Hluttekning Sá siður að flagga í hálfa stöng við andlát er að breytast.
Hluttekning Sá siður að flagga í hálfa stöng við andlát er að breytast. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Mér fannst þessi siður vera orðinn úreltur, enda er þetta samfélag gjörbreytt frá því sem var. Í bæinn hefur flutt fólk sem veit kannski engin deili á hinum látna og túristar voru hissa.
„Mér fannst þessi siður vera orðinn úreltur, enda er þetta samfélag gjörbreytt frá því sem var. Í bæinn hefur flutt fólk sem veit kannski engin deili á hinum látna og túristar voru hissa. Töldu kannski að þjóðhöfðingi væri látinn,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, bæjarfulltrúi í Norðurþingi.

Bæjarstjórnin þar samþykkti í síðustu viku tillögu Hjálmars Boga að hætt yrði að flagga íslenska fánanum við stjórnsýsluhúsið í Húsavík í hálfa stöng við andlát í bæjarfélaginu. Slíkt hefur tíðkast í áraraðir. Hefur reglan náð til fólks með heimilisfesti í bænum, einstaklinga sem legið hafa á sjúkrahúsinu í bænum og þeirra sem búið hafa fyrr á tíð í kaupstaðnum en eru fluttir á brott.

„Stutt er síðan flaggað var í hálfa stöng vegna einstaklings sem bjó hér en var fluttur héðan fyrir tæpum aldarfjórðungi, Mér fannst þetta orðið frekar langsótt, með fullri virðingu fyrir hinum látna,“ segir Hjálmar Bogi, sem er ánægður með að tillaga þessi var samþykkt í bæjarstjórn. Þar voru sex henni fylgjandi en þrír á móti. Í umræðum um málið tóku allir bæjarfulltrúar til máls.

Viðbrögð verið sterk

Þrátt fyrir að hætt verði að flagga í hálfa stöng við stjórnsýsluhúsið þegar andlát ber að, verður slíkt þó áfram gert við útfarir. Á Húsavík hafa jarðarfarir oft verið 15 til 18 á ári – og sé flaggað í hálfa stöng bæði á útfarar- og andlátsdegi gerir það 36 tilvik á ári. Með öðru tilfallandi voru fánadagarnir stundum í kringum 40 á ári.

„Þetta var ansi mikið og miðað við að kynslóðir koma og fara og fólki hér í bænum er að fjölga þá varð að breyta þesssu. Svona mál kalla þó jafnan á sterk viðbrögð, sem hafa verið heilmikil en yfirleitt jákvæð,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason.

sbs@mbl.is