Talið er að alls hafi um 520 manns farið til Sýrlands eða Íraks frá Belgíu til að ganga til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista, fleiri en frá nokkru öðru landi Evrópu ef miðað er við íbúafjölda, samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Talið er að alls hafi um 520 manns farið til Sýrlands eða Íraks frá Belgíu til að ganga til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista, fleiri en frá nokkru öðru landi Evrópu ef miðað er við íbúafjölda, samkvæmt nýjustu upplýsingum. Um 120 Belganna, sem hafa barist með Ríki íslams, hafa snúið aftur til Belgíu, en talið er að 60 til 70 hafi beðið bana í Sýrlandi eða Írak, að sögn Pieters Van Ostaeyen sem hefur rannsakað þátttöku belgískra ríkisborgara í starfsemi hryðjuverkasamtakanna.

Fregnir herma að Belginn Abdelhamid Abaaoudi hafi skipulagt hryðjuverkin í París á föstudaginn var þegar 129 manns létu lífið og um 350 manns særðust. Að minnsta kosti þrír árásarmannannanna höfðu dvalið í Belgíu áður en árásirnar voru gerðar.

Veikur hlekkur í baráttunni

Þetta er í fjórða skipti á einu og hálfu ári sem hryðjuverk í Evrópu eru rakin til íslamskra öfgamanna í Belgíu. Öryggisyfirvöld í öðrum löndum hafa lengi litið á Belgíu sem veikan hlekk í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi íslamista og ástæðurnar eru margar, að mati fréttaskýrenda. Þeir benda m.a. á að stjórnkerfið í Belgíu er flókið og lagskipt og segja að það geti torveldað lögreglunni að hafa eftirlit með öfgahópum, auk þess sem rígur sé milli einstakra greina þess og milli frönsku- og flæmskumælandi manna. „Belgía er sambandsríki og það er alltaf hryðjuverkamönnum í hag,“ hefur fréttaveitan Reuters eftir Edwin Bakker, prófessor við Leiden-háskóla í Hollandi. „Lagskipt stjórnkerfi hamlar upplýsingastreymi milli rannsóknarmanna.“

Fréttaskýrendur benda m.a. á að Brussel er skipt í sex lögregluumdæmi. Borgin er einnig álitin kjörin miðstöð fyrir öfgahópa vegna þess að þar er stór svartamarkaður með vopn eins og árásarriffla. Gangverðið á AK 47-rifflum er þar um 800 til 1.000 evrur (110.000 til 140.000 krónur), að sögn sérfræðinga. „Belgía er ein af helstu miðstöðvum ólöglegrar vopnasölu í Evrópu vegna þess að þar eru margir vopnasalar frá Balkanlöndum. Um 90% af svartamarkaðsvopnunum koma frá stríðunum í Júgóslavíu,“ hefur fréttavefur Aftenposten eftir Claude Moniquet, forstöðumanni hugveitunnar European Strategic and Security Centre.

Norski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Øyvind Strømmen telur að uppgang hreyfinga íslamista í Belgíu megi einnig rekja til þess að þær séu vel skipulagðar og undir stjórn klókra leiðtoga sem séu gæddir sérstökum hæfileika til að hrífa fólk með sér og vinna ungmenni úr röðum múslíma á sitt band. Í því sambandi bendir hann á hreyfinguna Sharia4Belgium undir forystu Fouads Belkacem, sem afplánar nú tólf ára fangelsisdóm, og segir að hún hafi fengið fleiri til liðs við sig en aðrar hreyfingar íslamista í Evrópu.

Rannsókn Van Ostaeyen bendir til þess að margir Belganna, sem hafa farið til Sýrlands, séu félagar í Sharia4Belgium, að sögn Aftenposten . Hreyfingin virðist vera öflug í Melenbeek, úthverfi Brussel. Í sumum svæðum hverfisins eru allt að 80% íbúanna múslímar og mikið atvinnuleysi er þar meðal unga fólksins sem öfgahreyfingin leggur áherslu á að laða til sín. bogi@mbl.is