23. september 1994 | Íþróttir | 433 orð

KNATTSPYRNA Bjarni Sigurðsson fékk á sig níu mörk en lék samt mjög vel! "Hef

KNATTSPYRNA Bjarni Sigurðsson fékk á sig níu mörk en lék samt mjög vel! "Hef aldrei lent í annari eins pressu" BJARNI Sigurðsson komst oft í hann krappann með landsliðinu á sínum tíma, en segist aldrei hafa lent í öðru eins og viðureign Brann, sem er í...

KNATTSPYRNA Bjarni Sigurðsson fékk á sig níu mörk en lék samt mjög vel! "Hef aldrei lent í annari eins pressu"

BJARNI Sigurðsson komst oft í hann krappann með landsliðinu á sínum tíma, en segist aldrei hafa lent í öðru eins og viðureign Brann, sem er í fimmta sæti, gegn Rosenborg í norsku 1. deildinni í fyrrakvöld. Rosenborg - lang besta lið landsins að söng Bjarna - sigraði 9:0, eins og fram kom í blaðinu í gær, og tryggði sér þar með meistaratitilinn.

orska fréttastofan NTB sagði að síðustu 85 mínúturnar hefðu verið sannkölluð stórskotahríð að marki Bjarna - en leikurinn stendur sem kunnugt er í 90 mínútur. Bjarni sagði lýsingu fréttastofunnar á leiknum "ekki fjarri lagi. Þetta var alveg hræðilegt. Ég hef aldrei lent í svona pressu, ekki sinni í erfiðustu landsleikjum - þetta var vinnuslys," sagði markvörðurinn í samtali við Morgunblaðið í gær.

"Rosenborg er langbesta liðið í Noregi og í þessum leik gekk hreinlega allt upp hjá leikmönnum liðsins; öll hlaup og allt spil; allar sendingar hittu á samherja og þeir yfirspiluðu okkur algjörlega. Ég sá Rosenborg vinna La Coruna frá Spáni 1:0 á heimavelli í Evrópukeppninni fyrir tæpum hálfum mánuði, og það var allt of lítill sigur. Rosenborg rúllaði yfir Spánverjana og hefði getað unnið þrjú, fjögur núll."

Fréttastofan NTB sagði, eftir leikinn í fyrrakvöld, að Bjarni hefði staðið sig mjög vel þrátt fyrir að hafa þurft að sækja knöttinn níu sinnum í netið. Bjarni sagði þetta e.t.v. hljóma undarlega, en væri þó engu að síður satt. "Ekkert af þessu var klaufamark og ekki hægt að kenna mér um neitt af þessu; ég hefði kannski átt að verja einu sinni," sagði hann. "Þeir tættu vörnina bara í sundur hvað eftir annað og voru oft tveir eða þrír á móti mér einum," sagði hann.

12. september 1992 líður Valsmönnum líklega seint úr minni, en þá tapaði liðið 1:9 fyrir KR að Hlíðarenda, og Bjarni stóð í markinu. Ekki neitaði hann að muna eftir þeirri viðureign og að hugurinn hefði jafnvel flögrað að Hlíðarenda eftir að hafa fengið níu mörk á sig aftur nú. "En þetta gerist ekki aftur í september eftir önnur tvö ár - ætli ég hætti ekki í ágúst '96!" sagði Bjarni og hló. Sannleikurinn er sá að hann leggur skóna á hilluna eftir síðasta leikinn með Brann í deildinni nú í haust, 16. október. "Þeir buðu mér samning fyrir næsta ár, en ég ákvað hætta núna og koma heim," sagði Bjarni í gær.

Í ham, en...

BJARNI Sigurðsson lék vel með Brann í fyrrakvöld, en fékk samt á sig níu mörk.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.