Ég kom inn í neðanjarðarlestina á Plaza Catalunua-stöðinni. Lestarvagnarnir voru á annan tuginn og þéttsetnir. Farþegunum átti bara eftir að fjölga þar til á áfangastað var komið. Þar sem ég tók mér stæði sátu bandarísk mæðgin.
Ég kom inn í neðanjarðarlestina á Plaza Catalunua-stöðinni. Lestarvagnarnir voru á annan tuginn og þéttsetnir. Farþegunum átti bara eftir að fjölga þar til á áfangastað var komið.

Þar sem ég tók mér stæði sátu bandarísk mæðgin. Þau voru líka á leið á völlinn. Drengurinn, á að giska 10 ára, iðaði í skinninu klæddur búningi félagsins frá toppi til táar og vandlega merktur stórstjörnu. Móðirin hélt á blaði með útprentuðum aðgöngumiðum á völlinn. Hún velti fyrir sér hvar rétt væri að stíga út úr lestinni. Stráksi var með allt á hreinu. Áfram hélt lestin og eftir því sem hún staldraði við á fleiri stöðum fjölgaði farþegunum. Ástandið var eins og íþéttfullri síldartunnu.

Þegar komið var á Les Corts-stöðina yfirgaf nokkur hópur lestina. Aðeins létti á þrýstingnum. Á Maria Christina-stöðinni steig ég út ásamt bandarísku mæðginunum og mörgum hundruðum öðrum. Þeir sem eftir voru biðu næstu stöðvar. Þúsundum saman gekk hópurinn áfram að fyrirheitna staðnum þetta kyrrláta laugardagskvöld í Barcelona. Straumurinn minnti helst á á sem fylgdi farvegi sínum alla leið í sætin sjávar.

Leikurinn var stórkostleg skemmtun. Sjö mörk skoruð. Þau hefðu þess vegna getað verið 15 ef markverðirnir hefðu verið eins sofandi á verðinum og varnarmennirnir. Það var gleði hjá 76.436 áhorfendum á Camp Nou. Eldri herramenn sem sátu fyrir ofan mig hlógu þegar andstæðingurinn skoraði annað mark sitt rétt fyrir leikslok.

Að leikslokum hélt hópurinn til baka. Tími var kominn á tapas eða paellu og svalandi drykk.