Sólveig Pálsdóttir fæddist 25. febrúar 1968. Hún lést 27. október 2015.

Foreldrar Sólveigar eru Páll Sigfússon og Þórey Eiríksdóttir, fyrrum bændur á Hreiðarsstöðum í Fellum. Systur Sólveigar eru Hildur, Sólrún, Guðbjörg, Þórey Eiríka, Stefanía og Ásgerður.

Sólveig giftist Kára Sigmari Gunnlaugssyni frá Heiðarseli í Hróarstungu árið 1990. Foreldrar Kára eru Gunnlaugur Gunnlaugsson og Gunnhildur Björnsdóttir. Dætur Sólveigar og Kára eru: 1) Katrín Huld, f. 21. júlí 1987, sambýlismaður hennar er Björn Þór Sigurðsson. 2) Linda Hrund, f. 7. maí 1991, d. 23. janúar 2012. Barnsfaðir hennar er Sigurður Guðjónsson. Dóttir Lindu Hrundar og Sigurðar er Unnur Kristín, f. 7. júlí 2010.

Sólveig ólst upp á Hreiðarsstöðum í Fellum. Árið 1986 flutti hún í Egilsstaði og hóf sambúð með Kára Gunnlaugssyni. Árið 1992 tóku hjónin við kúabúskap af foreldrum Sólveigar á Hreiðarsstöðum og voru við búskap til ársins 2000 en bjuggu áfram á Hreiðarsstöðum til ársloka 2012 en þá fluttu hjónin í Egilsstaði. Sólveig vann utan heimilisins með búskapnum, lengst af hjá Kaupfélagi Héraðsbúa við ýmis störf, m.a. sem verslunarstjóri. Árin 2008-2010 starfaði hún í kerskála Alcoa Fjarðaáls. Sólveig hóf nám við Menntaskólann á Egilsstöðum 2010 og lauk stúdentsprófi í árslok 2012, hóf síðan nám í mannfræði við Háskóla Íslands haustið 2013. Samhliða námi dvaldi Sólveig í Reykjavík þar sem hún lést.

Útförin fór fram í kyrrþey 7. nóvember 2015.

Elsku Sólveig.

Það er enn svo óraunverulegt að þú skulir vera farin frá okkur. Þú virtist vera ánægð með lífið þegar við kvöddumst í byrjun september og tilbúin að takast á við komandi verkefni í náminu þínu. Þú varst full af metnaði og stóðst þig verulega vel.

Við áttum ánægjulegar stundir þegar við fórum saman í reiðtúra á þessum fáu sólardögum í ár, sem og aðra daga í gegnum árin.

Eftir að þú fluttir suður höfum við talað sjaldnar saman, en hugurinn hefur ávallt verið hjá þér, Unni, Kára og Katrínu og ekki síst Lindu.

Vonandi eruð þið Linda saman á ný og ykkur líður vel.

Þín verður ávallt sárt saknað.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Carola og Ragnar.