Ómissandi Sindri segist mögulega vera að vaxa upp úr því að halda afmælisboð fyrir vinina en ættingjaboðið á aðfangadag muni halda sér.
Ómissandi Sindri segist mögulega vera að vaxa upp úr því að halda afmælisboð fyrir vinina en ættingjaboðið á aðfangadag muni halda sér. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ættingjarnir færa Sindra afmælisgjafirnar á aðfangadag en hann heldur veisluna fyrir vinina í janúar.

Sindri Snær Jónsson fæddist á aðfangadag og er hreint afskaplega lukkulegur með það. Sindri verður 17 ára í desember en var í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 2006, þá að verða átta ára, og var afmælisdagurinn til umræðu. Í viðtalinu var sagt frá því að Sindri hefði sýnt föður sínum,sem þá var í strembnum prófum, þá tillitssemi að fresta komu sinni í heiminn. Var von á Sindra 12. desember en hann lét bíða ögn eftir sér.

„Við höfum haft það fyrir sið að halda afmælisboð fyrir ættingjana í hádeginu á aðfangadag en ég fengið að halda boð fyrir vinahópinn í janúar þegar skólinn er byrjaður. Þegar ættingjarnir koma í heimsókn er boðið upp á kökur og hefðbundið meðlæti en pítsurnar og nammið verða fyrir valinu í veislunni í janúar,“ segir Sindri sem býst samt við því að vera að vaxa upp úr afmælisveislum, í það minnsta með vinunum. „Ættingjaafmælið mun samt halda áfram að vera fastur liður.“

Gjafirnar ekki eins

Hefur þess verið gætt að Sindri fái bæði afmælisgjafir og jólagjafir og lýsir hann því að gjafirnar geti verið mjög ólíkar eftir því hvort þær eru ætlaðar afmælisbarninu eða fara undir jólatréð. „Í afmælisgjöf gæti ég átt von á litlum pökkum, bókum eða peningum, en jólagjafirnar eru yfirleitt stærri og veglegri.“

Aðspurður hvort það sé ekki mikið basl fyrir foreldrana að halda afmælisboð í miðju jólastússinu bendir Sindri á að faðir hans og móðir fari tiltlölulega létt með að leysa verkið vel af hendi. Með því að halda upp á afmælið og jólin sama dag þurfi ekki heldur að þrífa heimilið og gera það fínt í tvígang. Er helst að það geti orðið hausverkur að finna nægilega mörg sæti fyrir alla gestina sem koma í kringum hádegið.

Það er merkilegt að Sindra virðist takast að hólfa daginn þannig niður að jólastemningin blandast ekki saman við afmælisstemninguna. „Afmælið mitt eru einfaldlega þessir þrír eða fjórir tímar, en svo halda gestirnir á braut og þá dett ég í jólagírinn, eiginlega um leið og klukkan slær fjögur.“

Ekki er erfitt að fá ættingjana til að líta inn og heilsa upp á afmælisbarnið, þótt margir hafi eflaust í mörg horn að líta á síðustu metrunum fyrir jólin. Virðist sem afmælisboð Sindra sé orðið að eins konar jólahefð í fjölskyldunni og tækifæri til að hittast yfir súkkulaðiköku afmælisbarnsins.

Feikinóg af pökkum

Fyrri hluta dagsins opnar Sindri afmælisgjafirnar og svo jólagjafirnar um kvöldið. Má heyra á honum að gjafirnar hafi stundum verið svo margar að hann hafi vart náð að henda reiður á þeim öllum. „Það gerðist stundum að ég fann inni í herbergi hjá mér einn eða tvo pakka sem ég hafði hreinlega gleymt.“

Sindri á bróður sem er nokkrum árum yngri og litla systur sem varð átta ára á þessu ári. Þegar Sindri var yngri varð það að reglu að litli bróðir fengi að velja einn eða tvo jólapakka til að opna snemma fyrst stóri bróðir var á kafi í afmælisgjöfum. „En ég held að sú hefð hafi lagst af þegar hann var um tíu ára og fór að hæta að gráta yfir því að fá ekki gjafir í byrjun dags eins og ég.“ ai@mbl.is

„Hver fæddist á jólunum?“

Í grunnskóla þótti bekkjarsystkinum Sindra mjög merkilegt að hann ætti afmæli á jólunum og varð fljótlega að innanbúðarbrandara hjá hópnum. Í viðtalinu sem Orri Páll Ormarsson tók við Sindra árið 2006 er sagt frá því þegar hópurinn fór í eftirminnilega ferð.

Í viðtalinu segir: „Sindri býr á Álftanesi og sótti Bessastaðakirkju heim fyrir jólin ásamt skólafélögum sínum til að fræðast m.a. um fæðingu frelsarans. Þegar presturinn spurði börnin hvort þau vissu hver hefði fæðst á jólunum stóð ekki á svarinu. Öll risu börnin úr sætum og mæltu einum rómi: „Sindri!““