[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.
Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Það má segja að það sé búinn að vera stanslaus fögnuður hjá okkur frá því leiknum við Strömsgodset lauk,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Rosenborg, við Morgunblaðið í gær en hann, Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar hans í Rosenborg tryggðu sér norska meistaratitilinn með því að gera 3:3 jafntefli við Strömsgodset í fyrradag. Þegar tvær umferðir eru eftir er Rosenborg með tíu stiga forskot á Strömsgodset en Rosenborg var að vinna meistaratitilinn í 23. sinn og í fyrsta sinn í fimm ár. Þá getur liðið bætt öðrum titli í safn sitt í næsta mánuði þegar það mætir Saarpsborg bikarúrslitaleik á Ullevi-leikvanginum í Ósló en Rosenborg hefur ekki unnið bikarinn síðan árið 2003.

Fínt að bæta þessu á ferilskránna

„Strax eftir leikinn var klukkutíma rútuferð frá Drammen til Gardemoen-flugvallar. Það er eðlilega mikið fjör og við komuna til Þrándheims var haldið beint á skemmtistað í bænum og þar var sungið og trallað fram eftir nóttu. Í dag var svo kökuveisla þar sem við úðuðum í okkur meistarakökunni,“ sagði Matthías við Morgunblaðið en hann fór frá Start á miðju tímabili og samdi við sigursælasta lið Noregs til loka tímabils 2017.

„Það er ansi ljúf tilfinning að vera orðinn Noregsmeistari. Það er fínt að bæta því á ferilskrána,“ sagði Ísfirðingurinn, sem þrívegis hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum með FH og tveimur bikarmeistaratitlum.

„Það er búið að ganga rosalega vel hjá Rosenborg í ár og ég var heppinn að fá tækifæri til að koma til félagsins í sumar og upplifa þetta. Það er mikil ánægja í bænum enda fólk búið að bíða í nokkur ár eftir titlinum. Nú er bara að fullkomna þetta frábæra tímabil með því að vinna bikarinn. Ég gerði mér góðar vonir þegar ég kom hingað um mitt tímabil að við yrðum meistarar enda var liðið í góðri stöðu. Það er sterkt að hafa haldið sjó og vera búnir að vinna titilinn þegar tvær umferðir eru eftir,“ sagði Matthías, sem hefur komið við sögu í 10 leikjum Rosenborg í deildinni og hefur í þeim skorað eitt mark

Matthías hefur leikið flestar stöður á vellinum með meistaraliðinu og í leiknum í fyrradag lék hann síðustu mínúturnar með Hólmari Erni í miðvarðarstöðunni.

„Ég kom inn á fyrir Söderlund en fljótlega fékk annar miðvörðurinn krampa svo ég beðinn um að leysa þá stöðu. Ég er búinn að spila sem fremsti maður, hef verið framliggjandi miðjumaður og einnig aftastur á miðjunni og nú bætti ég miðverðinum við. Nú á bara eftir að spila á kantinum og í bakverðinum. Ég er bara þakklátur að fá að spila og að vinna leikina. Ég vissi að það yrði mikil samkeppni um stöður í liðinu en ég leit á þetta ár sem góða innkeyrslu fyrir næsta tímabil þar sem ég ætla að eigna mér sæti í byrjunarliðinu,“ sagði Matthías en um næstu helgi tekur Rosenborg á móti titlinum eftir heimaleik á móti Haugasundi.

Ekki er hægt að sleppa Matthíasi án þess að spyrja hann út í landsliðið og möguleika hans á að komast í EM hópinn. „Ég held að það sé markmið flestra íslenska fótboltamanna að komast í hópinn sem fer á EM. Ég er engin undantekning og ég stefni bara á að gera eins vel og ég get með mínu félagsliði og vonast svo til að fá kallið.“

Frá því að Matthías yfirgaf Start hefur liðið ekki unnið leik og er í bullandi fallbaráttu. „Það eru blendnar tilfinningar hjá mér núna þegar ég er kominn með titil í hendur en sé svo gömlu félaganna í miklu basli. Það er ekki gaman að sjá það en vonandi tekst Start að halda sæti sínu.“