Matarhefðin „Það er komin góð hefð fyrir því hver gerir hvað og við erum ekki að hreyfa mikið við aðalréttunum,“ segir Rúnar Kristinsson sem hefur séð um jólamatinn ásamt Helgu Hallgrímsdóttur, tengdamóður sinni, í 25 ár.
Matarhefðin „Það er komin góð hefð fyrir því hver gerir hvað og við erum ekki að hreyfa mikið við aðalréttunum,“ segir Rúnar Kristinsson sem hefur séð um jólamatinn ásamt Helgu Hallgrímsdóttur, tengdamóður sinni, í 25 ár. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hefðirnar setja sterkan svip á jólin hjá mörgum og víða er hamborgarhryggurinn ómissandi á veisluborðinu á aðfangadag. Þau Helga Hallgrímsdóttir og tengdasonur hennar Rúnar Kristinsson kunna vel listina að elda góðan hamborgarhrygg.

Þau Helga og Rúnar hafa staðið vaktina saman í eldhúsinu á aðfangadag í rúman aldarfjórðung. „Við erum yfirleitt hjá okkur hér í Hálsaselinu á aðfangadag og svo hjá Rúnari og fjölskyldu í Mosfellsbænum á gamlárskvöld, en þá leyfi ég Rúnari líka alfarið að sjá um eldamennskuna,“ segir Helga. Rúnar er kokkur og vel kunnur listinni að laga góðan mat og kann Helga því vel að hafa hann með sér í eldhúsinu. „Mér finnst þetta alveg æðislegt,“ segir Helga og Rúnar kinkar kolli. „Þetta er voða þægilegt,“ segir hann. „Það er komin góð hefð fyrir því hver gerir hvað og við erum ekki að hreyfa mikið við kjötréttunum eða sósunni, þó að einhverjar nýjungar kunni að bætast við.“

Þau Helga og Rúnar eru oftast tvö um eldhússtörfin og segir Helga Rúnar vera verkstjórann. Fannar Helgi, elsti sonur Rúnars, bætist svo stundum í hópinn. „Hann hefur stundum hjálpað til eftir að hann varð stór,“ segir Helga.

Lítið mál að vera með tvo aðalrétti

Lengi vel var hamborgarhryggurinn aðalrétturinn á jólaborðinu og eru þau því orðin þrautþjálfuð í listinni að laga góðan hamborgarhrygg. En þar sem fjölskyldan er orðin stór eru aðalréttirnir nú orðnir tveir. „Síðastliðin 6-8 ár höfum við verið líka með fylltan kalkún og það má eiginlega segja að hann sé að taka yfir,“ segir Rúnar. „Það er gott að fá ferskt kjöt á aðfangadag, því að á jóladag er að sjálfsögðu hangikjöt á borðum,“ segir Helga. „Það eru helst krakkarnir sem kjósa ennþá hamborgarhrygginn,“ bætir hún við.

Rúnar segir lítið mál að vera með tvær tegundir af kjöti í aðalrétt. „Helga hefur oft verið búin að gera fyllinguna daginn áður og þá er hún bara tilbúin. Svo byrja ég á að úrbeina kalkúninn og fylla áður en honum er stungið inn í ofn og eftir það fer hamborgarhryggurinn í pottinn. Ég er yfirleitt komin hingað um eittleytið, svo er allt tilbúið og við komin í jólafötin klukkan sex.“

Waldorf-salatið er svo jafnan ómissandi með herlegheitunum, ásamt heimalöguðu rauðkáli og snöggsteiktu grænmeti. „Síðan höfum við verið með hasselback-kartöflur sem eru bakaðar í kjötsoði og þær verða enn betri ef þær eru penslaðar með andafitu. Ég á einmitt til andafitu núna þannig að þetta verður góður jólamatur.“

Hamborgarhryggur

Hamborgarhryggurinn er soðinn í potti skv. leiðbeiningum frá framleiðanda.

Gljái

2 dl tómatsósa

½ dl sætt sinnep

1 msk. dijon sinnep

3-4 msk. púðursykur

½ dl ananassafi

Hráefnið sett í pott og látið blandast saman við vægan hita. Þegar sykurinn hefur náð að bráðna saman við blönduna er gljáanum hellt yfir hamborgarhrygginn.

Hamborgarhryggurinn er þá settur í ofn við 170° C og látinn brúnast í ca. 20-30 mínútur.

Ýmist bjóða þau Rúnar og Helga upp á piparostasveppasósu eða púrtvínsgljáa með hamborgarhryggnum.

Piparostasveppasósa

Fyrir 10

1 piparostur, skorinn í teninga

2 pelar rjómi

2 dl kjötkraftur

1 box af Flúðasveppum

Sveppirnir eru steiktir á pönnu. Ostinum og rjómanum svo bætt út í og osturinn látinn bráðna. Kjötkrafti er svo bætt saman við ásamt örlitlu vatni. Sósan er svo látin malla við hægan hita í nokkrar mínútur á meðan hún er að taka sig.

Púrtvínsgljái

Fyrir 10

1 lítill rauðlaukur, fínt saxaður

2 dl púrtvín

2 msk. balsamik edik

1 l kjötsoð

1 msk. púðursykur

maisenamjöl

100 g kalt smjör

Púrtvínið er soðið aðeins niður með rauðlauknum. Balsamik-edik og púðursykur er því næst sett saman við og púðursykurinn látinn bráðna. Þá er kjötsoðinu bætt út í og gljáinn látinn malla á hægum hita í nokkrar mínútur. Rauðlaukurinn er því næst maukaður með töfrasprota svo hann blandist vel saman við sósuna. Þá er maísenamjöli hrært saman við og sósan þykkt eftir smekk. Gljáinn er því næst látinn sjóða í stutta stund og að því loknu er kalt smjör sett í sósuna. Hrærið í á meðan smjörið er að bráðna, en passið að það komi ekki upp suða á sósunni eftir að smjörið er komið saman við.

Hasselback-kartöflur

Kartöflur

½ l hænsnasoð

150-200 g smjör

Ef kartöflurnar eru fallegar þá er um að gera að hafa hýðið á þeim, en annars eru þær afhýddar. Rendur eru skornar í kartöflurnar. U.þ.b. 0,3 cm bil er á milli randanna sem ná ríflega hálfa leið niður í hverja kartöflu. Kartöflurnar eru þá settar í eldfast mót og hænsnasoðinu hellt yfir og svo penslað með smjöri og kryddað með salti og pipar. Kartöflurnar eru því næst bakaðar í ofni í 45-55 mínútur við 170-180° C. Kartöflurnar drekka í sig soðið á meðan þær bakast, sem gerir þær mjög bragðgóðar. Einnig má nota andafitu á kartöflurnar í stað smjörsins og verða þær þá algjört hnossgæti.

Steikt grænmetisblanda

gulrætur

sellerírót

paprika

rauðlaukur

blómkál

brokkólí

Grænmetið er skorið gróft niður, steikt í smjöri og smakkað til með salti og pipar.

aseinars@gmail.com