Betri horfur Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group.
Betri horfur Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group. — Morgunblaðið/Þórður
Icelandair Group sendi út afkomuviðvörun í Kauphöll Íslands í gær um að spá félagsins um EBIDTA hagnað fyrir þetta ár hafi verið hækkuð í 210-215 milljónir dollara, sem samsvarar 27-32 milljörðum króna.
Icelandair Group sendi út afkomuviðvörun í Kauphöll Íslands í gær um að spá félagsins um EBIDTA hagnað fyrir þetta ár hafi verið hækkuð í 210-215 milljónir dollara, sem samsvarar 27-32 milljörðum króna. Síðasta spá var 180-185 milljónir dollara eða 23-24 milljarðar króna.

Samkvæmt drögum að árshlutareikningi fyrir þriðja ársfjórðung var afkoma félagsins betri á fjórðungnum en ráðgert var þegar félagið uppfærði síðast afkomuspá sína. Þá hafa afkomuhorfur fyrir síðasta fjórðung ársins styrkst.

Árshlutauppgjörið verður birt á fimmtudaginn en samkvæmt drögum verður EBITDA-hagnaður þriðja ársfjórðungs um 150 milljón dollarar í samanburði við um 124 milljónir dollara árið á undan, sem er 21% hækkun. Helstu ástæður fyrir betri afkomu eru hærri farþegatekjur og lægri eldsneytiskostnaður, auk þess sem viðhaldskostnaður var lægri en áætlað hafði verið.

Í afkomuspá fyrir fjórða ársfjórðung gerir félagið ráð fyrir að evru/dollar-krossinn verði að meðaltali 1,12. Eldsneytisverð félagsins í október liggur þegar fyrir, en í spánni er gert ráð fyrir að verðið verði að meðaltali, án varna, 480 dollarar á tonn í nóvember og 550 dollarar á tonn í desember.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði í Kauphöllinni í gær um 3,63% í 1,5 milljarða króna viðskiptum yfir daginn. Bréf í félaginu fóru hæst í 33,9 krónur á hlut í gær en gengið endaði í 33,55 krónum á hlut í lok dags. Fyrir um ári var verðið 17,15 krónur á hlut og hefur það því nærri tvöfaldast.