Hefðir „Á jóladag eru engin jólaboð en í hádeginu skapast á heimilinu dönsk stemning með girnilegum samlokum, salötum, síld og bjór, fyrir þá sem vilja,“ segir matgæðingurinn Helga Mogensen. „Klæðnaðurinn er jólanáttfötin og ullarsokkarnir fram eftir degi og dagurinn fer í bóklestur og slökun. “
Hefðir „Á jóladag eru engin jólaboð en í hádeginu skapast á heimilinu dönsk stemning með girnilegum samlokum, salötum, síld og bjór, fyrir þá sem vilja,“ segir matgæðingurinn Helga Mogensen. „Klæðnaðurinn er jólanáttfötin og ullarsokkarnir fram eftir degi og dagurinn fer í bóklestur og slökun. “ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helga Mogensen heilsukokkur matreiðir ávallt ljúffenga hnetusteik á jólum, ásamt lambakjöti og villibráð. Henni finnst gaman að breyta út af venjunni þegar meðlætið og eftirréttir eru annars vegar og býður upp á fallegt grænmeti og deserta sem alltaf vekja lukku.

Hnetusteikin er í aðalhlutverki á mínu jólaborði, ásamt grænmetinu, auk þess sem ég geri lambakjötinu hátt undir höfði,“ segir Helga Mogensen, heilsukokkur og veitingakona. Helga er matgæðingum að góðu kunn, á liðnum árum hefur hún tekið þátt í uppbyggingu vinsælla heilsu- og grænmetisveitingastaða, Krúsku, Lifandi markaðs og Á næstu grösum, og fyrir tveimur árum setti hún á markað eigin vörulínu – heilnæman sælkeramat undir heitinu Úr eldhúsi Helgu Mogensen.

„Með stækkandi fjölskyldu er villibráð nú líka á borðum á jólum, sem Haraldur tengdasonur minn sér um að matreiða, ásamt bökuðu rótargrænmeti og eplasalati, veislan er svo fullkomnuð með góðri sósu og apríkósuchutney. Stundum er möndlugrauturinn hafður í forrétt og með honum möndlugjöf, en eftirrétturinn á aðfangadagskvöld er breytilegur frá ári til árs. Góður heimalagaður ís með súkkulaðisósu vekur þó alltaf mesta lukku eða tiramisu.“

Konfekt og bók

Aðspurð segist Helga alltaf hlakka til desembermánaðar, í aðdraganda jóla gefist næg tilefni til að gera sér glaðan dag. „Aðventan er frábær tími og mér finnst allur undirbúningur fyrir jólin skemmtilegur. Á aðventunni nýt ég gæðastunda með góðum vinum, rápa í búðir í leit að jólagjöfum, skoða jólabækurnar og byrja jafnvel að lesa eina eða tvær. Ég er ekki mjög föst í hefðum, þeim hefur fækkað með árunum. Í eldhúsinu legg ég meiri áherslu á matinn en jólasmákökurnar, en útbý samt alltaf möndlukonfekt og súkkulaðihnetusnakk.

Hátíðleg tónlist er ómissandi á aðventunni og fær að hljóma alla daga heima í stofu, þar sem ég hlusta mest á klassísk jólalög. Svo finnst mér nauðsynlegt að fara á jólatónleika í desember með systkinum mínum, við höfum gert það undanfarin ár; í fyrra voru það Sætabrauðsdrengirnir en í ár ætlum við á tónleika með Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni.

Ég fer aldrei fram úr sjálfri mér þegar kemur að jólaskrauti heldur skreyti heimilið hóflega með lifandi greni, kertum og skrauti sem mér hefur áskotnast í gegnum tíðina og kallar fram fallegar og ljúfar minningar. Heimilið fær á sig hátíðarblæ þegar skrautið er komið upp og ég nýt þess að anda að mér greniilmi og lesa við kertaljós. En svo er ég líka alveg tilbúin að taka niður jólaskrautið þegar nýja árið er gengið í garð og þá helst fyrir þrettándann.“

Sápa með reykelsi

Á Þorláksmessu bíður Helgu ánægjulegt verkefni og þá er jólaundirbúningnum líka að mestu lokið. „Þorláksdagur er alltaf svolítið skemmtilegur, þá er ég oftast komin í jólafrí og heimilið angar af sápu, greni og reykelsi. Seinnipartinn byrja ég að keyra út jólagjafir og svo finnst mér nauðsynlegt að fara niður í bæ og rölta Laugaveginn, taka inn jólastemninguna, hitta vini og gleðjast.

Aðfangadagur byrjar fallega í kirkjugarðinum með stórfjölskyldunni, þar sem við komum saman yfir leiði foreldra minna og kveikjum á kertum. Þar skiptumst við systkinin á gjöfum, kyssumst og knúsumst og eigum ljúfa stund saman og síðan fer hver í sína áttina og inn í jólin. Í mínum huga er það sérstök stund að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan sex, hlýða á ljúfa tóna úr útvarpinu og finna ilminn úr eldhúsinu.

Ég hef alltaf kunnað að njóta jólanna en finnst þau sérlega skemmtileg síðustu árin, eftir að barnabörnin komu í heiminn. Ég er heppin með tengdasyni og þeir eru ansi liprir þegar kemur að því að elda góðan mat; eru næmir kokkar og til í að gera tilraunir. Ég er svo ánægð með hvað þau eru öll opin, bæði dæturnar og tengdasynirnir, og tilbúin að prófa eitthvað nýtt úr eldhúsinu en þó ríkir á meðal þeirra skemmtileg íhaldssemi.“

Inni á ullarsokkum

Helga leggur áherslu á að jóladagur sé heilagur á hennar heimili, í orðsins fyllstu merkingu. „Þá er allt á rólegu nótunum. Klæðnaðurinn er jólanáttfötin og ullarsokkarnir fram eftir degi og dagurinn fer í bóklestur og slökun, jafnvel með góðum göngutúr. Á jóladag eru engin jólaboð en í hádeginu skapast á heimilinu dönsk stemning með girnilegum samlokum, salötum, síld og bjór, fyrir þá sem vilja.

Um kvöldið er framreiddur hátíðarmatur úr kjötafgöngum, ásamt dýrindissalötum, og í eftirrétt er súkkulaðikaka með ís og hindberjasósu. Jóladagur er því dásamlegur, en reyndar eru áramótin skemmtilegust og gamlársdagur og nýársdagur mínir uppáhaldsdagar. Það er alltaf sérstök tilfinning að kveðja gamla árið og taka á móti því nýja, full tilhlökkunar.“

beggo@mbl.is