Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "Ef forsendur matsins standast ekki, þá er of seint að átta sig á því eftir að neyðarbrautin hefur verið fjarlægð. "

Í nýlegu áhættumati ISAVIA á Reykjavíkurflugvelli, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þolanleg áhætti fylgdi lokun neyðarbrautarinnar, kom fram að matið tæki ekki tillit til sjúkraflugs. Eingöngu var gert áhættumat fyrir flug sem skýrsluhöfundar kölluðu flutningaflug.

Þessi afstaða er mér alveg óskiljanleg. Af allri flugumferð þá er sjúkraflug líklega það flug þar sem öryggið skiptir hvað mestu máli. Reynt er að fljúga sjúkraflug við verstu veðuraðstæður, meira að segja þegar allir aðrir eru hættir að fljúga. Enda getur líf og heilsa sjúklings verið að veði, ef ekki tekst að komast á áfangastað. ISAVIA hlýtur að skulda skýringar á því af hverju það er talið þolanlegt að taka ekki tillit til þessa mikilvæga flugs.

Af hverju eru veðurforsendur ekki metnar?

Veðurforsendur áhættumatsins gera ekki ráð fyrir langtímabreytingum á vindafari, þrátt fyrir að 65 ára sveiflur í hitafari séu þekktar. Árin sem veðurmælingarnar miða við hafa verið einhver hlýjustu og mildustu ár í manna minnum. Þetta gæti verið að breytast, því samhliða aðeins kólnandi veðurfari undanfarið hafa hvassviðri orðið tíðari. Fyrir Reykjavíkurflugvöll hefur þetta t.d. þýtt að 6,5% lendinga sjúkraflugs voru á neyðarbrautinni fyrstu fimm mánuði þessa árs í samanburði við um 1,4% lendinga á tveggja og hálfs árs tímabili frá 2011-2014. Ef forsendur matsins standast ekki, þá er of seint að átta sig á því eftir að neyðarbrautin hefur verið fjarlægð. Af hverju er ekki unnin vönduð ítarleg greining á því hvort taka þurfi tillit til þessara langtímaveðursveiflna?

Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.