Rækja Verð á soðinni og pillaðri rækju hefur haldist hátt fyrstu níu mánuði ársins og um þriðjungi hærra en árið á undan, reiknað í evrum.

Rækja Verð á soðinni og pillaðri rækju hefur haldist hátt fyrstu níu mánuði ársins og um þriðjungi hærra en árið á undan, reiknað í evrum. Það sem kynti undir verðhækkun var samdráttur í framboði á eldisrækju frá Asíu en aðrar eldisþjóðir, svo sem Brasilíumenn og Ekvadorar, hafa verið að fylla upp í þennan samdrátt. Verð á kaldsjávarrækju hefur samt hækkað fram eftir ári en virðist vera undir þrýstingi núna í haust.

Bretland er langstærsti markaður fyrir pillaða rækju frá Íslandi og Danmörk er einnig mikilvæg. Rækjuvinnsla á Íslandi er háð innflutningi á hráefni og fyrstu níu mánuði ársins voru flutt inn rúm 21 þúsund tonn af ópillaðri rækju, sem er meira tvöfalt meira magn en í fyrra. Langmest af hráefninu er flutt inn frá Kanada og hefur verð þess (CIF) einnig hækkað hlutfallslega í takti við afurðaverðið.

Rækjuveiðin hefur einnig aukist og í september var tæpum 11 þúsund tonnum landað á móti tæpum 6 þúsund tonnum á sama tíma í fyrra. Rækjuvinnslurnar á Íslandi hafa því tekið á móti rúmlega 90% meira hráefni á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tímabili 2014.