Munaðarlaus Ekki eru allir hundar og kettir svo lánsamir að eiga einhvern að sem dekrar þau um jólin. Úr Kattholti.
Munaðarlaus Ekki eru allir hundar og kettir svo lánsamir að eiga einhvern að sem dekrar þau um jólin. Úr Kattholti. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólin eru tími til að gleðjast með öllum fjölskyldumeðlimum – líka þeim sem hafa trýni og skott. Er líka til fjöldinn allur af skemmtilegum vörum sem ættu að kæta loðbörnin á heimilinu.

Jólin eru tími til að gleðjast með öllum fjölskyldumeðlimum – líka þeim sem hafa trýni og skott. Er líka til fjöldinn allur af skemmtilegum vörum sem ættu að kæta loðbörnin á heimilinu. Blaðamaður settist niður með hundinum sínum og kisu og fann með þeim í sameiningu nokkra eigulega hluti sem fara á óskalistann í ár.

Hlý peysa frá Ralph Lauren

Þó svo að úti sé snjór og slabb verður voffi að fá sinn labbitúr. Reyndar eru flestir hundar með nægilega hlýjan feld til að láta ekki kuldann á sig fá, svo lengi sem þeir eru á hreyfingu. En það sakar samt ekki að fjárfesta í skjólflík, hvað þá ef hún er jafn falleg og þessi jólalega peysa frá Ralph Lauren.

Bandaríska tískumerkið Ralph Lauren býður upp á úrval af hundafatnaði í netverslun sinni, á slóðinni www.ralphlauren.com, og sumar flíkurnar eru meira að segja hundaútgáfur af mannafötum.

Svarta hundapeysan frá Ralph Lauren kostar 95 dali fyrir utan sendingarkostnað og skatta.

Jólasveinabúningur frá Rubies

Hundar og jólasveinar eiga það sameiginlegt að koma með galsa og góða skapið með sér hvert sem þeir fara. Af hverju þá ekki að klæða hundinn eins og jólasvein, þó ekki væri nema til að taka skemmtilega mynd á jólakortið, eða til að setja á Facebook?

Búningurinn hér til hliðar kostar 13,33 dali á Amazon fyrir skatta og sendingarkostnað.

Lítill bróðir eða systir til að leika við

Ekki eru allir hundar og kettir svo lánsamir að eiga einhvern að sem dekrar þau og knúsar um jólin. Hjá samtökum á borð við Dýrahjálp og Kattholt má finna fjölda dýra í heimilisleit. Ef fyrir er fjórfætlingur á heimilinu þarf ekki að vera alveg útilokað að bæta við nýju dýri, svo lengi sem farið er hægt og varlega í sakirnar. Þeir sem ekki treysta sér til að bæta við nýjum heimilismeðlim með mjúka þófa eða blautt nef ættu þá kannski að skoða að láta í staðinn einhverja upphæð af hendi rakna til þess starfs sem unnið er í þágu dýra hérlendis eða erlendis.

Star Wars-gæludýravörur

Ný Star Wars-kvikmynd fer í sýningar um miðjan desember og einnig er nýr Star Wars-tölvuleikur að fara í sölu. Markaðsmaskínan er löngu farin á fljúgandi ferð og meira að segja gælduýrabúðirnar fullar af Star Wars-varningi.

Hjá bandarísku gæludýraversluninni Petco.com má finna fjöldann allan af Star Wars-vörum fyrir hunda og ketti. Hver veit nema heimiliskötturinn leyfi eigandanum, eftir smáfortölur, að festa á sig Leiu-prinsessuhúfuna. Hvort húfan, sem kostar 4,99 dali, fær að sitja óhreyfð á kolli kisu er svo eitthvað sem kemur í ljós, enda eru kettir þekktir fyrir að vilja rífa af sér hvers kyns fatnað umsvifalaust.

Væri sennilega skynsamlegri fjárfesting að kaupa Chewbacca-kattarólina, sem einnig er seld á 4,99 dali. Glöggir lesendur sjá að mynstrið á ólinni er innblásið af beltinu sem besti vinur Hans Óla klæðist, slengt yfir öxlina.

Hundurinn á heimilinu hefði líka eflaust gaman af að fara í smáreiptog með leikfanginu sem mótað hefur verið í mynd nýja Star Wars-illmennisins Kylo Ren og kostar 12,99 dali áður en sendingarkostnaði og sköttum hefur verið bætt við.

Klifurkastali fyrir hefðarketti

Ef kettir gætu talað þá myndu þeir ekki vera lengi að byrja að kvarta yfir því að þeir lifi ekki í nægilega miklum lúxus. Hvar er gullhúðaða matarskálin? Hvað á það að þýða að ekki er búið að fjárfesta í klórustaur úr dýrasta silki og gimsteinum?

Fyrir þá sem geta lesið hugsanir kattarins síns kemur fátt annað til greina en að kaupa þessi jólin þetta kattar-tréhús frá húsgagnaframleiðandanum Frontgate (www.frontgate.com).

Eins og sjá má á myndinni er um óvenjulega og metnaðarfulla smíði að ræða þar sem fara saman trjágreinar til að klifra í, laufblöð til að fela sig bak við, hillur til að sitja á og fylgjast með umhverfinu með vandlætingarsvip, og kofi á neðstu hæðinni þar sem má leita skjóls.

Herlegheitin kosta á bilinu 699-1.500 dali eftir því hvaða stærð er valin. ai@mbl.is