Haukur Már segir tölurnar sýna að sjávarútvegurinn er farinn að fjárfesta af kappi. Munu t.d. bætast a.m.k. 12 glæný skip við flotann á árunum2015-17
Haukur Már segir tölurnar sýna að sjávarútvegurinn er farinn að fjárfesta af kappi. Munu t.d. bætast a.m.k. 12 glæný skip við flotann á árunum2015-17 — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Velta tæknigeirans í sjávarútvegi nálgast það að vera meiri en veltan í sölu á þorskflökum. Fjárfestingar í sjávarútvegi eru á uppleið og fiskeldi vex hratt.

Á dögunum kom út skýrslan Sjávarklasinn á Íslandi: Efnahagsleg umsvif og afkoma 2014 . Það er Íslenski sjávarklasinn sem vinnur skýrsluna og er þetta fimmta árið í röð sem tölur og staðreyndir um þróun sjávarútvegs og helstu hliðargreina eru teknar saman með þessum hætti.

Haukur Már Gestsson er höfundur skýrslunnar ásamt þeim Bjarka Vigfússyni og Þór Sigfússyni. Haukur segir sjávarútveginn og tengdar greinar í dag mynda á bilinu 25-30% af landsframleiðslu. „Beint framlag sjávarútvegsins er ekki nema 8,5% af landsframleiðslu, en þá er eftir að taka tillit til þess að um grunnatvinnuveg er að ræða og utan um hann myndast hliðargreinar sem væru ekki eins umfangsmiklar ef sjávarútvegsins nyti ekki við.“

Tæknigeirinn vaxið 10-15% árlega

Sem dæmi um þessi áhrif nefnir Haukur tæknigeira sjávarútvegsins. „Við mælum vöxt tæknigeirans fjórða árið í röð, en öll fjögur árin hefur hann vaxið um 10-15% að raunvirði og veltir í dag um 60 milljörðum króna. Til að setja þá tölu í samhengi flytur íslenskur sjávarútvegur út afurðir fyrir 244 milljarða og sala á þorskflökum nemur 65 milljörðum. Er því stutt í að tæknigeiri sjávarútvegsins velti jafn miklu og allur þorskflakaútflutningur.“

Skýrir Haukur mikinn vöxt tæknigreinarinnar meðal annars með veikingu krónunnar sem bætt hafi alþjóðlega samkeppnishæfni tæknifyrirtækjanna. „Á sama tíma og krónan lækkaði var eftirspurnin lítil á heimamarkaði enda íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mörg mjög skuldug og óvissa í rekstrinum. Hefur fjárfesting í sjávarútveginum tekið aftur við sér á undanförnum 2-3 árum sem svo eykur enn frekar á vöxtinn.“

Flotinn endurnýjaður

Í skýrslunni er einnig fjallað um hækkandi meðalaldur íslenska flotans. Hefur meðalaldur íslenskra togara hækkað jafnt og þétt og segir Haukur að skýringin sé sú að útgerðirnar hafi haldið að sér höndum við kaup á nýjum skipum. „En nú er það að breytast og vitum við af að minnsta kosti 12 nýjum skipum sem koma til landsins á árunum 2015-2017, og er það langtum meira en í venjulegu árferði.“

Bendir Haukur á að sjávarútvegsfyrirtækin hafi einblínt á að greiða upp skuldir árin eftir hrun. „Efnahagsreikningurinn leyfði það ekki þá, en leyfir það núna að fjárfest sé í nýjum togara. Þá þykir skipaverð almennt hagstætt um þessar mundir, lítið af verkefnum í mörgum skipasmíðastöðvum og samkeppni um smíðarnar. Fjármögnun á skipum er líka auðveld þessi misserin og oft hægt að kaupa skipin á mjög hagstæðum vöxtum.“

Segir Haukur að með nýrri flota skapist tækifæri til betri nýtingar og hagkvæmara veiðimynsturs. „Nýju skipin bjóða upp á að koma með meira að aukaafurðum að landi og oft nær eitt skip að koma í stað tveggja eldri.“

Minni afli en betri nýting

Í skýrslunni er einnig dregið fram hvernig heildarafli hefur dregist mikið saman mælt í tonnum. Nam heildaraflinn 2,13 milljónum tonna árið 2002 en 1,08 milljónum tonna árið 2014. Þegar litið er á heildaraflann á tímabilinu 2000-2014 hefur heildaraflinn aldrei verið minni en á síðasta ári ef undanskilið er árið 2010 þegar veiddust 1,06 milljón tonn. Jókst veiðimagnið 2012-2013 en lækkaði svo aftur.

Haukur segir samdráttinn einkum í uppsjávartegundum, s.s. síld og loðnu, og slök loðnuvertíð sem skýrir að langmestu leyti samdráttinn sem verður milli 2013 og 2014. Athygli vekur að útflutningsverðmæti dregst ekki saman að sama marki. „Á sama tíma eru fyrirtækin að leita leiða til að nýta bolfiskinn betur og ráðstafa honum í fleiri og verðmætari afurðir.“

Þessu tengt hefur útflutningsmagn ferskra þorskafurða aukist mjög og ferskar þorskafurðir verið æ veigameiri í heildarverðmæti fiskútflutnings. Árið 2000 voru flutt úr landi rétt rúmlega 5.000 tonn en nálgaðist 24.000 tonn árið 2014. „Aukningin er afrakstur vinnu sem hófst strax í byrjun 10. áratugarins. Uppbyggingin hefur verið hæg en markviss og náð til allra sviða. Veiðimynstrið er klárt, vinnslan og flutningarnir líka, og aflinn einnig að aukast á síðustu árum. Má jafnvel færa fyrir því rök að uppgangur í ferðaþjónustu hjálpi til því fiskurinn fer um borð í flugvélar sem eru þá hvort eð er á leiðinni yfir hafið, og gerir það flutningskostnaðinn lægri en annars væri. Fjölgar líka beinum flugtengingum með hverju árinu,“ segir Haukur.

Einstakur hraði

„Engin önnur þjóð í heiminum er að flytja út ferskan unninn þorsk í sama mæli, og helst að Norðmennirnir geti sagst gera eitthvað svipað en þeir flytja fiskinn til meginlands Evrópu með flutningabílum. Íslenskur þorskur er jafnvel kominn í kæliborð verslana tveimur sólarhringum eftir að hann var veiddur og á mörgum stöðum geta ekki einu sinni sjávarútvegsfyrirtæki heimamanna keppt við þennan hraða.“

Aukning er einnig í fiskeldi. Árið 2009 var slátrað um 5.000 tonnum af heilum óslægðum fiski en rúmlega 8.000 tonnum árið 2014 og stefnir í vel yfir 11.000 tonn árið 2015. „Frá 1972 má segja að þrjár árangurslausar fjárfestingabylgjur hafi gengið yfir í fiskeldi hér á landi. En núna virðist þessi grein vera að breytast, fyrirtækin eru reynslunni ríkari og áberandi að erlend fjárfesting er orðin meiri. Erlendu aðilarnir koma ekki bara með peninga inn í landið heldur líka verðmæta þekkingu á sjálfu eldinu og allri starfsemi virðiskeðjunnar,“ útskýrir Haukur. Miðað við áætlanir fiskeldisfyrirtækjanna gæti umfangið verið komið upp í yfir 30.000 tonn af slátruðum fiski á næstu 10-15 árum.“