Í annað skipti á stuttum tíma er ég knúinn til að verja þessu pistilplássi í að ræða uppskáldaðan einstakling sem öðlaðist líf um miðja síðustu öld í bókum og svo í enn ríkari mæli í kvikmyndum í kjölfarið.
Í annað skipti á stuttum tíma er ég knúinn til að verja þessu pistilplássi í að ræða uppskáldaðan einstakling sem öðlaðist líf um miðja síðustu öld í bókum og svo í enn ríkari mæli í kvikmyndum í kjölfarið. Einstaklingurinn er tæplega miðaldra, opinber starfsmaður, einhleypur því aldrei helst honum á nokkurri konu, margfaldur mannsbani og gefinn fyrir sopann þegar sá er á honum gállinn. Hann heitir James Bond.

Ástæða þess, ágætu lesendur, að ég þarf enn að tjá mig um þennan geysivinsæla gallagrip er sú að það er allt í einu komið í tísku að amast við Bond blessuðum. Ástæðan er einkum sú að Daniel Craig, leikarinn sem fer með hlutverkið um þessar mundir, hefur verið helst til úrillur í viðtölum til kynningar á myndinni, rétt eins og hann var þegar hann lauk tökum á hinum Bond-myndunum þremur sem hann á að baki. Craig er að eigin sögn fáskiptinn rólyndismaður, sem hefur óbeit á heimskulegum spurningum og leiðist óþarfa fjas og mas um verkefni sín á hvíta tjaldinu. Þetta hafa margir misvitrir menn úr pressustétt fengið að reyna og fyrir bragðið má álykta sem svo að Craig kallinn sé lélegur í PR, þó hann sé líklega flinkasti dramatíski leikarinn af þeim sex sem leikið hafa Bond.

Craig er sumsé forn í skapi, einkum eftir átta mánaða erfiðistökur (hann slasaðist nokkrum sinnum við tökur á SPECTRE, væntanlegri Bond-mynd) og hefur ýmislegt á hornum sér, meira að segja Bond sjálfan. Þetta viðmót hans hefur verið vatn á myllu ákveðinna rétttrúnaðarhópa sem hafa ljáð máls á því að ekki veiti af því að rétta Bond af í takt við tímann. Hann sé kolúreltur karlrembugosi sem mál sé til komið að færa til betri vegar og til þess dugi ekkert minna en að gera hann svartan á hörund, jafnvel samkynhneigðan og hví ekki að gera hann barasta kvenkyns líka fyrst við erum á annað borð farin að hrista upp í formúlunni? Þetta er allt saman gott og blessað, og útkoman yrði vafalítið heillandi týpa – en hún er bara ekki James Bond. Bond, með öllum sínum meingöllum, er eins og hann er. Ég minni í þessu sambandi á flottan texta í lagi Páls Óskars:

„Ég er eins og ég er, og hvernig á ég að vera eitthvað annað?

Hvað verður um mig ef það sem ég er, er bölvað og bannað?“

Þetta gætu allt eins verið orð James Bond, í þeirri umræðu sem nú gengur.

Minnumst þess líka að það eru gallarnir, breyskleikinn og persónubrestirnir sem gera Bond svo heillandi. Við hrífumst, sumpart gegn betri vitund, af því hver hann er. Af sömu ástæðu þótti nærfellt öllum áhorfendum J.R. Ewing skemmtilegastur allra í Dallas þó hann væri rakinn skíthæll og ómenni. Af sömu ástæðu elskum við köttinn Garfield þó hann sé matgráðugur, morgunsvæfur og undirförull. Einhvers staðar verða vondir að vera. Líka Bond.

jonagnar@mbl.is

Jón Agnar Ólason