Fjölnismenn Tómas, Brynjólfur, Konráð og Jónas Hallgrímsson.
Fjölnismenn Tómas, Brynjólfur, Konráð og Jónas Hallgrímsson.
Brynjólfur fæddist á Víðivöllum í Skagafirði 15.4. 1810, sonur Péturs Péturssonar, prófasts þar, og s.k.h., Þóru Brynjólfsdóttur húsfreyju.

Brynjólfur fæddist á Víðivöllum í Skagafirði 15.4. 1810, sonur Péturs Péturssonar, prófasts þar, og s.k.h., Þóru Brynjólfsdóttur húsfreyju.

Báðir bræður Brynjólfs Fjölnismanns komust til æðstu metorða, þeir Pétur Pétursson biskup, sem varð einn auðugasti maður landsins, og Jón Pétursson dómstjóri.

Brynjólfur útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1828 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1837. Hann var síðan búsettur í Danmörku til æviloka. Eftir útskrift hóf hann störf í Rentukammerinu, sem var danska fjármálaráðuneytið, og var skrifstofustjóri íslensku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn frá 1848 til dauðadags. Hann var auk þess fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-49.

Brynjólfur er þó þekktastur fyrir það að ganga í félag við þá Jónas Hallgrímsson og Konráð Gíslason, og skömmu síðar Tómas Sæmundsson, um að stofna tímarit, „árs-rit handa Íslendingum“, sem þeir kölluðu Fjölni. Tímaritið kom fyrst út árið 1835 og átti eftir að brjóta blað í bókmenntasögu þjóðarinnar og þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga.

Þeir Fjölnismenn voru um margt ólíkir. Tómas var framfarasinni í anda fræðslustefnunnar, Jónas var skáld, náttúrufræðingur og boðberi rómantísku stefnunnar, Konráð málfræðingur en Brynjólfur, sem skrifaði minnst í ritið, var öðrum fremur framkvæmdastjóri. Mun hann og hans fjölskylda hafa fjármagnað Fjölni að mestu.

Brynjólfur sat í stjórn Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags og forseti þess 1848-1851.

Brynjólfur lést 18.10. 1851.