Gerð var könnun meðal innri endurskoðendanna um hvaða áherslur þeir vildu leggja í vinnu sinni.

Íslensk fyrirtæki eru í auknum mæli farin að huga að bættum stjórnarháttum og innra eftirliti. Þeir sem vinna með fyrirtækjum í fjölbreyttri starfsemi hafa orðið varir við aukinn áhuga þeirra á þessum þáttum eftir hrun. Fyrirtæki vilja gera betur en í fortíðinni og forðast að endurtaka mistök sem þá áttu sér stað. Auk þess eru nú fleiri þeirra en áður farin að gera sér grein fyrir að skipuleg stjórnun á áhættum er nauðsynleg forsenda innra eftirlits, mörg fyrirtæki vilja straumlínulaga ferla sína og starfsemi til að ná meiri árangri með minni tilkostnaði og flest fyrirtæki fara reglulega í gegnum stefnumótun til að móta framtíðarsýn og stefnu. Það er einmitt þetta síðastnefnda sem er trúlega mesta áskorunin fyrir fyrirtæki í dag því breytingar í umhverfi okkar eru svo hraðar og tæknibreytingar virðast hafa sífellt meiri áhrif á þarfir, væntingar, áhugamál og hegðun ungs fólks sem er að alast upp og eru viðskiptavinir framtíðarinnar.

Þessar breyttu væntingar og þarfir þurfa stjórnendur fyrirtækja að hafa í huga og ekki síður, innri endurskoðendur þeirra, þar sem um slíkt er að ræða. Á Íslandi eru fyrirtæki sem teljast einingar tengdar almannahagsmunum og nokkur önnur stór fyrirtæki með endurskoðunarnefnd sem undirnefnd stjórnar. Sum þeirra eru með innri endurskoðanda sem starfar fyrir stjórn og endurskoðunarnefnd en samkvæmt alþjóðlegum stöðlum á innri endurskoðun að hjálpa fyrirtækjum að ná markmiðum sínum og í því sambandi að endurskoða áhættustýringu, innra eftirlit og stjórnarhætti fyrirtækisins.

Síðastliðið vor var haldið alþjóðlegt málþing innri endurskoðenda hjá Deloitte, þar sem innri endurskoðendur erlendra stórfyrirtækja báru saman bækur sínar. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að hafa náð árangri í sinni starfsemi á undanförnum árum og vilja tryggja árangur sinn og samkeppnishæfni til framtíðar og hæfni til að halda í og laða að viðskiptavini framtíðarinnar. Gerð var könnun meðal innri endurskoðendanna um hvaða áherslur þeir vildu leggja í vinnu sinni næstu árin fyrir fyrirtækin sem þeir störfuðu hjá. Afurð málþingsins var níu áhersluatriði sem eru hér sett fram til umhugsunar fyrir stjórnendur fyrirtækja og innri endurskoðendur þeirra:

1. Væntingar hagsmunaaðila. Hvað finnst þeim um fyrirtækið, stefnu þess og framtíðarsýn?

2. Mannauðurinn, viðeigandi þekking, hæfni og reynsla. Tryggja þarf að rétt hæfni, menntun og reynsla sé til staðar í fyrirtækinu.

3. Sveigjanleiki og notkun ráðgjafa. Fyrirtæki þurfa að sýna rétt viðbrögð á réttum stað og tíma ef upp koma aðstæður sem bregðast þarf hratt við. Þá getur verið nauðsynlegt að leita til utanaðkomandi ráðgjafa ef sérþekking er ekki til staðar innan fyrirtækisins sjálfs.

4. Innri endurskoðun, hvernig fá fyrirtæki sem mest út úr henni? Til að fyrirtæki fái sem mest virði út úr innri endurskoðun er mikilvægt að gott jafnvægi sé á milli eftirlitshlutverks innri endurskoðunar og ráðgefandi hlutverks hennar.

5. Stefnumótun fyrirtækisins. Ekki má vanmeta áhættuna að það mistakist að móta stefnu til framtíðar sem tryggir velgengni fyrirtækisins inn í framtíðina. Svara þarf eftirspurn framtíðarviðskiptavina fyrirtækisins.

6. Mikilvægi áhættustýringar. Fyrirtæki þurfa í meira mæli en áður að formgera sína áhættustýringu til að hafa á hverjum tíma yfirsýn yfir þær áhættur sem koma í veg fyrir að þau nái markmiðum í sinni starfsemi.

7. Verið meðvituð um tækninýjungar. Tækninýjungar breyta starfsemi fyrirtækja og þegar ný tækni kemur fram á sjónarsviðið þurfa fyrirtæki að spyrja sig spurninga um hvernig þessi nýja tækni hefur áhrif á starfsemina.

8. Hlustið á innri endurskoðandann. Innri endurskoðandi fyrirtækisins á að leggja áherslu á það hlutverk sitt að aðstoða fyrirtækið við ná markmiðum sínum og nýtir við það reynslu sína og þekkingu á starfseminni, fagþekkingu og færni á sviði nýjustu tækni.

9. Áhrifarík samskipti – oft á myndrænu formi. Tími stjórnenda er mikilvægur og því þarf skýrslugjöf og samskipti stjórnenda að taka mið af því að koma upplýsingum á samþjappað, auðskiljanlegt og aðgen gilegt form til að auðvelda ákvarðanatöku. Oft getur myndræn framsetning sagt meira en þúsund orð.