myndin sem hann gerði einmitt um Húsey. Hann vildi festa á filmu þá miklu sýn sem hann upplifði þar. Músamyndin um Óskar og Helgu var að mestu leyti tekin hér á Vatnsleysu og var mikið ævintýri að fylgjast með þeim gjörningi. Vorum við fjölskyldan upptendruð að fylgjast með þeim Þorfinni og Þorvaldi Björnssyni við tökur á þeirri mynd. Það má segja að sú mynd hafi farið sigurför um heiminn. Má þar til sanninda merkja að eitt sinn bankaði hér upp á erlendur ferðamaður og var erindi hans að fá að sjá inn í búrið á Vatnsleysu þar sem músin át af rjómatertunni.

Það var mikið gæfuspor er Þorfinnur kynntist Bryndísi konu sinni. Samrýndari hjónum er vart hægt að lýsa. Hún stóð alltaf sem klettur við hlið hans í blíðu og stríðu, alltaf jafn glæsileg og góð. Þorfinnur gekk Thelmu dóttur hennar í föðurstað. Varð mikil gleði er Thelma eignaðist dótturina Birtu og Toffi varð afi.

Er Þorfinnur og Bryndís fluttu í Tungurnar varð samgangur nánari, sem aldrei bar skugga á. Ef við nefndum við hann að okkur fyndist hann ekki bera mikið úr býtum fyrir myndirnar sínar, sagði hann alltaf: „Peningar eru ekki allt.“ Ég heyrði hann aldrei hallmæla nokkrum manni. Í hans huga voru allir góðir. Toffi skilur eftir sig fjársjóð sem myndirnar hans eru.

Er ég kveð þig í hinsta sinn, Toffi minn, vel ég að gera það með orðum Jónasar Hallgrímssonar sem mér þykir hafa gert það fegurst allra, en það er úr erfiljóði er hann orti um vin sinn Tómas Sæmundsson:

Flýt þér, vinur! í fegra heim;

krjúptu' að fótum friðarboðans

og fljúgðu' á vængjum morgun-roðansmeira' að starfa guðs um geim.

Halla Bjarnadóttir,

Vatnsleysu.

Þorfinnur Guðnason, einn af okkar allra bestu kvikmyndagerðarmönnum, er fallinn frá í blóma lífsins eftir stutta en harðvítuga glímu við ofurefli, krabbamein sem greindist of seint til að hægt væri að bjarga honum.

Það er mikill missir að Toffa í heimildamyndagerð okkar litla lands. Hann var vel menntaður, vel gefinn, eldklár fagmaður og ástríðufullur listamaður sem leitaði ævinlega að kjarna hvers viðfangsefnis. Hann var alltaf knúinn þeirri hugsjón að þetta snerist allt um að hver mynd hans gæfi fólki einhverja nýja sýn á lífið. Til þess að koma þeim verkefnum í höfn var hann óspar á tíma sinn og orku en virtist því miður í hita þess leiks oft gleyma alveg að hugsa um eigin hag. Toffi varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga ástríkan lífsförunaut, Bryndísi, frábæra konu sem stóð eins og klettur við hlið Toffa jafnt í blíðu sem stríðu.

Við Toffi urðum góðir vinir fyrir um tuttugu árum þegar við höfðum vinnustaði hlið við hlið á Klapparstíg 25 og supum þá marga ölkolluna saman í dagslok við spjall um lífið og listina. Seinna unnum við svolítið saman og ferðuðumst m.a. saman um Spán. Á þeim tíma varð til vinátta sem aldrei hefur slitnað. Toffi var tilfinningaríkur maður, hjartahlýr og góður félagi. Hans verður sárt saknað í vinahópnum. Við Helga sendum Biddí og öðrum ástvinum Toffa innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Þorfinns Guðnasonar.

Örnólfur Árnason.

Þorfinnur Guðnason er látinn, 55 ára að aldri. Fyrir 20 árum sá ég innslag í Dagsljósi um gerð myndar hans „Hagamús – með lífið í lúkunum“ og varð heillaður af þessum karakter sem hafði eirð í sér til að sitja yfir litlum músum mánuðum saman og leikstýra þeim. Seinna átti frábær mynd hans um Lalla Johns eftir að gera mig enn forvitnari um manninn á bak við kameruna. Ég man enn lætin í áhorfendunum í sal 2 í Háskólabíói; ég hafði aldrei séð svona viðbrögð við íslenskri kvikmynd áður. Leiðir okkar lágu loks saman árið 2003 þegar ég fékk að sýna stuttmynd eftir sjálfan mig á undan heimildarmynd hans um Grand Rokk, á sérstakri sýningu á Grand Rokk. Reyndist hann vera algjört ljúfmenni, hógvært séní og alveg hrikalega fyndinn. Hann lýsti sér sem gömlum pönkara og var alveg laus við snobb. Tókst með okkur ágætis vinskapur næstu árin og þótti mér vænt um hvað hann var alltaf jákvæður og hvatti mig mikið til dáða þegar við hittumst. Við spjölluðum oftast saman um kvikmyndagerð en áhugasvið hans dekkaði nánast allt. Fyrst og fremst hafði hann þó brennandi ástríðu fyrir því að segja góðar sögur og skín hún í gegn í öllum myndunum hans. Þegar ég frétti í vetur að hann glímdi við illvígan sjúkdóm sló ég á þráðinn til hans. Tónninn var enn hinn sami og alltaf stutt í hláturinn þó auðvitað hvíldi alvaran yfir öllu. Í kjölfarið hittumst við svo stuttlega á aðfangadag til að skiptast á jólagjöfum og reyndist það vera okkar seinasti fundur. Hann gaf mér eintak af Hagamúsinni sem ég held núna á og virði fyrir mér. Það veitir mér örlitla huggun að vera með þennan fallega hluta af lífi hans í lúkunum.

Ari Eldjárn.

Þorfinnur Guðnason, Toffi vinur minn, er farinn eftir stutt og erfitt veikindastríð, allt of ungur. Hann hafði svo margt á prjónunum sem við nú missum af. Ég veit að hér verða aðrir til að minnast hans merku verka og ógleymanlega ævistarfs í samstarfi við Bryndísi eiginkonu sína – verka sem svo margir nutu og enn fleiri eiga eftir að njóta.

Ég minnist hans sem góðs, hlýs vinar, sem kankvíss, stundum sérviturs listamanns og náttúruunnanda, sem sá oft hlutina frá öðru sjónarhorni en flestir samferðamenn okkar. Ástríða hans fyrir hinu smáa og oft ósýnilega fór ekki fram hjá neinum sem kynntust honum. Ég er þakklát fyrir allar okkar samverustundir, heima hjá honum og Bryndísi, hvort sem var á Felli, Hrosshaga eða í Dalsmynni, Biskupstungunum, sem Toffi unni, ferðalög okkar saman um landið og síðast en ekki síst okkar dýrmæta tíma síðustu mánuði.

Við Jón erum ríkari eftir vináttu okkar við Toffa og munum búa að henni ævilangt.

Ég votta elsku Biddý, Thelmu, Birtu, Steingerði, móður hans, Þorsteini og Sigríði, systkinum hans, og öllum ættingjum og vinum samúð.

Guðrún Björk Kristjánsdóttir.

Þegar ég fékk fregnir af því snemma morguns 15. febrúar síðastliðinn að Toffi væri fallinn frá sótti að mér myndbrot úr einni af heimildarmyndum hans, Hestasögu.

Myndbrotið er af hryssunni Kolku sem stendur uppi á heiði og íslenska veðrið lemur á henni að vetri til. Þulurinn talar um hvað íslenski hesturinn sé harður af sér því aðstæður eru oft býsna erfiðar.

Þetta myndbrot þykir mér eiga smá samleið með Toffa.

Toffi var einn okkar merkasti kvikmyndagerðarmaður. Hann var alla tíð trúr sínu listformi sem var gerð heimildamynda. Það er ekki auðvelt að vera kvikmyndagerðarmaður á Íslandi og hvað þá að helga sig heimildamyndagerð. En Toffi stóð af sér íslenska veturinn og færði okkur einstakar heimildarmyndir. Hann nálgaðist viðfangsefni sitt af einlægum áhuga. Sagði stórkostlegar sögur gæddar lífi, spennu, raunum, ást og húmor.

Fyrir um sjö mánuðum greindist Toffi með krabbamein. Hann ætlaði að standa það af sér. Toffi og Biddý frænka mættu þessari óvæntu vegferð sinni af æðruleysi og af sinni einstöku samheldni. Þetta skyldi yfirstigið.

En líkt og í Hestasögu þar sem hinn harði íslenski vetur nær að fella einn hestinn náðu veikindin Toffa.

Elsku Toffi minn, ég vona að þú eigir viðkomu á Bali á þessari vegferð þinni.

Elsku fallegu Biddý minni, Thelmu, Birtu og fjölskyldu Þorfinns votta ég mína dýpstu samúð.

Toffi mun lifa í verkum sínum.

Ruth Einarsdóttir.

Þorfinnur Guðnason eða Toffi, eins og hann var kallaður, er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Þótt Toffi hafi háð harða baráttu við illvígan sjúkdóm undanfarna mánuði, er það erfið staðreynd að sætta sig við að lífi hans skuli nú vera lokið.

Við Toffi vorum tengdir fjölskylduböndum, en hann og kona mín eru systkinabörn. Við vorum um margt ólíkir, en náðum samt vel saman og urðum fljótt góðir vinir eftir að ég kom í fjölskylduna á Vatnsleysu. Ég, raunvísindamaðurinn, þurfti stundum „að hafa vit fyrir“ listamanninum og „umhverfisöfgamanninum“ og öfugt, en oftast gátum við skipst á skoðunum án fordóma og predikana, þrátt fyrir, á stundum, ólík sjónarmið. Toffi var skemmtileg blanda af erkitöffara og „latte-lepjandi“ miðborgarbóhem annars vegar og einlægum sveitastrák hins vegar, sem elskaði náttúruna og bar virðingu fyrir sveitamenningunni. Var stundum hálfsúrrealískt að upplifa þessa blöndu. Toffi var mikill listamaður líkt og kvikmyndir hans bera vitni um, en hann bjó einnig til fallega skúlptúra og önnur listaverk úr steinum og hellum. Auk þess að búa yfir listrænum hæfileikum var Toffi ágætur íþróttamaður. Á yngri árum stundaði hann körfubolta og eftir að hann flutti að Dalsmynni hóf hann að stunda golfíþróttina á Úthlíðarvelli og uppskar tilnefningu í vali á íþróttamanni ársins í sveitarfélaginu, þá kominn yfir fimmtugt!

Við ótímabært fráfall Toffa er gott að rifja upp góðar stundir sem við fjölskyldan áttum með honum í hestaferð síðastliðið vor er við riðum úr Mosfellsbænum og austur í Biskupstungur. Með í för var ungur foli í eigu Toffa sem ætlunin var að temja svolítið og fara á bak í ferðinni. Við fengum dásemdarveður og listamaðurinn Toffi var í essinu sínu og naut fegurðar vorsins. Toffi elskaði og naut náttúrunnar hvort sem hann var á hestbaki eða lá úti við þúfu með kvikmyndatökuvélina að mynda einhver undur hennar. Í ferðinni var komið við á Ketilvöllum hjá góðu vinafólki. Náttúrubarnið tók strax eftir því að þarna var kjói sem vanist hafði á að koma á hlaðið og fá sér í gogginn, en Toffi var alltaf fljótur að koma auga á svona lagað. Daginn eftir lagði hann svo á folann unga, sem virtist mjög sáttur við eiganda sinn. Mikil tilhlökkun var hjá Toffa að sjá hvað yrði úr folanum efnilega, sem sjálfur Baldur á Bakka færði honum svo rausnarlega að gjöf. Við riðum seinna um daginn með þeim Úthlíðarmönnum á móti nokkrum félögum okkar sem voru að koma niður Hellisskarð. Þetta var eins og ávallt í hestaferðum, hin besta skemmtun, vorkvöld, fuglasöngur og gróðurangan í lofti. Daginn eftir riðum við tveir heim að Vatnsleysu og grunaði okkur ekki að þetta yrði síðasti reiðtúrinn hans Toffa – en þetta var gæðastund hjá okkur báðum, verðmæt minning sem vekur hlýjar og góðar tilfinningar nú þegar ég rifja þetta upp.

Toffi var hæfileikaríkur og skemmtilegur, en umfram allt góður maður sem dýrmætt og eftirminnilegt er að hafa kynnst. Hugurinn er hjá fjölskyldu Toffa, Biddý, Thelmu, Birtu og Steinu þessa dagana og votta ég þeim mína dýpstu samúð.

Eymundur Sigurðsson.

Toffi var heimsmaður. Hann var alla daga hinn jákvæði rannsakandi og skipti engu hvort hann var á heimaslóðum í Tungunum, stikandi um reykvíska afkima ellegar í ani að festa á filmu bardagahænsn í Karíbahafinu. Hann átti heima þar sem hann var niðurkominn. Hann gekk heill og opinn og áhugasamur að hverju verkefni og náði tökum á því sem í fyrstu var talið ógerlegt. Hann var í hugum okkar sannur kvikmyndastjóri. Hann sá hverja senu fyrir sér frá fyrstu stundu. Margt sjónarhornið kom til hans eins og eilífðarglampi sem aldrei mun gleymast. Þannig var margt í músamyndinni, þannig var margt í hestamyndinni, þannig var óskaplega margt í Draumalandinu og líka í síðustu myndinni um fátæklinga og tilgang lífsins í Dómíníska lýðveldinu sem hann blandaði snyrtilega saman við rómantík í Tungunum.

Toffi var sannur gleðimaður, naut andartaksins og bætti og kætti umhverfið og félagsskapinn. Hann sýndi hverjum manni virðingu og samstöðu í baslinu og bosinu. Hans lausn á vandamálum tíðarinnar var oft sú að skella upp úr, hlæja dátt og innilega þegar við hin duttum í bölmóð og súrmúl yfir rangsleitni tíðarinnar. Eigum við ekki bara að hlæja að þessu? Og það var einmitt það sem hann gerði enda hafði hann jafnan þá lausn á takteinum sem dugði: að ganga glaður út í vorið og fagna með náttúrunni og dýrunum og skemmtilegu fólki. Minningarnar hrannast upp, snúast um langlundargeð í kringum mýsnar og hrafninn á Felli. Um Toffa og Biddí á góðum stundum í sumarfríðri sveit. Við sjáum fyrir okkur glaðværan og áhugasaman mann á hestbaki og stefnan sett út í kvöldið við Vatnsleysu og veröldin verður tímalaus og töfrandi og það er sem allt takist á loft í takt við hugmyndaflug kvikmyndastjórans.

Það er þyngra en tárum taki að þurfa nú að kveðja þennan mann. Hann afrekaði margt en átti jafnframt svo margt ógert. Við urðum öll eins og á skjön við okkur sjálf þegar við fréttum af veikindum Toffa í sumar. Hann sjálfur lét engan bilbug á sér finna; tölvan innan seilingar til síðustu stundar, hugmyndir þróaðar áfram, var svo iðulega í símanum að hvetja mann til dáða, vekjandi athygli á viðburðum og uppákomum sem enginn mætti missa af. Af meðfæddu örlæti og gjöfulu hjarta leyfði hann okkur að trúa því að hann mætti hreinlega ekki vera að því að velta mikið fyrir sér þeim möguleika að hann ætti stutt eftir. Þannig eru hetjur. Hann fór yfir í annan heim glaður og reifur og er þar eflaust núna á meðal annarra heimsmanna.

Hjartans besta Biddí, dísin hans, stoðin og styttan, við grátum með þér og þínum í dag en hjartað er barmafullt af þakklæti og gleði.

Gunnar og Hildur.

Kveðja úr Húsey

Hann er fallinn frá, langt um aldur fram, hann Toffi og mig langar að minnast vinar míns í nokkrum línum. Hann birtist í sveitinni snemma í júní, var ráðinn snúningastrákur í næsta húsi sumarlangt. Það gustaði af honum er hann færði mér kveðjur úr borginni frá sínu fólki. Fljótt tókst vinátta með okkur því hann fylgdi mér í vitjun á netum og dró ekki af sér, varð fljótt góður ræðari við að amla mót straumi er tekið var úr netum selir eða fiskar. Iðulega var hann blautur upp í mitti en aldrei heyrði ég strákinn kvarta, veiðihitinn var svo mikill. Alla fuglsunga er voru á vappi á leiðum okkar hljóp hann uppi, skoðaði og við greindum.

Einn fugl var Toffa hugleikinn, það var lómurinn og einkum eftir að einn náði að höggva í hann er hann sat fastur í neti. Eftir að við losuðum hann úr, hentum við honum útbyrðis en eins og elding gerði hann árás og skaust upp í ferjuna aftur. Þessi ofsareiði fuglsins var honum ráðgáta og oft ræddum við þennan atburð og hve reiðin getur verið varasöm.

Árin liðu og samband rofnaði en nafnið hans sást oft á sjónvarpsskjánum og um 1990 kemst samband á aftur og það verður að veruleika að reyna að festa á mynd náttúruatburði frá fyrri veru hér. Hann var hér meir og minna í þrjú ár og þá áttum við bæði ljúfar, sárar og skemmtilegar stundir saman úti í Fljóti eða norður í á, oft við bið á atburði í náttúrunni og þrautseigja hans og elja að hanga dögum saman yfir einu myndskoti í 30 sek. og ekki að gefast upp. En kaffi varð að vera með og sígó og þá skipti veðrið ekki máli. En þegar takan var búin og tókst var skutlast í golf og kótelettur í Egilsstaði.

Eitt atvik umfram önnur sem engin skýring var á og kom oft til tals var þegar Gugga, tófan, fór að gjóta. Rúður voru á þremur stöðum í greninu og rauð gler í, tvær vélar áttu að taka gotið upp og virtist þetta ekki hafa nein áhrif á Guggu þar til að goti kemur. Þá bítur hún í jarðveginn og smyr með mold á glerin, öll þrjú, og engin myndataka hér takk! Tveimur dögum seinna sáust sjö yrðlingar hjá henni sem lifðu sumarlangt.

Hvurslags eðlisávísun var þetta?

Þegar ég sit hér og minningarnar hrannast upp í hugann, músaveiðarnar og stéttaskipting milli tegunda, Helga og Óskar og síðan hestamyndin Hestasaga og ekki má gleyma reiðtúrunum. Toffi var skemmtilegur reiðmaður og engin lognmolla þar frekar en annars staðar. Oft átti Toffi ekki tíma aflögu, en ef barn leitaði til hans með vandamál, eða að skoða græjur, þá átti hann allan heimsins tíma. Takk Toffi fyrir allar hlýju stundirnar sem þú gafst honum Erni og öðrum börnum hér.

Áfram hrannast minningarnar upp um listamanninn góða og verkið 25 árum seinna bíður betri tíma.

Hlýjar kveðjur til ykkar, Bryndís og Steingerður, og fjölskyldna ykkar, frá okkur í Húsey.

Örn.

Við Þorfinnur kynntumst þegar við vorum báðir nýkomnir heim frá námi í Bandaríkjunum, ég frá rólegum háskólabæ í miðvesturríkjunum en hann úr suðupotti San Francisco. Þangað höfðu hann og Bryndís farið til að elta draum sem þau gerðu svo smátt og smátt að veruleika í heimildarmyndum sem allir Íslendingar og milljónir annarra þekkja.

Ég hitti þau fyrir rúmum aldarfjórðungi og Þorfinnur og Bryndís voru að vinna að sinni fyrstu, sjálfstæðu mynd um mann- og dýralíf í Húsey við Héraðsflóa. Þar áttum við Þorfinnur ásamt fleiri samstarfsmönnum eftir að vaka á vöktum úti í haga allan sólarhringinn yfir merum í skítaveðri til að mynda hegðun þeirra og, umfram allt, kast. Við vildum ná myndum af því sem jafnvel fáir hestamenn hafa séð: fæðingu folalds. Biðin var löng og veðrið var svo vont að merarnar héldu í sér og við náðum ekki kastinu fyrr en seint í júní. Í öllu þessu volki lærði ég gríðarmikið um náttúruna og lífið og ég smitaðist aftur af ákafa Þorfinns og einbeitingu við skapandi vinnu sína.

Við höfum farið víða og unnið saman að ýmsum verkefnum. Smátt og smátt – kannski án þess að við yrðum þess varir – þróaðist þetta samstarf í nána vináttu okkar Þorfinns, Bryndísar og Guðrúnar konu minnar. Stundum var samstarfið stormasamt en við Þorfinnur tókum alltaf upp þráðinn á ný og lærðum í löngum útiverum og vinnutörnum að umbera og síðan meta hvor annan. Þorfinnur var merkileg blanda af reykvískum götustrák, sveitadreng úr Tungunum og kosmópólitan séníi. Þessir þættir stríddust stundum á í lífinu en féllu saman í hreinan galdur í verkum hans svo að fólk um allan heim smitaðist af.

Það hafa fáir hugmynd um hve víða myndir Þorfinns og Bryndísar hafa farið. Við ferðuðumst saman til Amsterdam fyrir tuttugu árum til að selja myndina um hagamúsina sem var alveg ný hugmynd – að leikstýra náttúrulífsmynd eins og persónumynd án þess að fórna neinu af heimildagildinu. Við unnum eins og skepnur og seldum myndina á margar sjónvarpsstöðvar. Við hlökkuðum til að slappa af en undir lok síðasta dags kom til okkar kona frá National Geographic og vildi fund snemma morguninn eftir. Enginn bjór það kvöldið. Það varð svo úr að National Geographic fjármagnaði stærstan hluta myndarinnar og hundruð milljóna sáu hana áður en yfir lauk. Þorfinnur sló líka met í aðsókn að heimildarmynd á Íslandi og sló svo sitt eigið met. Allar myndir hans vöktu athygli en þó var aldrei mikið afgangs þegar verkefnum var lokið. Öllu var veitt í að gera myndirnar sem best úr garði og lítið hugsað um eigin hagnað. Það situr í mér sem Guðni Ágústsson sagði þegar við komum til hans í landbúnaðarráðuneytið að leita stuðnings til að hrinda af stað annarri umfangsmikilli náttúrulífsmynd, Hestasögu: „Þeir njóta ekki alltaf eldanna sem kveikja þá.“

Það efast vart neinn lengur um að starf Þorfinns og Bryndísar hafi markað spor í íslenska kvikmyndasögu og menningu sem lengi munu varða leið. Fyrir mig og marga aðra sem hrifust með í starfinu voru þetta líka spor í einlægri leit að þekkingu, þroska og vináttu.

Jón Proppé.

Það þarf þolinmæði til að gera heimildamyndir. Að sitja yfir meri og bíða eftir að hún kasti krefst þolinmæði, að fylgja músum í tilhugalífinu og nánast leikstýra þeim krefst ótrúlegrar hæfni og þolinmæði. Það krefst líka örugglega þolinmæði að fylgja Lalla Johns eftir og einnig Jóni Inga í Dóminíska lýðveldinu í síðustu mynd Toffa, Vikingo. En Þorfinnur Guðnason, Toffi, var ekki þolinmóður maður, honum lá á, honum var mikið niðri fyrir. Það var einhver togstreita í Toffa, því hann var bæði heimsborgari og sveitamaður, honum leið vel í sveitinni en hann varð líka að vera innan um fólk í borginni og taka þátt í umræðu líðandi stundar, og því naut hann þess mjög að taka þátt í Draumalandinu, í samvinnu við aðra, í samræðum um efnið. Allar heimildamyndir Toffa voru öðruvísi, hann hafði einstakt lag á að búa til sögu úr sínum efniviði, samanber söguna af Baldri, sem var svo falleg og óvænt í endann. Það þarf þrautseigju og þolinmæði til að gera heimildamyndir, Toffi vann einn, Biddý oft ekki langt undan. Heimildamyndir taka langan tíma í vinnslu, ég velti því oft fyrir mér hvaðan hann fékk þessa þolinmæði.

Í Dalsmynni var gott að koma, því þar var Toffi á heimavelli með Biddý og hestana í návígi. Í sumar horfðum við út um eldhúsgluggann á hestana í girðingu fyrir utan að nýloknum reiðtúr, Toffi og Böggi ætluðu „aðeins“ að skreppa, en þetta tók átta tíma, í sveitinni er tíminn afstæður. En það var þó passað upp á að ná leik Hollands og Spánar í heimsmeistarakeppninni, þá grunaði engan hvað væri framundan.

Síðasta stund okkar með Toffa var líka yfir íþróttaleik, Ísland - Tékkland á EM í handbolta í góðra vina hópi, við töpuðum eftirminnilega, eftir á að hyggja nokkuð táknrænt um baráttu Toffa, sem hann tók af aðdáunarverðu æðruleysi, aldrei kvart og kvein, alltaf bros og ótrúleg þrautseigja. Hans verður sárt saknað, ekki bara af fjölskyldu og vinum, því hver tekur nú að sér að gera svona heimildamyndir eins og Toffi gerði? Elsku Biddý, Thelma og Birta, sem var ljósið hans, megi allar góðar vættir veita ykkur styrk. Sömuleiðis sendum við móður og systkinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Lísa og Björgúlfur (Böggi).

Þorfinnur Guðnason var goðsögn í íslenskri kvikmyndagerð. Hann átti mikinn þátt í að breyta hugmyndum Íslendinga um hvernig heimildarmynd mátti vera. Náttúrulífsmynd um hagamús mátti vera eins og ævintýri, með húmor, spennu og bókmenntalegri framvindu. Með Lalla Johns opnaði hann fólki sýn á hvernig listform heimildarmynd gæti verið með því að nýta sér hráan veruleikann.

Við kynntumst Toffa þegar kvikmyndun á Draumalandinu stóð fyrir dyrum. Okkur þótti Þorfinnur spanna þá breidd sem myndin þyrfti að hafa. Hann gjörþekkti náttúru Jöklu eftir myndina sína um Húsey og við töldum að reynsla hans af Lalla Johns gæti fangað vel þjóð sem stefndi í að fara með auðlindir sínar á ærlegt fyllirí. Þorfinnur sló til og smám saman þróaðist traust sem varð að lærdómsríku samstarfi. Sem listamaður var hann ekki gefinn fyrir að fara auðveldu leiðina, sem fagmaður valdi hann oftar en ekki 16 mm og 35 mm filmur af gamla skólanum frekar en nýtt og ódýrt HD. Sú ákvörðun stækkaði myndina til muna og fleytti henni inn á margar helstu kvikmyndahátíðir heims.

Við unnum frumklippið af Draumalandinu í sveitinni hans á Hrosshaga í Biskupstungum. Það var ídealískt á margan hátt að vinna þar með útsýni yfir Tungufljótið og Heklu. Við sátum við tölvuna, litum yfir tökurnar, ræddum hvernig mætti nýta þær og hvar. Þegar bútar höfðu fæðst brunaði framleiðandinn í hlað og við skoðuðum frumklipp og kafladrög. Toffi fór reglulega út að reykja og tala við fuglana. Einmitt þar virtist hann í fullkomnu samræmi við heiminn, þegar hann stóð úti á palli með sígarettu og fylgdist með fuglum vorsins tínast til landsins. Við breyttum og bættum þar til Biddý kom heim, snæddum saman lambahrygg og fórum svo aftur að klippa. Toffi sagði ítrekað: Það er ekki nóg að sjá klippið, þú verður að heyra tónlistina. Hálf myndin er hljóðheimurinn.

Toffi var frjór og hugmyndaríkur, einkennilegt sambland af bóhem, náttúrubarni og sveitamanni. Hann var einhvern veginn jafnvígur á Grand Rokk og Tungnaréttir. Verk hans spegla líf hans, lífsviðhorf og persónu. Hann tók oftar en ekki málstað smælingjans og setti sig í spor hins jaðarsetta, hvort sem það var maður eða mús. Toffi hafði unun af sérvisku og sérkennum. Hann var meistari í að fanga súrrealísk atvik í veruleikanum eins og sjá má í myndunum um Bakka Baldur þar sem maður heimsækir hest sinn og fornvin til Hawaii eða Víkingo þar sem forkólfur í Framsóknarflokknum reynist vera hanaatsgoðsögn í Dóminíska lýðveldinu og leitar til Vúdúprests til að tryggja framgang flokksins.

Við áttum margar ágætar stundir með Toffa eftir að hann kom í bæinn til að berjast við krabbameinið. Hann átti margt ógert, leikið efni og sögur sem hann langaði að skrifa. Það er þó huggun harmi gegn að heyra hversu þakklátur hann var fyrir lífið sem hann hafði lifað, fólkið sem stóð honum nærri og fjölskylduna. Við þökkum Toffa vináttu og samstarf, hugur okkar er hjá fjölskyldu hans og biðjum guð að styrkja þau í sorginni.

Andri Snær Magnason og Sigurður Gísli Pálmason.

HINSTA KVEÐJA
Sá einn er skáld, sem skilur fuglamál,
og skærast hljómar það í
barns ins sál.
Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.
Hann syngur líf í smiðjumó og tré.
Sá einn er skáld, sem elskar jörð og sól,
þótt eigi hvorki björg né
húsa skjól.
Hann veit, að lífið sjálft er
guða gjöf,
og gæti búið einn við nyrstu höf.
(Davíð Stefánsson)

Brynhildur Ásgeirsdóttir.