BLÓM VIKUNNAR 301. þáttur Umsjón Ágústa Björnsdóttir STIKILSBER Það er tekið að hausta og góðu sumri lýkur senn. Víðast um landið hefur blómgróður verið óvenju fagur og vöxtur trjáa með ólíkindum.

BLÓM VIKUNNAR 301. þáttur Umsjón Ágústa Björnsdóttir STIKILSBER Það er tekið að hausta og góðu sumri lýkur senn. Víðast um landið hefur blómgróður verið óvenju fagur og vöxtur trjáa með ólíkindum. Berjaspretta er víða með mesta móti og einmitt þessa dagana keppast margir við að búa til saft og sultu eða setja ber í frysti. Í görðum má sjá runna svarta af sólberjum eða rauða af rifsberjum og greinarnar svo þungar af berjum að nemur við jörð. En hvar sérðu runna græna af stikilsberjum?

Stikilsber ­ Ribes uva crispa (áður Ribes glossularia) vaxa villt í skógum víða á norðurhveli jarðar. Þetta er runni sem fljótt á litið líkist rifsi eða sólberjum, enda náskyldur þeim, en það er auðvelt að sjá ­ eða réttara sagt finna ­ mun þar á, því að hjá stikilsberjum situr hvass þyrnir, einn eða fleiri, við hvert brum. Blöðin eru stakstæð, á stilk, handstrengjótt, sepótt og dálítið hærð, 3­6 cm í þvermál. Blómin eru lítil og grænleit og ber geta myndast strax á ársgömlum viði. Berin eru venjulega ljósgræn, en þó eru til gul, rauð, og jafnvel hvít afbrigði. Vaxtarlag stikilsberjarunna er nokkuð breytilegt. Sum afbrigði hafa allstífar, uppréttar greinar, en greinar annarra afbrigða sveigjast niður. Klipping stikilsberjarunna er fyrst og fremst fólgin í að fjarlægja jarðlægar greinar og grisja síðan hæfilega til að ungar greinar fái loft og birtu til að þroska ber. Eins og hjá öðrum Ribes-berjarunnum bera ungar greinar mestan ávöxt og því best að fjarlægja 4­5 ára greinar til að runninn endurnýist smátt og smátt. Auðvelt er að fjölga stikilsberjarunnum með stiklingum, annað hvort mjúkum greinum sem teknar eru of móðurplöntunni fyrri hluta sumars, eða trékenndum greinum sem eru teknar síðari hluta vetrar. Erlendis er unnt að kaupa "ágrædd" stikilsber, þar sem stikilsberjaplantan er grædd á 50­75 cm háan grunnstofn. Þá þarf ekki að bogra við berjatínsluna.

Fyrstu kynni mín af stikilsberjum stöfuðu þó ekki af áhuga á uppskerunni, síður en svo. Upphaflega fékk ég stikilsberjarunna til að hefta för óboðinna sporlatra vegfarenda, sem vildu mynda gönguleiðir í gegnum garðinn minn. Við hjónin vorum ekki á því að setja upp girðingu og völdum því "þyrnaaðferðina". Við settum hjónarós í annað gatið og stikilsber í hitt. Og nú var bara að sjá hvort þetta gengi upp, sem það auðvitað gerði. Stikilsberjarunninn var þéttvaxinn og með uppstæðar greinar og á þeim voru stórir þyrnar, sem sleppa helst ekki flík, sem í þeim festist. Ekki gerði ég ráð fyrir berjum, enda var tilgangurinn með runnanum ekki beint berjarækt. En eftir að hafa dafnað vel í þrjú ár og skilað sínu hlutverki með sóma þá urðu eftir stór ber þegar laufið féll það haustið. Þetta reyndust mjög góð ber og síðan þá hef ég fengið ágætis uppskeru af runnanum.

Nú þegar þessar línur eru skrifaðar, er fyrsta frostnóttin liðin. Þá reyna margir að vera handfljótir að bjarga sem mestu af berjum í hús áður en skemmist. Stikilsberin hafa hins vegar þá náttúru að vera mun betri eftir dálítið næturfrost og því dreg ég að tína þau fram yfir fyrstu frostnætur. Í Matjurtabókinni segir meðal annars svo um stikilsber: Stikilsber eru nægjusöm með jarðveg en þurfa hagstæðari veðurskilyrði en bæði rifs og sólber, einkum gera þau meiri kröfur til hita bæði í lofti og jörð. Hérlendis vaxa stikilsber í stöku görðum og reynslan hefur sýnt að á skýldum og sólríkum stöðum standa þau sig tiltölulega vel og skila jafnvel mjög góðri uppskeru í bestu árum. Nokkuð ber samt á toppkali á veturna. Stikilsber lifna og blómgast fyrr en aðrir berjarunnar á vorin, þeim er því hætta búin af seinum vorfrostum og næðingi, sem auðveldlega getur skemmt blómin." Mér finnst helst til vægt til orða tekið í Matjurtabókinni um þol stikilsberja, en munur milli afbrigða er ótrúlega mikill. Ég hef séð hlið við hlið í sólríkum garði tvo runna af mismunandi uppruna, á öðrum voru örfá ber, á stærð við lítil rifsber, en hinn var alþakinn berjum sem voru nær 2 cm í þvermál. Kristinn Guðsteinsson garðyrkjufræðingur prófaði ýmis afbrigði stikilsberja á árunum 1960­70, einkum af finnskum uppruna. Best reyndist honum abrigðið K.F. Packalen, en Hinnomaki var líka nokkuð gott.

Við þetta er rétt að bæta reynslu minni úr tveimur görðum. Annar er rakur garður á berangri, sem hallast móti norðri, hinn skjólsæll og þurr móti suðri. Báðir garðarnir hafa gefist ágætlega, í fyrri garðinum var jarðvegur rakur og djúpur en í þeim síðari standa runnarnir nánast á klöpp, þar sem þeir eru í skjóli og fá sól frá hádegi. Ekki þori ég að fara með hvaða afbrigði þetta er sem ég á, en það gæti verið May Duke, ef ekki þá er það bara bróðir hans.

Og í lokin ein "garðyrkju"uppskrift af stikilsberjasultu:

1 kg þroskuð ber, hreinsuð (helst blóm og stilkur fjarlægð) soðið í örlitlu vatni þar til berin springa

750 g púðursykur

1 stöng kanill eða 1 klofin vanillustöng

Soðið með sprungnum berjum í 10 mínútur. Kryddstöngin tekin upp úr og sultan sett á tandurhreinar krukkur.

Verði ykkur að góðu.

Ingibjörg Steingrímsdóttir.

STIKILSBER - Ribes uva crispa.